Magnús Helgason, sem útskrifaðist frá myndlistarakademíunni AKI í Hollandi árið 2001, hefur unnið að myndlist í fjölbreyttum miðlum og haldið yfir 20 einkasýningar. Fyrstu árin einkenndust af tilraunakenndri kvikmyndagerð, en frá 2010 til 2018 varð myndsköpun úr fundnum efnum megináhersla, þar sem tilviljanir og veðrun mótuðu verk hans. Árið 2018 þróaðist vinna hans í átt að innsetningum, þar sem segulstál og rými urðu lykilþættir í sýningum á Listasafninu á Akureyri, Gerðarsafni og Listasafni Árnesinga. Á síðustu árum hefur tæknileg nálgun eflst með notkun skrefmótora í hreyfilistaverkum, en markmið Magnúsar hefur ávallt verið að snerta áhorfandann beint í hjartastað.

Hvenær byrjaðirðu að búa til myndlist og hvernig kom það til að þú fórst að skapa?

Á menntaskólaárunum fékk ég mikinn áhuga á ljósmyndun og hafði hug á því að leggja það jafnvel fyrir mig og skráði mig í myndlistarskóla í Hollandi með þá stefnu að læra ljósmyndun. Í fornáminu var skylda að vinna í marga myndlistarmiðla og þá uppgötvaði ég hvað margt er mögulegt og ég endaði fyrir mikla hvatningu í blandaðri tæknideild myndlistar (mixed media) þar sem málverk og tiraunakennd kvikmyndagerð urðu fljótt helstu viðfangsefnin.

Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

Sú myndlist sem höfðar mest til mín er sú myndlist sem fer framhjá heilanum og beint inn í hjartað. Myndlist sem þarfnast engra útskýringa eða fyrirfram menntunar til að skilja. Einlæg myndlist sem börn geta skilið alveg eins og gamlir lisfræðingar.

En sennilega er áhrifamesta sýningin og sú sem hafði mest mótandi áhrif á mig stór yfirlitssýning á verkum bandaríska málarans Roberts Rauschenberg, sem ég sá þegar ég var við nám í Hollandi. Þarna birtist mér í fyrsta sinn stórkostleg myndlist sem blandaði saman allskonar tækni og efnum í einhverri brjálæðislega skemmtilegri og kraftmikilli og óvæntri súpu.

Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?

Ef maður vinnur við það sem maður elskar þá er maður eiginlega aldrei í vinnunni. Ég ákvað ungur að eyða ekki ævinni í að gera leiðinlega hluti og sennilega þess vegna gerðist ég myndlistarmaður. En ég byrja oftast að skemmta mér í vinnustofunni snemma á morgnana og er í svona almennum takti samfélagsins. Einhvers staðar heyrði ég því fleygt að það væri lykilatriði að vera staddur í vinnustofunni þegar innblásturinn lætur á sér kræla. Ég held að þetta sé góð speki og lifi svolítið eftir því.

Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?

Innblásturinn kemur auðvitað víða að, frá myndlistarsýningum, tónlist og internetinu. Stundum kemur innblásturinn frá óvæntum áttum, en til dæmis um það segi ég gjarnan að einhver mesti innblástur sem ég hef fengið hafi komið frá sjónvarpsþættinum Mythbusters á Discovery channel sem var svona vísinda-skemmtiþáttur. Þar voru þáttarstjórnendur sem gátu smíðað allskonar græjur og vélar, eiginlega næstum því hvað sem er og ég áttaði mig á því löngu seinna, eftir að þessir þættir voru farnir af dagskrá að þeir hafi verið kveikjan að því að ég fór að færast aðeins yfir í að gera tilraunir með að rafmótora og sterk segulstál í myndlistinni. Úr verður myndlist sem stundum hreyfist og er soldið vísindaleg. Í grunninn er þetta einhver innri þrá og köllun sem er langmesti drifkrafturinn. Bara það að vilja gera eitthvað skemmtilegt á daginn.

Hvað hvetur þig áfram í listinni?

Það er afskaplega hvetjandi þegar vel gengur og einhver sendir manni hrós. Góð vinkona mín sagðist einu sinni hafa fengið vatn í munninn þegar hún sá eitt verkanna minna. Það fannst mér gaman að heyra og hefur verið hvatning síðan þá. En hvatningin þarf samt að koma að mestu innan frá. Þörfin fyrir það að eyða ekki ævinni í leiðinlega hluti er drifkraftur.

Hverju ertu að vinna að núna?

Þessa stundina eru nokkur verkefni í undirbúningi en fyrsta sýning ársins verður í mars í Listval gallerí úti á Granda. Þar ætla ég að sýna það sem ég kalla hefðbundin málverk sem eru veggmyndir smíðaðar úr ýmis skonar fundnum efniviði á borð við gamlar eldhúsinnréttingar og heimasmíðuð dúkkuhús. Þessum efniviði safna ég á förnum vegi og raða saman í óhlutbundin myndverk í leit að jafnvægi, spennu og fegurð.

En fegurðin finnst mér afskaplega mikilvæg og má vera eftirsóknarverð í sjálfri sér. Ég hef líka lengi haldið því fram að fegurðin sé kannski ekki alveg eins afstæð og oft er haldið fram, en það er önnur saga. Svo má líka nefna stóra sýningu næsta sumar sem ég mun setja upp í stóru anddyrisrými menningarhússins Hofs á Akureyri. Vinnutitill þeirrar sýningar er: Andlegar verðmætadælur Magnúsar (verkið er bilað).

Titillinn vísar til þess að með verkunum ætla ég að nota raforkuna frá náttúrunni til þess að knýja hreyfilistaverkin sem munu dreifa andlegum verðmætum yfir alla þá sem leið eiga um. Þar verða tölvustýrðar vélar allsráðandi sem meðal annars munu láta silkiborða dansa um loftrýmið eins og maður sér í keppni í ryþmískum fimleikum.

Viðtalið við Magnús Helgason er úr nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag.

Áskrifendur geta lesið blaðið í heild hér.