Ágætt gengi Samfylkingarinnar í síðustu þingkosningum réðst meðal annars af trúverðug-
leika Kristrúnar Frostadóttur í augum kjósenda þegar kom að efnahagsmálum. Samkvæmt könnunum voru það einmitt efnahagsmálin sem brunnu á Íslendingum þegar gengið var til kosninga síðasta vetur.
Kristrún er hámenntaður hagfræðingur og hefur starfað sem slíkur í bankageiranum og hjá Viðskiptaráði. Í kosningabaráttunni keyrði Samfylkingin á auglýsingum sem sýndu verðandi forsætisráðherra „negla niður vextina“ með sleggju, á meðan Kristján Þórður Snæbjarnarson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, horfði bergnuminn á.
Þegar Kristrún myndaði ríkisstjórn með Flokki fólksins og Viðreisn voru efnahagsmálin sett í öndvegi. Stjórnarsáttmálinn hefst með þessum orðum:
„Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka. Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins.“
Ekkert af þessu hefur ræst — meðal annars vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna vekur það nokkra furðu að fjölmiðlar hafi ekki spurt sérstaklega út í þetta.
Það er fyrst og fremst í gegnum ríkisfjármálin sem stjórnvöld geta haft áhrif á vaxtastig á markaði. Hallarekstur ríkissjóðs eykur lánsfjárþörf og skuldabréfa- og víxlaútgáfu ríkisins og þrýstir þannig vaxtaálaginu ofan á grunnvexti. Þegar ríkisstjórn Kristrúnar tók við völdum voru vextir á tíu ára skuldabréfum ríkisins 6,56%, en í dag eru þeir 6,98%. Þetta er í raun rannsóknarefni í ljósi þess að Seðlabankinn hefur lækkað vexti um 100 punkta á þessu tímabili.
Ástæðan er fyrst og fremst vantraust markaðarins á því að ríkisfjármálin muni leggjast á sveif með Seðlabankanum við að ná vaxtastiginu niður. Sleggjan reyndist vera tjakkur þegar allt kom til alls.
Þetta vantraust endurspeglast meðal annars í því að verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafa aukist markvisst frá því að ríkisstjórn Kristrúnar tók við. Verðbólguvæntingar, eins og þær birtast á skuldabréfamarkaði, eru sá þáttur sem seðlabankar sem fylgja verðbólgumarkmiði horfa fyrst og fremst til þegar þeir taka vaxtaákvarðanir. Nú er svo komið að greiningardeildir bankanna gera ekki ráð fyrir að Seðlabanki Íslands lækki vexti í fyrirsjáanlegri framtíð — svigrúmið er einfaldlega ekki til staðar.
Ríkisstjórnin hefur gefið upp á bátinn áform um að ná hallalausum fjárlögum árið 2027. Þess í stað er stigið á bensínið og hallareksturinn aukinn. Nýsamþykkt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er uppfull af ófjármögnuðum fyrir-
heitum um útgjöld sem nema tugum milljarða króna. Þar má nefna loforð um aukin útgjöld til varnarmála, fyrirhugaða vísitölutengingu bótagreiðslna og frumvarp um víxlverkun örorku- og ellilífeyrisgreiðslna, sem felur í sér atlögu að ellilífeyrisþegum.
Samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 eiga skatttekjur, með skattbreytingum, að hækka um 67 milljarða króna. Á sama tíma bendir margt til þess að skatttekjur ríkisins verði lægri en áætlanir gera ráð fyrir. Eins og nýlega var fjallað um í Viðskiptablaðinu hefur hagnaðar-
hlutfall íslenskra fyrirtækja dregist saman undanfarin ár: var 5,7% árið 2023, samanborið við 8,6% árið 2022, 11,4% árið 2021 og 2,9% árið 2020. Að jafnaði var hlutfallið 7,6% á
árunum 2014-2023.
Samhliða þessari þróun hefur hátt raungengi krónunnar þrengt að útflutningsgreinum, sem jafnframt glíma við óvissu vegna versnandi viðskiptakjara í kjölfar tolladeilna á alþjóðamörkuðum. Þrátt fyrir þetta ástand hefur ríkisstjórnin grafið enn frekar undan verðmætasköpun með margföldun veiðigjalda og áformum um frekari skattlagningu á útflutningsgreinar á borð við ferðaþjónustu, fiskeldi og orkufyrirtæki.
Þetta felur í sér miklar áskoranir fyrir stjórn ríkisfjármála — svo ekki sé fastar að orði kveðið. Skuldabréfamarkaðurinn hefur takmarkaða trú á því að ríkisstjórnin sé líkleg til að mæta þeim áskorunum, og erfitt er að sjá fyrir sér vaxtalækkanir nema til samdráttar komi í hagkerfinu — sem líkur fara vaxandi á.
Þetta eru ekki smá tíðindi. Það vekur því undrun að Kristrún sé nánast aldrei spurð út í hvaða áhrif stefna ríkisstjórnarinnar hefur haft á þróun vaxtastigsins — og hvort ekki sé full ástæða til endurskoðunar. Áhrifin eru auðvitað öllum augljós og afleiðingarnar alvarlegar. Ekkert ríki sem tilheyrir Efnahags- og framfarastofnuninni greiðir hlutfallslega meira í vaxtakostnað en Ísland. Næstu fjórtán mánuði þarf ríkið að endurfjármagna ríflega 300 milljarða af skuldum sínum og munu kjörin af endurfjármögnuninni ráðast af vöxtum á útistandandi skuldabréfum ríkisins. Þetta gerir að verkum að það vantraust sem hefur skapast á markaði á því að ríkisstjórnin muni koma böndum á ríkisfjármálin verði enn dýrkeyptari en ella.

Enski boltinn tók að rúlla á ný um liðna helgi. Sýn fer nú með sýningarréttinn á þessu vinsæla sjónvarpsefni og ljóst er að fyrirtækið á mikið undir að sú fjárfesting borgi sig, enda hefur miklu verið til kostað – ekki bara í kaupin á sýningarréttinum heldur einnig í umsvifamikla dagskrárgerð í tengslum við leikina.
Allt þetta fór vel af stað og má þar sérstaklega nefna Doc Zone í stjórn Hjörvars Hafliðasonar, þar sem fylgst er með fjölda leikja í einu og spjótunum beint að því markverðasta sem í þeim gerist hverju sinni.
Á þessum vettvangi hefur stundum verið bent á hvernig ríkið þrengir að frjálsri fjölmiðlun hér á landi, þá fyrst og fremst með rekstri Ríkisútvarpsins og hvernig umsvif þess takmarka athafnarými einkarekinna fjölmiðla. Eftir höfðinu dansa limirnir, og nú hefur Fjarskiptastofa sett þá miklu fjárfestingu sem Sýn réðist í til að fá réttinn að enska boltanum í uppnám.
Með bráðabirgðaúrskurði, sem kveðinn var upp í ágústbyrjun, bannaði Fjarskiptastofa Sýn að einskorða útsendingar á leikjum í enska boltanum við eigin myndlykla og öpp. Þetta þýðir með öðrum orðum að aðrir miðlar geti keypt útsendingarnar á heildsöluverði og dreift – og jafnvel undirboðið Sýn, ef því er að skipta.
Rökstuðningur Fjarskiptastofu er fjarstæðukenndur, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í frétt á vef Viðskiptablaðsins um úrskurðinn segir:
„Fjarskiptastofa telur ljóst að ef efni Sýnar, einkum enski boltinn, væri ekki í boði hjá Símanum, myndi það raska samkeppni verulega. Sýn gæti þannig „nært“ sitt eigið fjarskiptakerfi með íþróttaefni sem er lykilsáhorfsefni og fælt neytendur frá Símanum, sem ekki hefðu aðgang að sambærilegu efni.“
Þessi skilningur stofnunarinnar á samkeppni er undarlegur. Samkeppni á ljósvakamarkaði snýst einmitt um að bjóða neytendum upp á efni sem þeir hafa áhuga á að horfa á og greiða fyrir. Það að eitt fyrirtæki bjóði upp á sjónvarpsefni sem annað fyrirtæki hefur ekki – raskar ekki samkeppni, heldur er hún einmitt fólgin í því. Neytendur taka svo sínar ákvarðanir.

Áðurnefndur Hjörvar gerði úrskurð Fjarskiptastofu að umtalsefni í hlaðvarpi sínu, Dr. Football, fyrir helgi. Þar sagði hann, í endursögn í frétt Morgunblaðsins:
„Það er til einhvern stofnun hér á Íslandi sem heitir Fjarskiptastofa, en hún er ein af þessum fjölmörgu trúðastofnunum,“ segir Hjörvar í þættinum. „Hún pínir þann sem kaupir einkarétt á enska boltanum til þess að dreifa efninu inn á ýmsar aðrar veitur. Af hverju er enski boltinn merkilegri en eitthvað annað sjónvarpsefni? Út frá sömu rökum – ætti ekki líka að neyða Símann til þess að setja efni frá HBO í línulega dagskrá, svo allir geti fengið að horfa á það?“ spyr Hjörvar, sem telur að stofnunin mætti frekar einbeita sér að brýnni málum, þar sem þörf sé á raunverulegu inngripi.
Hægt er að taka undir hvert orð með Hjörvari – að því undanskildu að réttara væri að kalla Fjarskiptastofu trúðastofu frekar en trúðastofnun, en það er annað mál.
Eins og fyrr segir leggur Sýn mikinn metnað í innlenda dagskrárgerð í tengslum við sýningaréttinn á enska boltanum. Ljóst má vera að standi úrskurður Fjarskiptastofu óbreyttur, mun það eyða öllum metnaði hjá þeim sem fara með sýningarréttinn til slíkrar dagskrárgerðar – þegar fram í sækir.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. ágúst 2025.