Er það álitamál að fyrirtæki sem selja þjónustu sína á samkeppnismarkaði hagnist á starfseminni? Í huga flestra er svarið við þessari spurning augljóst en það sama virðist ekki vera uppi á teningnum í höfuðstöðvum Ríkisútvarpsins í Efstaleiti.
Í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á mánudag var fjallað um störf túlka hér á landi. Ingi Freyr Vilhjálmsson hafði umsjón með þættinum og ræddi meðal annars við Gauta Kristmannsson, prófessor við þýðingafræði við Háskóla Íslands. Haft er eftir Gauta að „samfélagstúlkun er bara villta vestrið“ í umfjölluninni. Ekki er gott að glöggva sig á hvað felst í þessari fullyrðingu. Eru menn að túlka óumbeðnir og eftirlitslausir úti um allan bæ á degi hverjum?
Ingi Freyr beindi sjónum sínum að einu fyrirtæki í umfjöllun sinni – Alþjóðasetri. Fyrirtækið býður upp á túlkanir og þýðingaþjónustu fyrir fjölda tungumála. Augljóst er að Ingi Freyr reynir eftir fremsta megni að gera fyrirtækið tortryggilegt. Hann slær því fram að fyrirtækið hafi hagnast um 350 milljónir á síðustu fimm árum og svipuð upphæð hafi verið greidd út í arð til hluthafa. Þetta virðast háar upphæðir en þegar reikningar félagsins eru skoðaðir kemur í ljós að hér er ekki um að ræða rekstur neinnar gullgerðarvélar. Fyrirtækið er vissulega í ágætis rekstri og var arðsemi eigin fjár í fyrra um 10% sem er ekkert sérstaklega óeðlilegt að teknu tilliti til verðbólgu.
Ingi ræddi jafnframt við fólk sem hefur unnið fyrir Alþjóðasetur. Það ber fyrirtækinu vel söguna en fram kemur að sumir kvarta yfir launum. Þegar litið er á ársreikning félagsins kemur þó í ljós að launahlutfallið er um 60%.
Umfjöllunin var svo birt á vef Ríkisútvarpsins. Þar mátti sjá þær spurningar sem Ingi Freyr lagði fyrir Sigríði Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóra og annan eiganda Alþjóðaseturs. Ein spurningin var svo hljóðandi:
„Skoðun ársreikninga Alþjóðaseturs síðustu ár sýnir talsverðan hagnað og arðgreiðslur. Er eðlilegt að fyrirtæki sem veitir slíka þjónustu, sem að stóru leyti er við ríki og sveitarfélög fyrir almannafé, sé svona arðbært?”
Í fyrsta lagi er ekki með góðu móti hægt að rökstyðja þá fullyrðingu að rekstur Alþjóðaseturs sé óeðlilega arðbær og í öðru lagi afhjúpar það frekar undarlega sýn til efnahagslífsins að gera þá kröfu að öll þau fyrirtæki sem selja hinu opinbera þjónustu sína eigi ekki að gera eðlilegar kröfur um arðsemi. Það hreinlega stríðir gegn grundvelli þess markaðsskipulags sem við búum við og sátt virðist ríkja um að Efstaleitinu og Bolholtinu undanskildu.
Fyrir nokkru kynnti Samfylkingin áherslur sínar í húsnæðismálum fyrir komandi kosningar. Fór kynningin fram fyrir utan verslun Bónus á Egilsstöðum af einhverjum ástæðum og kallaðist það skemmtilega á við frægan blaðamannafund sem haldinn var fyrir utan starfsstöð Four Seasons Total Landscaping í úthverfi Philadelphia hérna um árið. En það er önnur saga.
Athygli vakti að Samfylkingin kynnti hækkanir á fjármagnstekjuskatti sem hluta af áherslum sínum í húsnæðismálum. Vill flokkurinn hækka skatta á fjármagnstekjur úr 22% yfir í 25%. Þessar tillögur hafa vakið töluverða athygli ekki síst sökum þess að flokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að hann ætli sér ekki að hækka skatta „á vinnandi fólk“ eins og frambjóðendur hans orða það. Þrátt fyrir það er ljóst að hækkun fjármagnstekjuskattsins mun auka skattbyrði þeirra tugþúsunda einyrkja sem eru við störf hér á landi á flestum sviðum efnahagslífsins svo einhver dæmi séu tekin.
En minna hefur verið fjallað um hvaða áhrif hækkun fjármagnstekjuskatts kann að hafa á fasteignamarkaðinn. Augljóst er að hækkunin mun setja þrýsting á leiguverð enda eykur hún kostnað við það að leigja út íbúðir. Orsakasamhengið er enn flóknara eins og má lesa um í ágætri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu efnahagsmála hér á landi sem gefin var út í síðustu viku.
Í skýrslunni færa þeir Gylfi Zoega og Sigurður Jóhannesson rök fyrir því að útfærsla fjármagnstekjuskatts hér á landi sé einn af þeim þáttum sem hafa magnað upp eftirspurnina á fasteignamarkaði.
Í stuttu máli er skattur lagður á fjármagnstekjur óháð því hvort um raunávöxtun sé að ræða eða ekki. Rétt er að halda því til haga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft á stefnuskrá sinni að breyta þessu en ekki beitt sér fyrir því í ríkisstjórnarsamstarfinu. Í skýrslunni segir að skattlagning verðbóta og verðbólguhluta nafnvaxta á sparnað hafi aukið spákaupmennskueftirspurn fjármagnseigenda eftir húsnæði enda enginn fjármagnstekjuskattur greiddur af sölu íbúðarhúsnæðis innan ákveðinna stærðarmarka.
Þannig leggja skýrsluhöfundar til að fjármagnstekjuskattur verði í raun lækkaður með því að lækka skattheimtu á verðbætur og vaxtagreiðslur vegna verðbólgu. Leggja þeir til að þetta sé gert með því að færa verðbólgu til gjalda í skattaframtali á móti vaxtatekjum af óverðtryggðum bankainnistæðum og verðbótum á verðtryggðum reikningum. Með þessu leggst fjármagnstekjuskattur í meira mæli á mismun nafnvaxta og verðbólgu og minna mæli á verðbólgu.
Mikil verðbólga á undanförnum árum og fyrirkomulag á skattheimtu fjármagnstekna hefur leitt til þess að raun-ávöxtun sparnaðar hefur verið afar léleg og telja skýrsluhöfundar þetta grafa undan virkni peningamálastefnunnar. Í
skýrslunni segir:
„Í samanburði við banka-reikninga þá getur fjárfesting í íbúðarhúsnæði verið ábatasöm. Þegar raunvextir eftir skatta eru lágir er við því að búast að margir sparifjáreigendur sjái sér leik á borði og kaupi húsnæði sem veldur því að húsnæðisverð tekur að hækka. Söluhagnaður af húsnæði öðru en eigin íbúðarhúsnæði er skattfrjáls upp að ákveðnu marki. Það eykur eftirspurn. Hægt væri að þrengja þennan ramma til þess að minnka hvata til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði og jafnframt auka raunávöxtun á bankareikningum eftir skatta með því að leyfa sparifjáreigendum að draga frá fjármagnstekjum margfeldi verðbólgu og höfuðstóls inneignar á sparifjárreikningum, að hluta eða að öllu leyti.
Samspil verðbólgu, skattkerfis og húsnæðismarkaðs hefur áhrif á peningastefnuna. Hækkun húsnæðisverðs getur hæglega leitt til hækkunar á leigu ef ávöxtunarkrafa fjárfesta, sem fer eftir raunvöxtum, lækkar ekki á móti. Hærri leiga veldur þá hækkun á mældri verðbólgu sem kallar á hærri vexti sem hækkar ávöxtunarkröfu fjárfesta sem hækkar leigu o.s.frv. Þannig verður miðlunarferli peningastefnunnar annað fyrir húsnæðisliðinn en fyrir aðra þætti neysluverðsvísitölunnar.“
Að öllu öðru óbreyttu verður ekki annað séð en að frekari hækkun fjármagnstekjuskatts muni magna upp eftirspurnarþrýsting á fasteignamarkaði enn frekar.
Það er fleira í skýrslunni sem gæti gagnast fjölmiðlafólki sem er upptekið við að spyrja frambjóðendur í alþingiskosningunum spjörum úr. Sem kunnugt er þá keppast stjórnmálamenn flestra flokka við að lofa auknum ríkisútgjöldum, hækkun skatta á fyrirtæki og fjármagnseigendur og ætla svo á sama tíma að stuðla að auknum verðstöðugleika og lægri vöxtum.
Þar er bent á að sem efnahagsaðgerð sé samdráttur á útgjaldahlið ríkisfjármálanna skilvirkari leið til þess að ná niður eftirspurn í hagkerfinu en skattahækkanir. Ástæðan er að hærri skattar draga úr sparnaði og einkaneyslu meðan hærri útgjöld fela í sér kaup á vörum og þjónustu sem auka sannarlega eftirspurn.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. október 2024.