Saga er íslenskur listamaður, ljósmyndari og leikstjóri. Hún byrjaði að taka ljósmyndir þegar hún var aðeins 8 ára gömul á meðan hún bjó í Þingvallaþjóðgarði. Hún var dolfallin yfir fegurð náttúrunnar og vildi fanga og varðveita augnablikin að eilífu, sem vakti áhuga hennar og ást á ljósmyndun.
Hún byrjaði að mála fyrir tólf árum og hefur vakið athygli fyrir litrík og falleg abstrakt málverk. Í sumar opnaði hún svo sýninguna „Flóra“ þar sem gestir fengu að sjá nýjustu verk hennar sem öll voru innblásin af blómum.
Hvenær byrjaðirðu að búa til myndlist og hvernig kom það til að þú fórst að mála?
Ég hef alltaf verið að skrifa ljóð, teikna og mála síðan ég man eftir mér. Ég er mikill listunnandi og stúdíóið mitt í London var í fimm mínútna fjarlægð frá Tate Modern, svo ég var þar oft í viku. Ég byrjaði að mála í London fyrir um 12 árum síðan og fyllti herbergið mitt og alla veggi af málverkum. Þegar ég er að mála gleymi ég stað og stund, fer í algjört flæði og algjöra núvitund.
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
Gæti skrifað heila bók um það en t.d. Louise Bourgeois, Kusama, Cy Twombly, Matisse, Monet, Alicja Kwade, Fay Wei Wei, Agnes Martin, Tracey Emin, Rachel Whiteread, Phyllida Barlow. Hér heima eru það meðal annars Anna Rún Tryggvadóttir, Helga Páley, Kristín Gunnlaugs, Áslaug Íris, Elín Hansdóttir, Shoplifter, Gjörningaklúbburinn og Gabríela Friðriks, Hulda Vilhjálms og fullt af fleirum mögnuðum listakonum!
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur hjá þér?
Enginn hefðbundinn vinnudagur og þegar maður er sjálfstætt starfandi er dagurinn aldrei búinn. Kannski er hinn hefðbundni vinnudagur hjá mér „ chaos“ en þar sem ég er ljósmyndari eru verkefnin mjög misjöfn, stundum er ég heila daga í auglýsingaverkefnum, suma daga að mynda portrett og svo er stór hluti af vinnunni minni að vera í tölvunni í myndvinnslu, undirbúningur og svara tölvupóstum. Ég reyni að ná sem mestum tíma í að mála líka en stundum hef ég bara 1-2 tíma í það á viku! Ég reyni að ná þó það séu ekki nema 20 mínútur á dag í að skrifa, skrifa ljóð eða handrit, teikna smá eða lesa. Ég finn að ég verð bara að gera þetta til þess að halda lífsorkunni minni gangandi. Það er svona verkefnið mitt þessa dagana að finna út hvernig ég get gert allt þetta sem mig langar, vera ljósmyndari, leikstýra bíómyndum, skrifa bækur og halda myndlistarsýningar – kannski sameina ég þetta allt í eitt?
Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?
Úr náttúrunni, tísku, list og bókmenntum og fólkinu í kringum mig.
Hvað hvetur þig áfram í listinni?
Tilfinningin við það að vera skapa, ég lifi fyrir þá tilfinningu, hún er mitt „high“. Ég hvet alla til að finna listamanninn í sér, það getur verið skapandi að elda, skreyta heimilið sitt, baka, klæða sig upp, prjóna eða sauma. Jafnvel þvo þvott eða vinna í garðinum sínum, finna stað þar sem maður leyfir sköpunarkraftinum að njóta sín. Ég er stöðugt að minna sjálfa mig á að listin þarf ekki að vera fullkomin til þess að eiga rétt á sér, ég upplifi alveg „imposter syndrome“ og finnst ég oft ekki passa í nein hólf en það er líka ákveðinn styrkleiki svo ég ætla segja að ófullkomleikinn hvetji mig áfram.
Hverju ertu að vinna að núna/hvað er næst?
Ég er að undirbúa sýningu úr varalitum og förðunarvörum ásamt því að skrifa handrit að stuttmynd og ljóðabók.
Viðtalið við Sögu Sig er úr nýjasta tölublaði Eftir vinnu. Skoðaðu blaðið í heild hér.