Hið furðulega mál Heimildarinnar og Jóns Gunnarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli og þar er margt sem þarfnast nánari skoðunar.

Málið hófst árla dags á mánudag í síðustu viku, þegar Jón birti yfirlýsingu á Facebook um einkennilega atburðarás. Hann sagði að erlendur maður, sem kynnti sig sem svissneskan fjárfesti, hefði haft samband við son sinn, sem er fasteignasali, og sagst hafa áhuga á fjárfestingu í íslenskum fasteignum. Hann kom í framhaldinu til Íslands, en eftir að hafa verið kynntar mögulegar fjárfestingar hér hafi þeir átt kvöldverð. Þar barst margt í tal, en einkum virðist áhugi gestsins hafa beinst að Jóni, föður fasteignasalans, sér í lagi hvað varðaði hvalveiðar. Að því er virðist lá sonurinn ekki á skoðunum sínum, en sennilega einnig sagt sitt af hverju sem gesturinn vildi heyra, enda átti fasteignasalinn mikið undir því að tilvonandi viðskiptavinur væri ánægður.

Á föstudag höfðu svo blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson á Heimildinni og Helgi Seljan (sem kynnt var á dögunum að hefði hætt störfum á Heimildinni) samband við feðgana til þess að spyrja út í það sem fram kom í samtalinu og í kjölfarið sigldu skriflegar spurningar.

Jón fann sig þá knúinn til þess að birta yfirlýsingu sína. Samdægurs birti svo Heimildin umfjöllun þeirra Aðalsteins og Helga.

Málið horfði aðeins öðruvísi við Heimildinni, sem sór af sér að hafa komið nálægt undirbúningi málsins eða aðgerðinni sjálfri. Þar að baki væru óþekkt erlend samtök, en upptakan hefði farið „í dreifingu“ og þannig hefði Heimildin komist á snoðir um það. Og í framhaldinu bara spurt spurninga, eins og menn gera.

Sannast sagna er það fremur ótrúverðug skýring. Vitanlega bregðast fjölmiðlar við þegar eitthvað svona kemur í ljós og inna viðkomandi eftir viðbrögðum. En þau vinnubrögð að segja ekki frá rót umfjöllunarinnar, heldur hringja samtímis í föður og son til þess að bera undir þá eitthvað, sem þeir ekki hafa séð, og senda svo skriflegar spurningar, það ber allt saman yfirbragð þess að þarna hafi verið einhvers konar samvinnuverkefni.

Svona sér gervigreindin fyrir sér að svissneskur fasteignamógull í leit að fjárfestingartækifærum á Íslandi líti út.
Svona sér gervigreindin fyrir sér að svissneskur fasteignamógull í leit að fjárfestingartækifærum á Íslandi líti út.

Við bætist þetta einkennilega og óljósa orðalag um að upptakan hafi farið „í dreifingu“. Hvar? Hjá hverjum? Frá hverjum? Enn sem komið er verður ekki séð að aðrir miðlar en Heimildin og Vísir hafi fengið upptökurnar í hendurnar og miðað við hvenær síðarnefndi miðillinn birti hana hefur hann fengið hana eftir að Heimildin flutti sína frétt – nema þá að einhver efi hafi ríkt á ritstjórninni um fréttagildi upptökunnar.

***

Ekki bætir úr skák að Heimildin leggst þarna að sögn í stórt verkefni og kallar út blaðamann sem var hættur, allt vegna upptöku sem blaðið veit þó raunar engin deili á, hvernig er til komin og af hvaða hvötum. Varla tekur hún við hverju því sem að henni er rétt?

Enn síður í ljósi þess að aðgerðin var einstaklega kostnaðarsöm, eins og Heimildin hefur sjálf greint frá. Vakti það virkilega engar spurningar hjá rannsóknarblaðamönnunum öllum? Eða varð þeim tilefni til þess að komast að því, svona eins og alvöru rannsóknarblaðamenn, hver byggi að baki?

Síðan hafa raunar ýmsar kenningar verið reifaðar um það, en hvernig sem í því liggur, er Heimildinni engin vörn í.

Öll eru vinnubrögðin hin einkennilegustu, en aðallega þó þau að fjölmiðlinum þyki sjálfsagt að afla eða fá upplýsingar sem fengnar eru með tálbeitu og blekkingaleik, augljóslega teknar upp án vitundar viðkomandi.

Fjölmiðlar hafa það hlutverk að leiða sannleikann í ljós og það geta þeir ekki rækt með lygina að vopni.

Nú er rétt að hafa í huga að slík vinnubrögð geta verið verjandi undir ákveðnum kringumstæðum, t.d. til þess að upplýsa um glæpastarfsemi eða ámóta, enda sé engin önnur leið fær til þess að afla upplýsinganna. Eins þær aðferðir að leiða menn í gildru til þess að þeir í raun sakbendi sjálfa sig.

Ekkert af þessu átti við þarna. Af lestri umfjöllunar Heimildarinnar verður ekki séð að þar hafi neitt ólöglegt verið á ferð, jafnvel þó svo að öllu því sé trúað eins og nýju neti sem fasteignasalinn sagði. En þar fyrir utan varðar málið auðvitað ekki fasteignasalann heldur er hann að úttala sig um föður sinn, sem í besta falli er eitthvað frá annarri hendi. Hugsanlega athyglisvert, en færir ekki sönnur á neitt, hvað þá eitthvert óhreint mál. Það kynni að hafa átt við hefði Jón verið blekktur og látið einhver slík orð falla, en þannig var það nú ekki. Og raunar er sérstaklega vandræðalegt hvað það var lítið í þessari „frétt“ Aðalsteins og Helga eftir allt saman.

Segjum samt sem svo að allt sé þetta rétt hjá Heimildinni, að hún hafi bara verið hlutdeildarmaður eftir verknaðinn, eins og segir í glæpaþáttunum. Eru það boðleg vinnubrögð að taka umyrðalaust við hverju sem er, hleruðu eða þjófstolnu, og segja af því hvers kyns fréttir?

Það er umhugsunarefni fyrir blaðamenn eftir ýmis mál, sem hér hafa komið upp, svo sem Klausturmálið, byrlunarmálið og nú þetta. Í engu þeirra lutu gögnin að neinu saknæmu, en í öllum þeirra var gagnanna aflað með ólögmætum hætti. Sumt kann að hafa átt erindi við almenning, en engan veginn allt.

Það er ótal margt í lífinu sem í einhverjum skilningi gæti átt erindi við almenning, en ekki þó þannig að brjóta megi lög til þess að afla slíkra frétta. Og ef það hangir aðeins á lagni blaðamannanna til þess að viðhafa nægilega þekkingarbresti um ólöglegan uppruna blasir við að óvandaðir blaðamenn (jú, þeir eru til!) myndu notfæra sér það, koma sér upp leppum og neita að ræða um heimildarmenn ef upp kæmist.

Varla blandast nokkrum hugur um ólögmæti upptökunnar og að það var freklega gengið á persónurétt fasteignasalans. En er hafið upp fyrir öll landsins lög ef blaðamaður kemur við sögu? Það mætti ætla í þessum þremur fyrrgreindu málum.

***

Annað sem vekur athygli er hvernig skuggaöflunum í fyrirtækinu Black Cube hefur verið spyrt við málið. Í fyrstu frétt Heimildarinnar um málið segir að þó svo að blaðamenn viti ekki hver hafi staðið að aðgerðinni gagnvart syni Jóns Gunnarssyni hafi þeir þó einhverjar upplýsingar um upprunann. Í fréttinni segir:

„Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er upptakan sem um ræðir afrakstur rannsóknar ónefndra alþjóðlegra samtaka. Heimildin hefur ekki upplýsingar um hvaða samtök stóðu að baki rannsókninni, en hún ber þess merki að hafa verið þaulskipulögð, tímafrek og kostnaðarsöm.“

Efni og aðstæður gætu fengið einhvern til að hugsa um Wikileaks í þessu samhengi. Hvað um það. Sama dag og frétt Heimildarinnar birtist fullyrðir Vísir að hið alræmda fyrirtæki Black Cube hafi staðið að þessum njósnum. Black Cube er fyrirtæki fyrrverandi starfsmanna ísraelsku leyniþjónustunnar og þekkt fyrir að taka að sér störf fyrir fólk á borð við Harvey Weinstein, Viktor Orban og taka að sér verkefni fyrir bandarísk stjórnvöld á borð við að grafa undan kjarnorkusamkomulagi Vesturlanda við Íran. Þessi uppljóstrun Vísis setur vissulega vægi Jóns Gunnarssonar í hinu stóra samhengi hlutanna í nýtt og óvænt samhengi.

Fréttin er rituð af Kjartani Kjartanssyni. Í henni segir:

„Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu fleiri en Heimildin skilaboð þar sem þeim voru boðnar myndbandsupptökur sem voru sagðar staðfesta spillingu ónefnds stjórnmálamanns og þekkts viðskiptamanns í tengslum við hvalveiðar. Skilaboðin voru send í nafni starfsmanns Black Cube.

Kona sem svaraði í síma á skrifstofu Black Cube í morgun kannaðist ekki við að maður með því nafni sem sendi skilaboðin ynni þar þegar fréttastofa hafði samband í morgun. Hún sagðist ætla að kanna málið og hafa samband aftur en gerði það ekki.”

Enn og aftur er bara fullyrt að fleiri fjölmiðlum hafi verið boðnar upptökurnar. Af hverju hafa þeir ekki gefið sig fram? Af hverju nafngreinir blaðamaður ekki þennan meinta starfsmann Black Cube og sýnir tölvupóstsamskiptin sem um ræðir til að færa sönnur fyrir því að þarna hafi ísraelsk skuggaöfl verið á ferð? Varla eiga sjónarmið um verndun heimildarmanna við í þessu samhengi?

Þrátt fyrir þetta hafa svo aðrir fjölmiðlar tekið þetta upp og fullyrt að Black Cube hafi staðið að aðgerðinni þó svo að ekkert sé hægt að fullyrða um það að svo komnu máli.

***

Full ástæða er til þess að hrósa fyrir Vísi fyrir að afhjúpa íslenska djúpríkið. Í síðustu viku uppljóstraði Vísir að áhrifavaldurinn Sunneva Einarsdóttir er innsti koppur í búri íslenska djúpríkisins enda er hún ekki einungis tengdadóttir Bjarna Benediktssonar heldur býr systurdóttir Kristjáns Loftssonar með pabba Sunnevu.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.