Hún var frekar sérstök fréttaskýringin sem birtist í Spegli Ríkisútvarpsins síðastliðin föstudag. Upplegg fréttaskýringarinnar var sú tilgáta Ævar Arnar Jósepssonar fréttamanns að ekki geti farið saman að fyrirtæki séu sómasamlega rekin og þau sýni „samfélagslega ábyrgð“ á sama tíma.

Spegillinn bar það undir Auði Ölfu Ólafsdóttur, sérfræðing ASÍ í neytendamálum, hvort og þá hvernig stórfyrirtæki sýni sína yfirlýstu samfélagslegu ábyrgð í verki. Í stuttu máli taldi Auður stórfyrirtæki hér á landi alls ekki sýna neina ábyrgð í verki og beindi svo spjótum sínum að bönkunum og verslunum á dagvörumarkaði.

Auður Alfa hjá ASÍ talaði um aukinn vaxtamun hjá bönkunum samhliða hækkandi stýrivöxtum. Tók hún sérstaklega fram að vaxtamunurinn væri meiri hjá einkareknum bönkum – ríkið er stærsti eigandi Landsbankans annars vegar og Íslandsbanka hins vegar – og fór svo að ræða um vaxandi arðsemi bankanna og tengir við lækkun bankaskattsins þar sem hún lætur í veðri vaka að þeir hafi tekið til sín alla skattalækkunina sjálfir í stað þess að hún skilaði sér í betri kjörum til almennings. Auður segir:

Stjórnvöld töldu þörf á því, sem að skýtur auðvitað svolítið skökku við í þessu ástandi.

[Útlistun á hagnaði bankanna í fyrra] Það er ofboðslega mikill hagnaður hjá bönkunum og þess vegna myndi maður halda að það hefði verið svigrúm til að hafa þennan bankaskatt áfram á.“

Þá skaut Ævar Örn fréttamaður inn í :  „Eða að bankarnir færu ekki jafn bratt í vaxtahækkanir og seðlabankinn?“

„Já, algerlega, en eins og við vitum þá er auðvitað mikil fákeppni á þessum markaði, þannig að það hefur mikil áhrif. Þannig að hvatinn til þess að halda vöxtum lágum er minni en ella.

Þarna er talað af yfirgripsmiklu þekkingarleysi. Þau neytendalán sem skipta almenning mestu máli er ekki án nokkurs vafa fasteignalán. Ríkir fákeppni á þeim markaði? Nei það er ekki hægt að segja enda veita fjölmargir lífeyrissjóðir fasteignalán í samkeppni við bankanna svo dæmi sé tekið. Eðli málsins samkvæmt greiða lífeyrissjóðir ekki bankaskatt og sú staðreynd skekkir því samkeppnisstöðuna á markaðnum með fasteignalánum enda leiðir sértæk skattlagning á banka til þess að þeir bjóða verri en kjör en ella. Lækkun bankaskattsins var liður í að rétta við þá  samkeppnisstöðu.

Einnig verður að benda á að arðsemi kerfislægu mikilvægu viðskiptabankanna getur ekki talist með neinum hætti talist óeðlileg. Ein mikilvægasta stærð til að mæla árangur banka er arðsemi eigin fjár, enda segir það til um hvernig tekst að ávaxta fjármagnið sem eigendur hafa bundið í félögin. Stjórnir bankanna setja fram arðsemiskröfu og í dag er sú krafa gerð að Landsbankinn og Íslandsbanki skili 10% arðsemi. Aftur á móti hækkaði stjórn Arion banka arðsemiskröfu sína í lok árs 2021 úr 10% í 13%.

Arðsemi eigin fjár bankanna í fyrra var neikvæð að teknu tilliti verðbólgu hjá Landsbankanum. Með öðrum orðum tapaði eigandi bankans – ríkissjóður – verðmætum á rekstri bankans í fyrra. Þrátt fyrir sú umræða fari seint fram innan veggja Efstaleitis má velta fyrir sér hvort það sé einhver sérstök samfélagsleg ábyrgð falin í því að tapa fé fyrir hönd eigenda?

***

Svo fengu dagvöruverslanirnar á baukinn frá sérfræðingi ASÍ í verðlagsmálum. Enda hélt hún fullum fetum að fyrirtækin virðist „hverja glufu til að hagnast á kostnað almennings og það sé ekki mikil samfélagsleg ábyrgð í því.“

Og enn fremur:

Já og það voru að koma niðurstöður úr upplýsingaöflun sem Samkeppniseftirlitið réðst í núna á síðasta ári í kjölfar umræðu um verðhækkanir og fákeppni á mörkuðum og þessi umræða á sér stað líka erlendis, þar erum við líka að sjá að hagnaðarmat annara verslana og fyrirtækja hefur verið að aukast á sama tíma og verð hefur hækkað upp úr öllu valdi og þessi samantekt Samkeppniseftirlitsins sýnir það að framleiðni  íslenskra dagvöruverslana jókst um 29% frá árinu 2017-2021.

Ævar Örn fréttaþulur: „Og með framleiðahlutfalli áttu þá við bara einfaldlega hagnað?“

Auður: „Framlegðarhlutfall er í raun og veru mælieining sem er notuð til að reikna út hlutfall hagnaðar sem fyrirtæki skila af heildartekjum sínum, því hærra framleiðnihlutfall því meira stendur eftir til að greiða út arð

Ævar Örn: „Eða sýna samfélagslega ábyrgð?“

Auður:  „Já það sem kom líka fram er að framleiðahlutfall á íslenskum dagvöru markaði er að meðaltali hærra en hjá sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu og þessu tengt þá er Ísland með þriðja hæsta verðlag á mat og drykkjavöru í evrópu árið 2021. Þannig að ég held að þetta sé að sýna okkur að það sé hægt að gera svigrúm til að gera hlutina aðeins öðruvísi hjá þessum fyrirtækjum og kalli bara eftir því að þau sýni samfélagslega ábyrgð.“

Í þessu samhengi er rétt taka fram að framlegðarhlutfall er einnig kölluð EBITDA-framlegð og kennitalan sýnir hversu miklu reksturinn skilar til að standa undir fjármagnskostnaði, sköttum og arði til eigenda. Með öðrum orðum ekki eingöngu arði eins og Auður heldur fram. Framleiðni hlutfall stærstu dagvöruverslana landsins hefur verið í kringum 20% undanfarin ár og framsetning Auðar á úttekt Samkeppniseftirlitsins er villandi.

Þannig kemur fram í gögnum Samkeppniseftirlitsins að munurinn á vegnu meðaltali framlegðarhlutfalla íslenskra davörursala og meðaltal í Vestur-Evrópu hafi verið á bilinu 2-4% frá árinu 2018. Samkeppniseftirlitsins tekur sérstaklega fram að mismunurinn hafi farið lækkandi og slær jafn framt fyrirvara að stofnunin sé ekki reiðubúin að ábyrgjast að þau göng sem miðað er við sé að fullu samanburðarhæf. Það blasir líka við að framlegðarhlutfallið mótast af þáttum eins og fjármagnsskipan einstakra fyrirtækja, vaxtarstigi og fleiri þáttum. Sum fyrirtæki eru þannig bara einfaldlega illa rekin ef því er að skipta. Þar af leiðandi er engan veginn hægt að fullyrða að framlegðarhlutfall verslana í dagvöru hér á landi gefi til kynna að eigendur þeirra séu að skara eld að eigin köku með óeðlilegum hætt.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 16. febrúar 2023.