Það var enginn skortur á furðufréttum í aðdraganda kosninganna. Ein þeirra fjallaði um meint landakaup erlendra spákaupmanna og ásókn þeirra í landsins gæði. Á þriðjudag var Steinþór Logi Arnarson, formaður Samtaka ungra bænda, gestur Eggerts Skúlasonar í Dagmálum sem er sýnt á vef Morgunblaðsins. Þar barst í tal þessi meinta ásókn.

Steinþór Logi sagði „fjársterk öfl og fyrirtæki í sífellt meira mæli ásælast jarðir og dæmi séu um að bankað sé upp á hjá bændum, jafnvel árlega með boð um að kaupa jarðir þeirra. Þeir sem falast eftir landi eru einnig erlendir aðilar.“ Enn fremur lýsti hann vaxandi eftirspurn fyrirtækja eftir jörðum til að kolefnisjafna rekstur sinn.

Sama dag birtist svo frétt í kvöldfréttatíma Stöðvar 2. Þar sagði Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður frá áhyggjum Bændasamtakanna af málinu. Þau telja þjóðar- og fæðuöryggi hvorki meira né minna stefnt í voða vegna jarðarkaupa innlendra og erlendra spákaupmanna. Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, sagði í fréttinni að sjálfu fæðuöryggi þjóðarinnar væri stefnt í hættu:

„Þá mun framleiðsla á landbúnaðarvörum dragast saman sem mun hafa alvarleg áhrif. Það verður erfitt að mæta þeirri fólksfjölgun sem spáð er hér á landi næstu áratugina. Þetta skapar mikla hættu fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er því ákveðið þjóðaröryggismál að hafa fæðu- og matvælaöryggi í landinu í lagi.“

Margrét Ágústa sagði enn fremur að fulltrúar Bændasamtakanna hefðu ferðast um landið í haust og heimsótt meðal annars bændur í Húnavatnssýslu. „Í samtölum okkar þar kom fram að erlendir fjárfestar væru að sækjast eftir því að kaupa allt að tuttugu jarðir í sveitinni. Þeir gáfu upp að það væri vegna vatnsréttinda á jörðunum. Þeir buðu fúlgur fjár fyrir bújarðirnar. Fasteignaauglýsingum var líka beint að erlendum markaði.“

Þá sagði Margrét að koma þurfi í veg fyrir að innlendir og erlendir fjárfestar kaupi jarðir hér á landi í þeim eina tilgangi að græða á komandi kynslóðum. Margrét segir svo: „Þetta er ákveðið fullveldismál. Ætlum við að vakna árið 2044 við að landið er komið í eigu erlendra aðila? Núverandi stjórnvöld hafa ekki tekið á þessum málum af nægilegri festu. Það er verkefni sveitarstjórna og nýrrar ríkisstjórnar að taka málið í sínar hendur.“

***

Þessi fréttaflutningur vekur upp margar spurningar sem hefur ekki enn verið svarað. Í fyrsta lagi: Hvaða gögn liggja að baki þeirri fullyrðingu að ásókn spákaupmanna – erlendra eða innlendra – í bújarðir hér á landi fari vaxandi? Ef það er tilfellið, er það þá eitthvað sérstakt áhyggjuefni? Eru menn að „græða á komandi kynslóðum“ ef þeir fjárfesta í jarðnæði til að byggja upp ferðaþjónustu eða virkja vatnsafl? Einhverjir myndu líta á þetta sem efnahagslega framþróun. Það sama á við um fullyrðingar framkvæmdastjóra Bændasamtakanna um að fæðuöryggi þjóðarinnar sé stefnt í hættu. Það þarf ekki annað en að líta á gögn Hagstofunnar til að sjá að engar sérstakar breytingar hafa átt sér stað í innlendri framleiðslu á landbúnaðarafurðum undanfarinn áratug.

***

Síðan kom á daginn að fréttir um áhuga erlendra spákaupmanna á jarðarkaupum, sérstaklega í Húnavatnssýslu, virtust vera stórlega ýktar. Á fimmtudag í síðustu viku birti Morgunblaðið viðtal við Guðmund Hinrik Hjaltason húsasmíðameistara sem á 1360 hektara jörð í Vestur-Húnavatnssýslu. Guðmundur setti sig sjálfur í samband við Morgunblaðið til þess að leiðrétta þann misskilning sem er á ferðinni í ofangreindum fréttum. Fram kemur í fréttinni að jörð hans hafi verið til sölu í tæplega tvö ár án þess að nokkur hafi sýnt henni áhuga. „Það er varla spurt um mína jörð þannig að þetta er bara bull og ekkert annað,“ hefur Morgunblaðið eftir Guðmundi. Í fréttinni segir:

Og hefur enginn einu sinni komið að skoða?

Jú, en þeir eru ótrúlega fáir. Ég hélt að þessi jörð færi á nóinu,“ svarar Guðmundur, „ég held þessu vel við, öll fjölskyldan mín og systur minnar, við máluðum til dæmis allt þarna 2019. Þannig að mér fannst nú bara fyndið að heyra þessar fréttir,“ segir Guðmundur Hinrik Hjaltason, húsasmíðameistari og jarðareigandi, um umræðu í vikunni um eftirspurn og tilboð er hlaupa á margföldu markaðsverði jarðnæðis norðan heiða.“

Það væri áhugavert ef fjölmiðlar könnuðu hvað þeim öflum sem reyna að bregða upp þeirri mynd að spákaupmenn séu að í þann mund að kaupa upp allt landið og að það stefni fæðuöryggi í hættu gengur í raun og veru til.

***

Þessi fréttaflutningur minnir um margt á umræðuna um leigumarkaðinn í aðdraganda kosninganna. Sem kunnugt er þá töluðu fulltrúar Samfylkingarinnar og aðrir flokkar gegn því að farið væri með húsnæði sem fjárfestingareign og boðuðu aðgerðir til að stemma stigu við skammtímaleigu á húsnæði. Þeir sem leigja út íbúðir í skammtímaleigu gera fyrst og fremst út á ferðamenn og algengast er að leigt sé gegnum vefsíðuna Airbnb. Í aðdraganda kosninganna mátti ráða af málflutningi sumra flokka að slík útleiga ætti sinn þátt í þeim framboðsvanda sem nú ríkir á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Landsbankinn lagðist á sveif með þessum málflutningi. Á föstudag sendi greiningardeild bankans frá sér umfjöllun þar sem fram kom að skammtímaleiga í gegnum Airbnb hefði stóraukist og framboð á íbúðum til langtímaleigu minnkað á móti og að þessi þróun gæti skýrt hækkun á leiguverði. Í greiningunni segir: „Samkvæmt gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefur framboð langtímaleiguíbúða minnkað á síðustu misserum samhliða fjölgun skammtímaleiguíbúða. Íbúðir til skammtímaleigu á vegum Airbnb voru rúmlega 9.000 síðasta sumar. Þeim hefur fjölgað skarpt eftir faraldurinn, þegar fjöldinn fór niður í um 5.000, en eru þó enn lítillega færri en fyrir faraldur.“

Í sjálfu sér er ekkert sérstaklega athyglisvert að Airbnb-íbúðum fjölgi frá þeim tíma þegar engir ferðamenn voru á landinu. Merkilegra er að fjöldi þeirra íbúða hafi ekki einu sinni náð því magni sem hann var í áður en heimsfaraldurinn braust út – ekki síst þegar þróun fjölda ferðamanna og fólksfjöldaþróun er höfð í huga. Það virðist því býsna augljóst að ástandið á fasteignamarkaðnum skýrist fyrst og fremst af framboðsvanda. Hvað varðar ástandið á leigumarkaðnum má einnig hafa í huga að nýverið voru ný
leigulög samþykkt. Lögin leggja miklar kvaðir á leigusala og takmarka samningsfrelsi á leigumarkaði verulega. Það væri áhugavert að fá svör við spurningum um hvaða áhrif þau hafa nú þegar haft á leigumarkaðinn.

***

Ríkisútvarpinu er stundum legið á hálsi fyrir að vera ekkert sérstaklega áhugasamt um íslenskt viðskiptalíf og að lítil þekking sé meðal fréttamanna á efnahagsmálum. Það getur verið að það útskýri undarlega framsetningu í frétt um úr hvaða störfum fólk sem kjörið var á þing um helgina var að koma. Fyrirsögnin á fréttinni var: Þingmenn koma víða að úr atvinnulífinu. Svo hófst upptalning á öllum þeim þingmönnum sem störfuðu áður á vettvangi sveitarstjórnarmála.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. desember 2024.