Hann markaði djúp spor í þróun málaralistar á fyrri hluta 20. aldar og var einn af brautryðjendum nútímalistar. Eftir hann liggja hundruð fjölbreyttra verka sem spönnuðu rúmlega 60 ára starfsferil listamannsins.

Matisse fæddist á gamlársdag árið 1869 í bænum Le Chateau-Cambrésis í Norður-Frakklandi. Hann var rétt orðinn tvítugur þegar hann fór að leggja stund á málaralistina. Matisse fékk litakassa að gjöf frá móður sinni þegar hann var að ná sér eftir erfið veikindi. Þessi litla gjöf varð sem opinberun fyrir hinn unga Matisse og heillaðist hann af mögnuðum heimi litanna sem gáfu honum frelsi til að skapa. Stíll listamannsins einkenndist alla tíð af einstakri litapallettu og var Matisse hylltur sem meistari litanotkunar.

Árið 1891 hélt Matisse til Parísar og skráði sig til náms í Julian akademíunni og naut tilsagnar hjá listmálaranum Gustave Moreau. Á vinnustofu hans ríkti ákveðið frelsi en Moreau hvatti nemendur sína til að þroska sinn eigin persónulega stíl í stað þess að fylgja stífum, akademískum reglum málaralistarinnar. Í stað þess að standa við trönurnar á vinnustofunni þá sendi Moreau lærlinga sína á Louvre-safnið til að líkja eftir verkum gömlu meistaranna. Hjá Moreau fann Matisse það sem hann leitaði að í listsköpun sinni.

Málverkið Samhljómur í rauðu frá 1908.

NÝJAR STEFNUR Í LISTUM

Í byrjun 20. aldar var París mekka listarinnar og ungir listamenn flykktust til borgarinnar í von um að láta ljós sitt skína. Margir þessara ungu listamanna hópuðu sig saman og mynduðu róttæka hópa og hreyfingar sem áttu þátt í að ýta undir framgang og framtíð listarinnar.

Árið 1905 hélt hópur ungra listamanna samsýningu í París. Þessir listamenn urðu þekktir sem Les Fauves eða hinir villtu. Matisse varð þekktasti meðlimur hópsins og þróaði hann með sér einstakan stíl sem átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á listheiminn.

Málarar impressjónismans notuðu ímyndunaraflið og hughrif andartaksins til að fanga augnablikið á strigann. Franski listamaðurinn Paul Cézanne var af sömu kynslóð og meistarar impressjónismans. Cézanne var sannur frumkvöðull og var óhræddur við að fara nýjar leiðir í listsköpun sinni. Með kröftugum pensilstrokum og óhefðbundnu litavali heillaði hann marga listamenn af ungu kynslóðinni þar á meðal Matisse.

Matisse einsetti sér að fylgja náttúrunni í verkum sínum líkt og Cézanne hafði gert. Hann sniðgekk akademískar reglur um myndbyggingu og raunsæi og rannsakaði liti út frá tengslum þeirra innbyrðis. Hann vissi að málverk yrði ekki til úr einangruðum flötum, heldur úr heild litasamspils. Matisse varð þekktur sem meistari litanotkunar.

Matisse málaði verkið Kona með hatt árið 1905. Þetta verk skaut honum upp á stjörnuhimininn.

BIRTAN Í NICE HEILLAÐI MATISSE

Í miðri fyrri heimsstyrjöldinni árið 1916 dvaldi Matisse í borginni Nice í fyrsta sinn. Málarinn heillaðist af mildu Miðjarðarhafs loftslagi og einstakri birtu sem er einkennandi fyrir Provence héraðið. Þar þróaði málarinn með sér frjálslegri, bjartari og afslappaðri stíl. Í verkum hans mátti túlka sálarró listamannsins og óblendna sköpunargleði.

Árið 1918 skrifaði Matisse bréf til vinar síns þar sem hann lýsti borginni þannig: „Það er fallegt í Nice! Birtan er í senn mild og mjúk, en þó skær, hún er silfruð. Hlutirnir sem birtan snertir eru litsterkir, til dæmis þeir grænu…“

Matisse tók ástfóstri við Nice sem varð hans annað heimili frá árinu 1917. Hann dvaldi meðal annars í stórri íbúð á einu glæsilegasta hóteli borgarinnar Regina sem var á Cimiez-hæðinni. Hann átti einnig heimili og vinnustofu í bænum Vance sem er skammt frá Nice og hannaði m.a. kapelluna í bænum sem er afar fögur.

Sjálfsmynd af Matisse frá 1906.

ÁTTI FJÖLDA RÍKRA VELGJÖRÐARMANNA

Gertrude Stein var bandarískur rithöfundur og mikill listunnandi. Íbúð hennar við Rue de Fleurus í París var nokkurs konar listagallerí þess tíma.  Allir framsæknustu menntaog listamenn borgarinnar sóttust í að komast í teiti til frú Stein.

Portrett verkið Kona með hatt sem Matisse málaði af Gertrude Stein árið 1905 fangaði athygli listheimsins. Þarna var Matisse byrjaður að gera tilraunir með kröftuga litapallettu í verkum sínum og grófar penslastrokur. Málverkið olli nokkurri undrun og hneykslan hjá sumum en verkið varð vendipunkturinn í lífi málarans. Þegar hér var komið við sögu var Matisse búinn að laða að sér ríka velgjörðarmenn og aðdáendur sem gerðu honum kleift að ferðast um heiminn. Hann heimsótti Norður-Afríku, Miðausturlönd, Bandaríkin, Rússland og stóran hluta Evrópu. Þessi ferðalög gáfu honum innblástur til enn frekari listsköpunar.

Blá nekt II er ein af frægustu klippimyndum Matisse.

BOÐBERI LÍFSHAMINGJUNNAR

Árið 1941 fór Matisse í erfiða aðgerð vegna krabbameins í maga. Hann náði sér aldrei heilsufarslega eftir aðgerðina en áfram hélt hann ótrauður í listsköpun sinni.  Hann átti erfiðara með að mála á striga en fann sér nýjar leiðir í listinni. Matisse fór að gera klippimyndir eða Paper Collage Art þar sem hann notaðist áfram við sterka litapallettu sem hann málaði á pappír og klippti út svo úr varð heildstætt tvívítt verk. Matisse var alla tíð mjög dugmikill og vann að list sinni löngu eftir að heilsu hans fór að hraka. Það má því með sanni segja að Matisse hafi helgað líf sitt listinni allt til dauðadags en hann lést á heimili sínu í Nice árið 1954, þá 84 ára að aldri. Verk hans skipta hundruðum sem má finna á helstu listasöfnum heims.

Matisse er álitinn einn merkasti listamaður sögunnar og sannur brautryðjandi nútímalistar. Hann sniðgekk hefðbundna menntun í listum líkt en fór þess í stað sínar eigin leiðir. Þrátt fyrir það missti hann aldrei sjónar á háleitu takmarki sínu, að gera djarfar tilraunir í listinni í því skyni að afhjúpa sýnilegan veruleika. Ferill Matisse var í senn þrotlaus og margslungin í leit að þessu takmarki og hafa margir litið á hann sem boðbera lífshamingjunnar í málaralistinni.

Spray of Leaves frá 1953.