Ágúst er mánuðurinn þegar íslenskt samfélag færist í fastar skorður á ný eftir sumarleyfi. Það fer að dimma á kvöldin eftir verslunarmannahelgina, fólk fagnar fjölbreytileikanum, íbúar miðbæjarins fárast yfir fylleríi úthverfafólksins að lokinni menningarnótt, skólarnir hefja göngu sína á ný og fjölmiðlar gera sér mat úr álagningarskrá Skattsins.
Fastir liðir eins og venjulega. Í ár voru það DV, Frjáls verslun, sem er gefið út af sama útgáfufélagi og Viðskiptablaðið, og Heimildin sem gerðu sér mat úr álagningarskrá Skattsins.
Tveir fyrrnefndu miðlarnir afgreiða málið með því að birta lista yfir hóp manna og tekjur þeirra samkvæmt álagningarskrá og flokka með einhverjum hætti. Heimildin og fyrirrennarar hennar hafa hins vegar haft annan háttinn á.
Vissulega birtir Heimildin lista yfir þá skattgreiðendur sem greiddu mestu skattana hvort sem um er að ræða tekjuskatt eða fjármagnstekjuskatt. En það er fyrst og fremst í hvaða samhengi listinn birtist í síðasta tölublaði Heimildarinnar sem vekur athygli lesenda.
Ásamt listanum yfir þá sem borguðu mest í skatt af launa- og fjármagnstekjum sínum í fyrra er að finna fjölmargar umfjallanir og aðsendar greinar. Þær eru meira og minna allar því marki brenndar að það felist eitthvert hróplegt óréttlæti í að fjármagnstekjur beri lægri skattaprósentu en launatekjur og að einhver sérvalinn hópur manna hér á landi njóti þeirra forréttinda að greiða eingöngu fjármagnstekjuskatt en ekki tekjuskatt eins og sauðsvartur
almúginn.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og einn greinarhöfunda í þessari útgáfu Heimildarinnar, gengur svo langt að segja að einhver hópur manna hafi tekið „sama ár til sín 36 milljarða í fjármagnstekjur“. Sama orðalag hefur Þórður Snær Júlíusson, fyrrum ritstjóri Heimildarinnar, notað í leiðurum blaðsins. Orðalagið felur í sér að það séu einhver föst verðmæti úti í hagkerfinu sem nefnast fjármagnstekjur og þeir allra frekustu hrifsa þær til sín á kostnað hins þungbúna nafnlausa skara.
Þetta er frekar einföld og barnaleg nálgun og hálfgert tilfinningaklám ef út í það er farið. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að skattur á fjármagnstekjur er lægri en á launatekjur í flestum þróuðum markaðshagkerfum. Fjármagnstekjuskattur leggst á vaxtatekjur, leigutekjur og söluhagnað og vitaskuld hefur fólk almennt séð greitt tekjuskatt af þeim tekjum sem er varið í fjárfestingar sem leiða svo til fjármagnstekna.
Þegar tekið er með í reikninginn að skattlagning fjármagnstekna er umtalsverð þá ber einnig að hafa í huga að áður en til arðgreiðslna kemur greiða hlutafélög 20% skatt af hagnaði og svo þarf að greiða 22% af arðinum.
Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir reyna blaðamenn Heimildarinnar að varpa fram þeirri mynd að eitthvað meiri háttar óréttlæti hljótist af því að einhverjir nái árangri í viðskiptum eða þá að fólk sem hefur eytt starfsævi sinni ásamt niðjum sínum í að byggja upp arðbæran fyrirtækjarekstur selji fyrirtækin og greiði af því skatt.
Að ekki sé minnst á þann undirliggjandi þráð í umfjöllun Heimildarinnar sem snýr að því að hér á landi búi tvær þjóðir. Þar er kveðið gamalkunnugt stef úr smiðju Heimildarinnar. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi snemma sumars birti blaðið tólf blaðsíðna úttekt um íbúa Garðabæjar og Seltjarnarness. Heimildarmönnum þykir eftirtektarvert það sem öðrum þykir augljóst: Að efnað fólk sé líklegra til þess að búa í hverfum og bæjum þar sem hlutfall einbýlis er hærra en á öðrum stöðum. Í fjölmiðlarýni sem birtist 26. maí segir:
„Í greiningu Heimildarinnar gegna íbúar Garðabæjar og Seltjarnarnes sama hlutverki og huldufólkið í þjóðsagnaarfinum. Óræðar verur, mishollar mönnum, sem búa í glæstum en huldum húsakynnum. Og þó svo þær séu alla jafnan ósýnilegar hefur einstaka dauðlegum manni, jafnvel rannsóknarblaðamanni, hlotnast að gægjast inn í undursamlega sali þeirra á Eiðistorgi og við Garðatorg, sem tjaldaðir eru purpura og pelli. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, en á kvöldin svigna veisluborðin undan ódáinsveigum og gullbúðingi á meðan huldufólkið á Teslunum skemmtir sér við söng og dans og svo lágt útsvar að undrum sætir. Úttektin hefur ekkert með blaðamennsku að gera. Þetta er pópulísk stjórnmálabarátta byggð á fremur ógeðfelldri sýn þar sem ákveðið fólk er tekið út fyrir sviga og því stillt upp við vegg til að alþýðan geti virt fyrir sér aurapúkana sem sjúga til sín verðmætin á kostnað almennings og neitar að bera sömu byrðar og aðrir. Þetta er gamalkunnugt stef sem oft hefur verið kveðið á meginlandi Evrópu með skelfilegum afleiðingum og fæstum þykir til eftirbreytni.”
Og enn fremur:
„Það er ekkert sérstaklega fréttnæmt að fólk sem hefur ágætar tekjur og á eignir kjósi að búa í einbýlum. Sú staðreynd að hátt hlutfall eigna í þessum tveimur bæjarfélögum eru sérbýli hlýtur að skýra að þeir sem þar búa hafa það ágætt í efnahagslegum skilningi. Er það álíka fréttnæmt og að ekkert lát sé á hundahaldi í sveitum landsins. Kæmi einhverjum á óvart ef gögn sýni að íbúar í einbýlishúsum í Fossvogsdal hafi meiri fjármagnstekjur en íbúar í blokkunum þar í kring? Gæfi sú staðreynd tilefni til þess að draga miklar ályktanir um íslenskt samfélag?“
Sem kunnugt er greiddi enginn hærri skatt en Sigurjón Óskarsson, útgerðar- og athafnamaður í Vestmannaeyjum, en hann seldi útgerð sem hann hafði rekið í fimmtíu ár í fyrra. Sigurjón stendur nú í félagi við aðra í stórfelldri fjárfestingu og uppbyggingu á laxeldi í Eyjum.
Rætt er við Sigurjón í blaðinu en ljóst má vera af viðtalinu að blaðamaður hefur áhuga á öðru en merkum og farsælum ferli Sigurjóns og þeirri miklu fjárfestingu sem hann er að ráðast í. Sést það ágætlega af hliðarefni sem birtist með viðtalinu. Þar segir:
„Heimildin gerði óformlega könnun á því hverjar meðaltekjur íbúa í einu fjölbýlishúsi á Heimaey væru. Tilviljun réð því að Áshamri 57-63 var flett upp. Húsið er á þremur hæðum og samanstendur af fjórum stigagöngum. Meðaltekjur þeirra rúmlega tuttugu einstaklinga sem tókst að fletta upp í blokkinni voru 688 þúsund krónur á mánuði. Heildarárstekjur þessa hóps voru 8,3 milljónir. Aðeins tveir einstaklingar voru með skattskyldar fjármagnstekjur. Út frá þessum upplýsingum mætti ætla að fyrir meðalmanneskju í þessari tilteknu blokk tæki það rétt rúm 674 ár að vinna sér fyrir heildarárstekjum Sigurjóns Óskarssonar í fyrra.“
Í framhaldinu er svo rætt við nokkra íbúa þessa fjölbýlishúss og þeir inntir eftir áliti um hvað þeim finnist um þetta allt saman. Finnist um hvað gæti einhver spurt? Það er ekki eins og skattakóngurinn selji á hverju einasta ári fyrirtæki sem hann hefur byggt upp í hálfa öld. En sú staðreynd þvælist ekki fyrir blaðamönnum Heimildarinnar þegar kemur að því að gera efnahagslega velgengni sumra tortryggilega.
Síðasta haust ýtti Ríkisútvarpið úr vör nýju hlaðvarpi sem fékk nafnið Sjö mínútur. Þrátt fyrir nafnið var tilgangur hlaðvarpsins ekki til þess að heiðra framlag Auðuns Blöndals til
íslenskrar menningar heldur var um að ræða fréttaspjallþátt þar sem fréttamenn RÚV ræddu við hver annan um það sem þótti fréttnæmast þá stundina.
Það vakti athygli sumra að þarna var Ríkisútvarpið komið í samkeppni við alla þá þjóðmálaþætti sem einkaaðilar halda úti á efnisveitum á borð við Spotify en í hugum annarra kemur fátt á óvart þegar kemur að uppátækjum stjórnenda ríkismiðilsins.
Ríkisútvarpið tilkynnti á sínum um tilkomu hins nýja hlaðvarp en nú er eins og það hafi lognast út af án þess að nokkur hafi veitt því athygli. Enginn þáttur hefur verið settur í loftið frá því í mars og Ríkisútvarpið hefur ekki tilkynnt um neinar breytingar í starfsmannamálum vegna þessa.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. september.