Það er ekkert launungarmál að stjórnarandstaðan beitir fyrir sér málþófi á Alþingi þessa dagana í umræðum um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um margföldun veiðigjalda. Fréttaflutningur miðla á borð við Ríkisútvarpið og Sýnar af þessu öllu saman hefur verið sérstakur. Þessi miðlar hafa fyrst og fremst beint sjónum sínum að þeim almæltu tíðindum að þingmenn stjórnarandstöðunnar eru að nýta sér ótakmarkaðan ræðutíma í annarri umferð umræðu um veiðigjöldin og segja hlustendum aðallega frá því hvað stjórnarandstaðan er búin að tala lengi á degi hverjum og hvernig það mælist í sögulegu samhengi. Það er eins og fréttamenn þessara miðla hafi engan áhuga á því um hvað er verið að takast á.
Kristín Gunnarsdóttir, hlaðvarpsstjórnandi og áhugakona um hópíþróttir og borðspil, orðaði þetta ágætlega þegar hún fór yfir fréttir vikunnar ásamt Heiðari Guðjónssyni, fjárfesti og fyrrverandi sundlaugarverði, í morgunútvarpi Bylgjunnar á föstudaginn:

„Mér þætti áhugaverðara að vita hvaða breytingar minnihlutinn er að reyna að kýla í gegn sem meirihlutinn er að hafna í hvívetna. Mér finnst ég ekki hafa fengið þær upplýsingar nein staðar.“
„Þeir sem halda uppi vörnum fyrir illa unnið og stórgallað frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalds fögnuðu mjög þegar þeir fundu gamla grein eftir Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þar hallmælti hún málþófi árið 2019 vegna 3. orkupakkans.
Urðu umræður um þetta á Facebook miðvikudaginn 2. júlí. Bryndís svaraði og sagði stöðuna núna og 2019 gjörólíka. Nú væri stjórnarandstaðan samstiga og ekki aðeins lítill hluti hennar sem færi fyrir umræðunni:
„Við ræðum veiðigjaldafrumvarp sem var unnið án áformaskjals, án hvítbókar og fékk einungis 6 daga í samráðsgátt. Tugir umsagna bárust í nefnd, en gestakomum var hafnað og útreikningar Skattsins fengu ekki eðlilega umfjöllun nema eftir mikla eftirgangsmuni.“
Í þessum fáu setningum felst lýsing á ótrúlegum flumbrugangi við undirbúning, kynningu, framlagningu og meðferð þessa mikla máls í þingnefnd. Þegar þannig er staðið að verki og formaður þingnefndarinnar neitar að málið sé rætt ítarlegar þar kallar það óhjákvæmilega á miklar og nú langar umræður í þingsalnum. Meirihluti þingmanna og ráðherrann auk formanns þingnefndarinnar forðast umræður um málið.“
Áhugaleysi miðla Ríkisútvarpsins og Sýnar á efnisatriðum málsins er ekki síst undrunarefni í ljósi þess hversu mikið er í húfi í efnahagslegu tilliti og sérstaklega fyrir landsbyggðina. Það ætti að vera fréttamönnum vísbending um að kastað hafi verið til hendinni við gerð frumvarpsins – eða þá að annarleg sjónarmið hafi ráðið för við smíði þess – þegar ljóst er að löggilding þess muni leiða til þess að skattlagningin verði að óbreyttu meiri en aflaverðmætið þegar kemur að veiðum á tegundum á borð við makríl og ufsa, svo einhver dæmi séu tekin.
Velta má fyrir sér hvort áhugaleysið væri jafn mikið ef Alþingi væri til að mynda að fjalla um frumvarp sem fæli í sér breytingar á útreikningi greiðslna bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og Öryrkjabandalag Íslands hefði sýnt fram að útreikningarnir sem lágu að baki frumvarpinu væru kolrangir.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, spyr hvort það megi berja blaðamenn í aðsendri grein sem birtist á Vísi í vikunni. Tilefnið er sýknudómur Landsréttar í meiðyrðamáli Aðalsteins Kjartanssonar gegn Páli Vilhjálmssyni en hann féll 26. júní síðastliðinn.

Fjölmiðlarýnir ætlar hvorki að taka afstöðu til spurningar Sigríðar né sýknudómsins á þessum vettvangi. En það var eitt sem vakti athygli í greininni. Í henni segir Sigríður eftirfarandi:
„Ekki var deilt um það fyrir dómi hvort ummæli Páls um Aðalstein hafi verið sönn. Þau voru það ekki. Þvert á móti voru þau upplogin og féllu vel að ófrægingarherferð sem Samherji hefur um margra ára skeið háð gegn blaðamönnunum Aðalsteini og Helga Seljan sem árið 2019 sviptu hulunni af því er virðast vera stórfelldar mútugreiðslur Samherja til namibískra stjórnmálamanna, skattasniðgöngu og peningaþvætti.“
Þarna ýjar Sigríður Dögg að því að íslenskt fyrirtæki hafi gerst sek um glæpsamlega starfsemi. Það sýnir frjálslega umgengi um staðreyndir málsins. Ein af þeim er að ríkissaksóknari Noregs felldi niður sakamál sem varðaði meint peningaþvætti félaga sem tengjast Samherja við norska bankann DNB en hún hófst eftir að Ríkisútvarpið fjallaði um starfsemi félaganna í Namibíu, Yfirgripsmikil skattarannsókn á félögum tengdum Samherja á árunum 2010-2018 lauk með sátt milli skattrannsóknarstjóra og niðurfellingu héraðssaksóknara á sakamálum á hendur félögunum.
Fram kom í byrjun mánaðar að rannsókn héraðssaksóknara á málum tengdum Samherja væri lokið og mun saksóknari nú taka ákvörðun um hvort kært verður í málinu. Formaður Blaðamannafélagsins tekur ekki þá ákvörðun.
„Það er verulega alvarlegt í sjálfu sér að veita slíkt svigrúm til að brigsla mönnum um refsiverða háttsemi sem ekki hefur sannast með dómi,“ segir meðal annars í grein Siggu Daggar. Það er einmitt það sem hún gerir sjálf gagnvart forráðamönnum Samherja í grein sinni á Vísi.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. júlí 2025.