“Eiga börn kröfu á foreldra sína að þau segi sannleikann? Að þau elski hvort annað? Að þau séu afinn og amman sem alltaf eru til staðar? Er hægt að gera kröfu um slíkt þegar um helmingur allra hjónabanda í dag enda í skilnaði?”
Óskaland er heitið á 60+ íbúðum fyrir eldri borgara. Í upphafi verksins setjast hjónin Nanna og Villi að matarborði og það er ljóst á samskiptum þeirra og rútínu að þau þekkja hvort annað fullkomlega; þau virðast orðin samlit og samdauna gráleitri íbúðinni sem þau búa í. Það sem gerist næst er ansi harkalegt uppbrot á hversdeginum því Nanna lýsir því að eftir ölla þessi ár vilji hún skilnað. Þar með hefst atburðarrás sem á eftir að afhjúpa þau sjálf, fjölskyldu þeirra og sýna að undir gráleitu yfirborðinu leynast fleiri litir og leyndarmál
Frábærir leikarar
Aðahlutverk verksins eru í höndum Eggerts Þorleifssonar og Sigrúnar Eddu Björnsdóttur. Þau fara bæði á kostum og koma áhorfendum sífellt á óvart eftir því sem persónur þeirra afhjúpast og sýna á sér fleiri hliðar. Villi hefur alið með sér þann draum að verða uppistandari og sýnir Eggert þar frábæra takta sem minntu mann á hversu ótrúlegur gamanleikari hann er. Að sama skapi er Sigrún Edda frábær í hlutverki Villu sem dreymir um að öðlast sjálfstæði og sjálfsvirðingu en mætir mótstöðu hjá bæði sonum sínum og eiginmanni.
Við kynnumst einnig sonum Nönnu og Villa sem heit Benni og Baldur. Þeir mæta á heimilið til að stöðva þennan yfirvofandi skilnað og lagfæra ástandið. Benna leikur Jörundar Ragnarsson – stjórnsamur, taugaóstyrkur og yfirgangssamur. Baldur er Vilhelm Netó – litli bróðirinn, átakafælið meðvirknisbarn. Hann vinnur sem leiklistarkennari en getur þó ekki hugsað sér að einhver fái ekki hlutverk og því eru yfir 200 börn að leika í sýningunni hans og hann sjálfur orðin ein taugahrúga.
Aðrir leikarar stóðu sig einnig vel. Ester Talía Casey sem Júlía, eiginkona Benna, kasólétt og þreytt á því að vera kölluð ,,beibí” í tíma og ótíma. Hún virkaði oft sem rödd skynseminnar í þessari trufluðu fjölskyldumynd. Katla Margrét Þorgeirsdóttur og Fannar Arnarsson áttu stórgóðar innkomur í verkið og var klappað lof í lófa.
Vandræðalegur húmor
Óskalandið er stofudrama. Tilheyrir flokki ,,vel skrifaðra leikrita” sem gerast á afmörkuðum stað og tíma og lýsa tilfinningalegu ferðalagi persónanna. Þessi leikrit virka sem spegill á áhorfendur og fá okkur til að hugsa um okkar eigin líf, sorgir og harm í gegnum söguna á sviðinu. Sú sena sem snerti einna mest við mér var þegar Jörundur gefst upp á þessum skrípaleik og spyr foreldra sína hvort allt líf þeirra hafi í raun verið lygi. Öll jólaboðin, ferðalögin, afmælin? Fyrst þau elskuðu ekki hvort annað til hvers var þá þetta allt saman – og af hverju gátu þau ekki bara skilið eins og venjulegur foreldrar þegar hann var í háskóla?
Verkið fékk mann til að hugsa um hlutverk foreldra og barna. Eiga börn kröfu á foreldra sína að þau segi sannleikann? Að þau elski hvort annað? Að þau séu afinn og amman sem alltaf eru til staðar? Er hægt að gera kröfu um slíkt þegar um helmingur allra hjónabanda í dag enda í skilnaði?
Styrkleiki Óskalandsins er að blanda saman áleitnum spurningum við vandræðalegan húmor. Stundum sökk maður niður í sætið því í þessu uppgjöri kemur í ljós að ýmislegt leynist undir yfirborðinu, fyrrverandi elskhugar, sexting, kynlífshjálpartæki og munnmök í náttúrunni – það voru mörg óborganleg augnablik sem hittu beint í mark hjá salnum en urðu þó ekki ósmekkleg því þau stóðu á föstum grunni í persónusköpun verksins.
Engin venjuleg fjölskylda
Leikstjórinn Hilmir Snær Guðnason er ekki bara frábær leikari heldur hefur hann sýnt það í hlutverki leikstjórans að hann kann að vinna með öðrum leikurum og fá það besta út úr þeim. Það gerir hann hér og ég var sérstaklega hrifinn af vinnu hans með óreyndari leikurum sýningarinnar á borð við Vilhelm og Fannar. Umgjörð verksins, sviðsmynd og tónlist var fagmannleg og aðstandendum sýningarinnar til sóma.
Ef ég ætti að finna uppsetningunni eitthvað til hnjóðs væri það kannski staðfærslan í þýðingu Ingunnar Sædal. Mér fannst bæta litlu við að láta verkið gerast á Íslandi, sumt rímaði ekki alveg nægilega vel við íslenska veruleika. Óskalandið gæti allt eins gerst í einhvers konar staðleysu – hér eru það persónurnar sem skipta mestu máli.
Í meistaraverki Einars Más Guðmundssonar – Englum alheimsins, segir ein persóna að það sé ,,geðveiki í öllum ættum”. Að sama skapi finnst mér óhætt að fullyrða að fæstir á Íslandi tilheyri “venjulegri fjölskyldu”. Við höfum gott af því að spegla okkur í Óskalandinu – velta fyrir okkur ástinni og samskiptum við þá sem standa okkur næst. Ég var líka ánægður með að í lok verksins var von, ekki klisjukenndur boðskapur um að allt endi vel – frekar að ef við trúum á eigin sannfæringu, segjum sannleikann, lifum ekki í lygi – þá er alltaf von. Og eins og segir í laginu þá eigum við að gera allt fyrir ástina.