Í síðustu viku var skýrsla starfshóps Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna kynnt á blaðamannafundi. Á fundinum vakti sérstaka athygli að tveir af þeim sem sátu í vinnuhópnum – Auður Alfa Ólafsdóttir verðlagsstjóri Alþýðusambands Íslands og Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna – skipuðu sér á bekk með blaðamönnum og spurðu ráðherrann spjörunum úr án þess að gera frekar grein fyrir sér. En það er önnur saga.

Í síðustu viku var skýrsla starfshóps Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna kynnt á blaðamannafundi. Á fundinum vakti sérstaka athygli að tveir af þeim sem sátu í vinnuhópnum – Auður Alfa Ólafsdóttir verðlagsstjóri Alþýðusambands Íslands og Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna – skipuðu sér á bekk með blaðamönnum og spurðu ráðherrann spjörunum úr án þess að gera frekar grein fyrir sér. En það er önnur saga.

Þrátt fyrir að ákveðnir fjölmiðlar hafi slegið upp niðurstöðum vinnuhópsins sem áfellisdómi yfir íslensku bankakerfi er fátt í skýrslunni sem styður við slíkar upphrópanir. Eins og flestir vita þá er vaxtamunur meiri í íslensku bankakerfi meðal annars vegna íþyngjandi skattaumhverfis og hárra eiginfjárkvaða samanborið við nágrannalöndin. Eigi að síður fór vaxtamunurinn minnkandi á árunum 2020-2021 en tók að stíga á ný þegar stýrivaxtastig fór hækkandi rétt eins og í samanburðarlöndunum. Sam­kvæmt skýrsl­unni eru út­gjöld sem neytend­ur greiða vegna bankaþjón­ustu einnig mjög sam­bæri­leg hér á landi og ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um sem hlut­fall af neyslu­út­gjöld­um.

Þrátt fyrir að lítil tíðindi sé að finna í skýrslunni var hún skáldinu og fjölmiðlamanninum Sigmundi Erni Rúnarssyni yrkisefni í innblásnum pistli sem birtist á DV fyrir nokkrum dögum. Pistillinn er svo innblásinn að Sigmundur virðist ekki hafa þurft að kynna sér efni skýrslunnar til að skrifa hann. Sigmundur Ernir skrifar:

Þess vegna þarf almenningur á Íslandi að sætta sig við það alla sína hunds- og kattartíð – og þar er kominn lífstíðardómurinn – að eyða langtum stærri summu af ævitekjum sínum í bankana en gengur og gerist í samkeppnislöndum.
Og þetta eru svo rosalegar tölur að það er með algerum ólíkindum að alþýða manna sé ekki fyrir langa löngu komin með potta sína og pönnur út á götur og torg til að berja framan við bankana í landinu. Kostnaðurinn af efnahagshruninu á sínum tíma er lítill miðað við uppsafnað stórtap heimilanna af viðskiptunum við íslenskt bankakerfi.

Það skýtur því skökku við, svo ekki sé meira sagt, að almenningur hangi heima á meðan hann er árum saman rændur og ruplaður af þessum fjármálakontórum sem svífast einskis til að smyrja ofan á gjöld sín og álögur.

Hvergi í Evrópu er vaxtamunur meiri en á Íslandi, altso misræmið á því hvað lántakandinn þarf að greiða í vexti og það sem innistæðieigandinn ber úr býtum.
Nýlegt dæmi sýnir hvernig bankarnir á Íslandi böðlast um samfélagið. Það eru 42 prósenta hærri yfirdráttarvextir á Íslandi en í Danmörku. Það eru 68 prósenta hærri vextir á húsnæðislánum á Íslandi en í Danmörku. Og það eru 118 prósenta hærri vextir á bílalánum á Íslandi en í Danmörku.

Og samt nota Danir krónur.

Að vísu tengda við evruna svo nemur ströngum vikmörkum.

Þetta er Íslandssagan í hnotskurn. Það er varla eða ekki hægt að fjármagna sig á Íslandi í krónum talið. Eina leiðin til að komast af á Fróni er að vera stórfyrirtæki svo hægt sé að gera upp bókhaldið í dollurum eða evrum.

Að þessu sögðu er gaman frá því að segja að fram kemur í skýrslunni að þegar litið er til vaxtamunar óverðtryggðra fasteignalána og innlánsreikninga þá kemur í ljós að vaxtamunurinn er næst lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum – hann er aðeins minni í Danmörku. Í skýrslunni segir að þetta sé gagn­leg vís­bending um að á­lagning ís­lensku bankanna í formi vaxta­munar á inn­lánum ein­stak­linga og í­búða­lánum sé ekki mjög frábrugðinn því sem gengur og gerist á hinum Norður­löndunum.

Það sem vekur kannski mesta athygli við skrif er ekki þekkingarleysið á viðfangsefninu heldur miklu frekar að þau þóttu svo merkileg í Efstaleitinu að Sigmundur var kallaður til í síðdegisútvarpið á Rás 2 til að gera fyrir þeim frekari grein.

Það ætti ekki að koma á óvart. Álitsgjöfum RÚV um fjármálakerfið er ekki fisjað saman. Ekki er langt síðan boðið var upp á kostulegt viðtal í Silfrinu við Andrés Magnússon geðlækni um peningamálastefnuna og virkni brotaforðakerfisins ásamt öðrum tengdum efnahagsmálum sem aðeins íslenskir sérfræðilæknar hafa tök á að skilja.

Viðtalið var kostulegt. Geðlæknirinn ræddi um hagfræðikenningar sínar sem stangast á við flest það sem færustu peningamálahagfræðingar heims hafa stuðst við gegnum tíðina. Kenningar geðlæknisins virðast byggja á grundvallarmisskilningi hans á svokallaðri nútímapeningamálastjórnun (e. modern monetary theory) í bland við samsæriskenningar öfgafólks í dýpstu jöðrum umræðunnar á samfélagsmiðlum um samsæri fjármálaelítunnar og lykilstofnana hennar.

Og að sjálfsögðu er svo Ásgeir Brynjar Torfason, síðast verkefnastjóri á menntavísindasviði Háskóla Íslands og sérfræðingur um hlutverk þvottabjarna í diplómatískum samskiptum, reglulegur gestur í morgunútvarpi Rásar 1 þar sem hann ræðir um sérfræðisvið sín.

***

Margir þökkuðu fyrir að sýningar á skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar í Ríkissjónvarpinu voru ekki hafnar á ný þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra framlengdi ekki tímabundið bann sitt við veiðum á langreyðum.

Margir þökkuðu fyrir að sýningar á skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar í Ríkissjónvarpinu voru ekki hafnar á ný þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra framlengdi ekki tímabundið bann sitt við veiðum á langreyðum í síðustu viku. Mönnum var létt að þurfa ekki að hlusta á runu stjórnandans við upphaf þáttar um fólk sem væri langreytt á hvalveiðum og þvílíkt kvalræði þetta allt saman væri og fleiri orðaleiki úr munni meistarans. Nógu er erfitt ástandið fyrir.

En hvað um það. Hvalveiðar hafa verið fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum undanfarið og margar furðufregnir birst. Þannig sagði Vísir frá því á sunnudag að Norðmaður að nafni Samuel Rostöl sem staddur er hér á landi hefði farið í hungurverkfall þegar ljóst varð að skip Hvals færu aftur til veiða. Í samtali blaðamanns við norska náttúruverndarsinna kom ekki fram að norsk stjórnvöld leyfðu hvalveiðar og hrefnuveiðimenn þar í landi veiða ríflega þúsund dýr ár hvert.

En eins og sést hefur á fréttum af fámennum mótmælum gegn veiðunum eru miklar tilfinningar í spilunum. Það er bara eins og það er. En það er óheppilegt þegar fjölmiðlar fara að leyfa tilfinningum að hlaupa með sig í gönur í fréttaflutningi.

Það gerði Ríkisútvarpið svo sannarlega þegar stofnunin birti myndskeið á samfélagsmiðlinum sem eitt sinn hét Twitter um hvalveiðarnar. Þetta er Twitter-síða sem RÚV heldur úti og er ætluð enskumælandi fólki. Myndskeiðið líktist einna helst áróðursmyndbandi frá hvalveiðiandstæðingum en ekki frétt ríkisfjölmiðils sem krafa er gerð til um hlutleysi og fagleg vinnubrögð

Í myndskeiðinu kom ekkert fram um að veiðarnar væru fullkomlega löglegar og sjálfbærar og að vísindamenn teldu þær ekki ógna stofni langreyða við Íslandsstrendur. Þess í stað var fullyrt að þær væru gegn vilja þjóðarinnar. Samkvæmt könnun sem Ríkisútvarpið greindi sjálft frá á dögunum þá eru 42% aðspurðra andvíg veiðum á langreyðum en 29% fylgjandi. Könnunin var unnin af Maskínu fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild sinni í blaðinusem kom út 6. september.