Gott dæmi sást um ógeðfelldar hótanir stjórnmálamanns í vikunni, þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra gerði sig seka um slíka framgöngu í reglulegum miðopnupistli, sem Morgunblaðið eftirlætur stjórnmálaflokkum á Alþingi í nafni fjölbreytilegrar og frjórrar þjóðmálaumræðu.
Sem kunnugt er hefur Morgunblaðið verið leiðandi í fréttaflutningi af stórundarlegri stjórnsýslu ráðherrans og tilraunum hans til þess að beita Samkeppniseftirlitinu fyrir sig í pólitískri stefnumótun í sjávarútvegsmálum. Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafði Samkeppniseftirlitið gerst brotlegt við lög og er framferði stofnunarinnar og ráðuneytisins í þessu máli öllu hið vandræðalegasta svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Grein Svandísar í Morgunblaðinu nefnist „Varðstaða um leynd“ og skaut ráðherra föstum skotum að blaðinu sem birtir greinina. Svandís ritar:

„Ritstjórn Morgunblaðsins telur gagnsæi greinilega svo mikla ógn við fjársterka aðila að bregðast þurfi af afli við áformum stjórnvalda um að varpa skýru ljósi á sjávarútveginn. Eigendur blaðsins, að stærstum hluta stórfyrirtæki í sjávarútvegi, þétta raðirnar og pólitísk öfl úr þeim ranni láta til sín taka.“

Auk þess að standa í hótunum við blaðamenn Morgunblaðsins dregur Svandís fram álitlegan strámann í skrifum sínum. Strámaðurinn felst í aðdróttunum um að leyndarhyggja einkenni íslenskan sjávarútveg og þar af leiðandi hafi ráðherra tekið að sér það hlutverk að lýsa upp skúmaskotin. Gallinn við þessa framsetningu er að hún á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Íslenskur sjávarútvegur starfar eftir lögum og til fyrirtækja hans eru gerðar allar sömu kröfur og til annarra fyrirtækja. Og gott betur. Tvö af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum eru skráð í Kauphöllina og það þriðja bætist í hópinn á nýju ári. Ekki þarf að fjölyrða um þá upplýsingaskyldu sem fyrirtæki gangast undir með skráningu í kauphöll. Auk þess eru allar upplýsingar um rekstur og eignarhald annarra sjávarútvegsfyrirtækja aðgengilegar í fyrirtækjaskrá og öðrum gagnagrunnum, fyrir nú utan hitt að sjávarútvegsfyrirtæki lúta ýmsum sérreglum. Fiskistofa heldur utan um aflaheimildir og mun strangari hömlur eru á umsvifum sjávarútvegsfyrirtækja en annarra, að ógleymdri sértækari skattheimtu veiðigjalda ofan á aðra skatta. Allt liggur það fyrir með eins opinberum og gegn-sæjum hætti og hugsast getur.

Svandís segir í grein sinni: „Varðstöðu greinarinnar, stjórnmálafólks og Morgunblaðsins um leynd verður að linna til þess að sjávarútvegurinn fái að njóta sannmælis.“ Þetta er áhugaverð fullyrðing í ljósi þess að matvælaráðherra hefur aldrei verið spurður að í hverju leyndin felist og hvaða upplýsingar þurfi að koma fram aðrar en þær sem eru aðgengilegar í ársreikningum og hjá skattayfirvöldum svo einhver dæmi séu tekin.
***

Óskiljanleg reiðialda gekk yfir íslenskt samfélag í síðustu viku. Reiðin stafaði af ummælum sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lét falla á sjávarútvegsdegi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Efnislega sagði Áslaug að hún ætlaði ekki að ræða um málefni sem eru á borði Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra en þess í stað að fjalla um nýsköpun. Af einhverjum ástæðum varð þetta til þess að reiðibylgja skall yfir þjóðfélagið.

Málinu voru gerð góð skil í fréttamagasínþættinum Tvíhöfða á föstudag. Þar ræddu þeir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson málið:

Jón Gnarr: Þetta var sem sagt sjávarútvegsdagurinn og það var streymi á netinu sem örugglega ekki minna en 30-40 manns hafa verið að horfa á, þannig að hún sagði að henni fyndist Íslendingar, svona almennt, vera að sofna svolítið á verðinum í íslensku samfélagi, sko Íslendingar eru almennt að sofna á verðinum í íslensku samfélagi, þeir eru sofandi hérna heima og svo þegar þeir eru á Tenerife þá eru þeir rosa vakandi, á mörgum sviðum og hana langaði að gera það að umtalsefni og mér finnst það bara eðlilegt, ég fór að leggja þarna við hlustir. Og hún sagðist viðurkenna, hún sagði ég legg spilin á borðið og viðurkenni að það er freistandi að ræða málefni líðandi stundar, og allir bara „ha hvað meinarðu?“ Og það mátti heyra saumnál detta þarna, og þá sagði hún, ég gæti rætt um gullhúðun íslenskra stjórnvalda og þungt regluverk ESB, og ég gæti rætt um hvalveiðar, nú eða sjókvíaeldi, eða bara Samkeppniseftirlitið og jafnvel verktaka þess, ráðuneytið sem er einmitt í þessu sama húsi í B26, sagði Áslaug. Og ég gæti líka rætt um samnefnarann yfir þetta flest – ekki allt heldur flest – Svandísi Svavarsdóttur – Og fólk bara saup hveljur – sem situr með mér í ríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem þið auðvitað elskið öll svo heitt og innilega. Og um hana get ég – og þetta er reyndar mjög fyndið – um hana get ég sagt eitt, sem sagt ríkisstjórnina, ekki Svandísi, að þessi ríkisstjórn er skárri með Sjálfstæðisflokknum en án hans, sagði hún.
Og mér finnst þetta alveg fyndið en á meðan að hún var að segja þetta þá gerði hún þetta sem var svo ljótt sko, sem sagt þá setti hún svona samsetta mynd af Svandísi upp á vegg í Hörpu og þar mátti sjá ráðherrann, mynd af henni, og svo sjó og kýrauga.

Sigurjón Kjartansson: Neeeiiii!

JG: Og þá spyr maður bíddu hvað er verið að fara hérna, hvað ertu að gefa í skyn?

SK: Nei, nei, nei. Ósmekklegra verður það ekki.

JG: Og svo bætti hún um betur og sagðist ekki ætla að ræða þetta, heldur nýsköpun í sjávarútvegi og hóf þar að ræða það.

SK: Úff.

JG: Þannig að sem sagt, og ég var bara, svona segir maður ekki. Maður bara segir ekki svona.

SK: Það eina sem ég hef fengið veður yfir þessu öllu saman er í gegnum einmitt samfélagsmiðla, þar sem að hver Illugi Jökulsson á fætur öðrum er bara að hneykslast á þessu.

JG: Er mönnum ekkert heilagt.

SK: Og hann bara nær ekki upp í nef sér hversu lágt hún getur lagst og alls konar.

Þrátt fyrir að erfitt sé að sjá hvað var særandi eða þá fréttnæmt við ummæli Áslaugar gerðu fjölmiðlar sér mikinn mat úr málinu. Fór Ríkisútvarpið þar fremst í flokki.

Í ágætri samantekt Björn Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um málið á heimasíðu sinni segir að RÚV hafi sagt Áslaugu Örnu hafa „snuprað“ Svandísi og „hæðst að“ ráðuneyti hennar. Þá upplýsti fréttastofa RÚV að ummæli Áslaugar hefðu fallið í grýttan jarðveg innan VG „svo vægt sé til orða tekið“ og að VG-liðar hugsi „Áslaugu Örnu þegjandi þörfina“.

Umfjöllun RÚV um málið var svo yfirgripsmikil á föstudag að ekki færri en fjórir fréttamenn komu að vinnslunni eins og meðfylgjandi skjáskot sýnir.

Björn skrifar svo á heimasíðu sinni:

„Skrifstofa VG sendir í hverri viku frá sér svonefndan föstudagspóst þar sagði 6. október að í fréttum RÚV hefði verið rætt um „ólgu innan VG“ vegna ummæla Áslaugar Örnu. Þá segir: „Þessar fréttir komu okkur á skrifstofunni frekar mikið á óvart, því ekki urðum við vör við mikla ólgu … og engin símtöl fengum við frá félögum vegna þessa.“ Gagnrýnendum hefðu þótt ummælin „sérstök“.

rúvaslaug
rúvaslaug

Hverjir skyldu hafa verið heimildarmenn fréttamanna ríkisútvarpsins sem fullyrtu að ummælin hefðu fallið í grýttan jarðveg innan VG „svo vægt sé til orða tekið“ og einnig að VG-liðar hugsi „Áslaugu Örnu þegjandi þörfina“?
Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem fréttastofa ríkisútvarpsins grefur undan eigin trúverðugleika með því að fara offari vegna sjávarútvegsmála.“
***

Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af árás Hamas-samtakanna á Ísrael um helgina er athyglisverður sökum þess að fréttamenn stofnunarinnar virðast forðast að tala um hryðjuverk í þessu samhengi. RÚV talar um árásir vígamanna Hamas á Ísrael eins og þær séu liður í lögmætum hernaði en ekki kaldrifjuð fjöldamorð á saklausum borgurum.
Á fréttavakt RÚV um framgang atburðarásarinnar fyrir botni Miðjarðarhafs eru hryðjuverk hvergi nefnd á nafn nema þegar vitnað er til yfirlýsinga annarra. Rúv dregur það hins vegar allt í efa: „Frakkar fordæma það sem þeir kalla hryðjuverkaárásir Palestínumanna“.

Einnig vekur frásögn RÚV frá fjöldamorðum Hamas-liða á ungu fólki á tónlistarhátíð í Ísrael upp spurningar:

„Fjölda fólks sem sótti tónlistarhátíð í ísraelsku eyðimörkinni, nærri landamærunum að Gaza, er enn saknað eftir að hópur vígamanna réðist að þeim í gærmorgun. Vígamennirnir hófu skothríð á hópinn, og hefur ekkert spurst til nokkurra eftir að þeir reyndu að flýja árásina.“

Ekkert spurst til nokkurra? Þetta er frekar ódýr afgreiðsla á fjöldamorðum á 260 einstaklingum og hafa meðal annars borist óstaðfestar fregnir um nauðganir og höfuðafskurð.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 11. október.