Það er ekkert launungar­mál að stjórnarand­staðan beitir fyrir sér málþófi á Alþingi þessa dag­ana í umræðum um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um margföldun veiðigjalda. Fréttaflutningur miðla á borð við Ríkisútvarpið og Sýnar af þessu öllu saman hefur verið sérstakur. Þessi miðlar hafa fyrst og fremst beint sjónum sínum að þeim almæltu tíð­indum að þingmenn stjórnar­andstöðunnar eru að nýta sér ótakmarkaðan ræðutíma í annarri umferð umræðu um veiðigjöldin og segja hlust­endum aðallega frá því hvað stjórnarandstaðan er búin að tala lengi á degi hverjum og hvernig það mælist í sögu­legu samhengi. Það er eins og frétta­menn þessara miðla hafi engan áhuga á því um hvað er verið að takast á.

Kristín Gunnarsdóttir, hlaðvarpsstjórnandi og áhuga­kona um hópíþróttir og borðspil, orðaði þetta ágætlega þegar hún fór yfir fréttir vikunnar ásamt Heiðari Guðjónssyni, fjárfesti og fyrrverandi sundlaugarverði, í morgunútvarpi Bylgjunnar á föstudaginn:

„Mér þætti áhugaverðara að vita hvaða breytingar minni­hlutinn er að reyna að kýla í gegn sem meirihlutinn er að hafna í hvívetna. Mér finnst ég ekki hafa fengið þær upplýs­ingar nein staðar.“

***
Morgunblaðið hefur hins vegar áhuga á kjarna þessa máls og hefur blaðið sagt frá röngum útreikningum við gerð frumvarpsins og öðrum afleitum vinnubrögðum. Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra ­fjallar um þetta á heimasíðu sinni. Þar segir:

„Þeir sem halda uppi ­vörnum fyrir illa unnið og stór­gallað frumvarp Hönnu ­Katrínar Friðriksson atvinnuvega­ráðherra um hækkun veiðigjalds fögnuðu mjög þegar þeir fundu gamla grein eftir Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðis­flokksins. Þar hallmælti hún ­mál­þófi árið 2019 vegna 3. orku­pakkans.

Urðu umræður um þetta á Facebook miðvikudaginn 2. júlí. Bryndís svaraði og sagði stöðuna núna og 2019 gjör­ólíka. Nú væri stjórnarand­staðan samstiga og ekki aðeins lítill hluti hennar sem færi ­fyrir umræðunni:

„Við ræðum veiðigjaldafrumvarp sem var unnið án áformaskjals, án hvítbókar og fékk einungis 6 daga í samráðsgátt. Tugir umsagna bárust í nefnd, en gestakomum var hafnað og útreikningar Skattsins fengu ekki eðlilega umfjöllun nema eftir mikla eftirgangsmuni.“

Í þessum fáu setningum ­felst lýsing á ótrúlegum flumbru­gangi við undir­búning, kynn­ingu, framlagningu og meðferð þessa mikla máls í þingnefnd. Þegar þannig er staðið að ­verki og formaður þingnefndar­innar neitar að málið sé rætt ítar­legar þar ­kallar það óhjá­kvæmi­lega á miklar og nú ­langar umræður í þingsalnum. Meirihluti þingmanna og ráðherrann auk formanns þingnefndarinnar forðast umræður um málið.“

Áhuga­leysi miðla Ríkis­út­varpsins og ­Sýnar á efnis­atriðum málsins er ekki síst undrunar­efni í ­ljósi þess ­hversu mikið er í húfi í efna­hagslegu ­tilliti og sér­stak­lega fyrir lands­byggðina. Það ætti að vera frétta­mönnum vís­bending um að kastað hafi ­verið til hend­inni við gerð frumvarpsins – eða þá að annar­leg sjónarmið hafi ráðið för við smíði þess – þegar ljóst er að löggilding þess muni leiða til þess að skatt­lagningin verði að ­óbreyttu meiri en afla­verðmætið þegar kemur að veiðum á tegundum á borð við makríl og ufsa, svo einhver dæmi séu tekin.

Velta má fyrir sér hvort ­áhugaleysið væri jafn mikið ef Alþingi væri til að mynda að fjalla um frumvarp sem fæli í sér breytingar á út­reikningi greiðslna bóta frá Trygginga­stofnun ríkisins og Öryrkjabandalag Íslands hefði sýnt fram að útreikningarnir sem lágu að baki frumvarpinu væru kolrangir.

***

Sigríður Dögg Auðuns­dóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, spyr hvort það megi berja blaðamenn í aðsendri grein sem birtist á Vísi í ­vikunni. Tilefnið er sýknudómur Landsréttar í meiðyrðamáli Aðalsteins Kjartanssonar gegn Páli Vilhjálmssyni en hann féll 26. júní síðastliðinn.

Fjölmiðlarýnir ætlar hvorki að taka afstöðu til spurn­ingar Sigríðar né sýknu­dómsins á þessum vett­vangi. En það var eitt sem ­vakti athygli í greininni. Í henni ­segir Sigríður eftirfarandi:

„Ekki var deilt um það fyrir dómi hvort ummæli Páls um Aðalstein hafi verið sönn. Þau voru það ekki. Þvert á móti voru þau upplogin og féllu vel að ófrægingarherferð sem Sam­herji hefur um margra ára skeið háð gegn blaðamönnunum Aðalsteini og Helga Seljan sem árið 2019 sviptu hulunni af því er virðast vera stór­felldar mútu­greiðslur Samherja til namib­ískra stjórnmála­manna, skatta­sniðgöngu og peninga­þvætti.“

Þarna ýjar Sigríður Dögg að því að íslenskt fyrirtæki hafi gerst sek um glæpsam­lega starfsemi. Það sýnir frjáls­lega umgengi um stað­reyndir ­málsins. Ein af þeim er að ríkis­saksóknari Noregs ­felldi niður sakamál sem varðaði meint peninga­þvætti félaga sem ­tengj­ast Samherja við norska bank­ann DNB en hún hófst ­eftir að Ríkisútvarpið fjallaði um starfsemi félaganna í Namibíu, Yfirgripsmikil skattarannsókn á félögum tengdum Samherja á árunum 2010-2018 lauk með sátt milli skattrannsóknar­stjóra og niðurfellingu héraðssaksóknara á sakamálum á ­hendur félögunum.

Fram kom í byrjun mánaðar að rannsókn héraðs­saksóknara á málum tengdum Sam­herja væri lokið og mun ­saksókn­ari nú taka ákvörðun um hvort kært verður í málinu. Formaður Blaðamannafélagsins tekur ekki þá ákvörðun.

„Það er verulega alvarlegt í sjálfu sér að veita slíkt svigrúm til að brigsla mönnum um refsiverða háttsemi sem ekki hefur sannast með dómi,“ segir meðal annars í grein Siggu Daggar. Það er einmitt það sem hún gerir sjálf gagnvart forráða­mönnum Samherja í grein sinni á Vísi.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. júlí 2025.