Engin íþrótt nýtur jafn mikilla vinsælda og fótbolti á heimsvísu. Samhliða síauknum vinsældum íþróttarinnar í gegnum árin hefur fjárhagslegt umfang hennar aukist verulega. Virði auglýsinga- og samstarfssamnings stærstu liða heims við hin ýmsu fyrirtæki fer sífellt hækkandi og leitast félögin ekki síður eftir því að auka tekjur sínar með því að laða áhorfendur hvaðan að úr heiminum á leikvanga sína. Mörg félög hafa því tekið upp á því að ráðast í endurbætur á leikvöngum sínum og önnur gengið skrefinu lengra og byggt nýja leikvanga, til að geta rúmað fleiri áhorfendur á hverjum leik og um leið aukið ánægju þeirra með leikdagsupplifun.

Viðskiptablaðið tók saman nokkur dæmi um fótboltafélög sem hafa ráðist í endurbætur á sínum leikvöngum, byggt nýja leikvanga eða hafa kynnt áform um slíkar framkvæmdir. Þar sem Enska úrvalsdeildin er vinsælasta íþróttadeild heims er einblínt á þróun undanfarinna ára þar. Þó er ómögulegt að horfa fram hjá spænsku risunum Real Madrid og Barcelona, sem hafa bæði ráðist í umfangsmiklar endurbætur á sínum sögufrægu heimavöllum, og fá þeir því einnig að vera hluti af umfjölluninni.

Manchester United

Manchester United svipti nýverið hulunni af metnaðarfullri uppbyggingu nýs heimavallar sem mun rúma 100 þúsund áhorfendur í sæti en núverandi leikvangur, Old Trafford, rúmar rúmlega 74 þúsund manns. Stefnt er að því að nýr leikvangur rísi við Old Trafford en auk byggingar leikvangsins eru ýmsar aðrar framkvæmdir á teikniborðinu á svæðinu þar sem verður hægt að nálgast ýmsa þjónustu. Áætlað er að heildarkostnaður við byggingu nýja vallarins muni nema um tveimur milljörðum punda, eða sem nemur nærri 349 milljörðum króna.

Gamli völlurinn, Old Trafford, sem hefur þjónað félaginu í 115 ár mun víkja svo hægt sé að byggja svæðið upp á nýjan leik. Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe, sem á tæplega þriðjungshlut í félaginu en hefur þrátt fyrir það fullt vald yfir stjórnun þess, hefur látið hafa eftir sér að nýi leikvangurinn verði hvorki meira né minna en sá glæsilegasti í heimi.

Ratcliffe hefur staðið í ströngu frá því hann tók við stjórnartaumunum hjá Manchester United og ráðist í umfangsmikil niðurskurð til að rétta af rekstur félagsins, sem hefur verið rekið með miklu tapi undanfarin ár. Þannig hefur nokkur hundruð manns verið sagt upp störfum hjá félaginu og mötuneytiskostnaður skorinn verulega niður, auk þess að segja upp sendiherrasamningi við Sir Alex Ferguson – mestu goðsögn í sögu félagsins svo fátt eitt sé nefnt. Þá hefur Ratcliffe verið óhræddur við að lýsa því yfir að sumir leikmenn liðsins séu of launaháir og skili um leið of litlu til baka á vellinum.

Nýr heimavöllur Manchester United
Nýr heimavöllur Manchester United

Liverpool

Ráðist hefur verið í töluverðar endurbætur á leikvangi Liverpool, Anfield, undanfarinn áratug. Áður en hafist var handa við endurbætur á vellinum höfðu ýmsar hugmyndir um byggingu nýs leikvangs verið kynntar en að lokum var ákveðið að endurbæta og stækka Anfield í stað þess að byggja nýjan frá grunni. Auk þess hefur svæðið í kringum völlinn fengið nokkra andlitslyftingu. Áður en framkvæmdir hófust rúmaði leikvangurinn um 45 þúsund manns en árið 2016, að loknum fyrsta fasa endurbótanna, fjölgaði sætum um tæplega 10 þúsund. Á síðasta ári lauk svo öðrum fasanum og rúmar leikvangurinn í kjölfarið rúmlega 61 þúsund manns. Talið er að samanlagður kostnaður endurbótanna hafi numið nærri 200 milljónum punda, eða nærri 35 milljörðum króna.

Anfield
Anfield
© epa (epa)

Everton

Everton, annað tveggja liða Ensku úrvalsdeildarinnar sem er með aðsetur í Liverpool borg, mun frá og með næsta tímabili leika heimaleiki sína á nýjum leikvangi, Bramley Moore Dock. Leikvangurinn var vígður nýverið er undir 18 ára lið félagsins mætti jafnöldrum sínum í Wigan. Nýi leikvangurinn tekur alls tæplega 53 þúsund manns í sæti og leysir af hólmi núverandi heimavöll liðsins, Goodison Park. Talið er að framkvæmdakostnaður nýja vallarins hafi numið rúmlega 800 milljónum punda.

Nýr heimavöllur Everton
Nýr heimavöllur Everton
© epa (epa)

Tottenham Hotspur

Norður-Lundúnaliðið flutti sig yfir á nýjan heimavöll árið 2019, hinn glæsilega Tottenham Hotspur Stadium. Völlurinn stendur steinsnar frá gamla leikvangi liðsins, White Hart Lane. Tæplega 63 þúsund manns komast fyrir í sæti á leikvangnum sem gerir hann að þeim þriðja stærsta á Englandi á eftir Old Trafford, heimavelli Manchester United, og þjóðarleikvangnum Wembley. Talið er að heildarkostnaður sem féll til vegna byggingar nýs leikvangs Tottenham hafi numið 1,2-1,5 milljörðum punda.

Heimavöllur Tottenham
Heimavöllur Tottenham

Real Madrid

Spænski risinn Real Madrid er af mörgum talinn stærsta fótboltalið heims og sankar félagið iðulega að sér mörgum af skærustu og bestu fótboltastjörnum hvers tíma. Félagið er langt komið með umfangsmiklar endurbætur á leikvangi sínum, Santiago Bernabéu, sem mun í kjölfarið sóma sér vel sem heimavöllur margra af skærustu stjörnum samtímans. Til marks um umfang endurbótanna er kostnaður þeirra ekki á ósvipuðum slóðum og í metnaðarfullum verkefnum þar sem nýr leikvangur er byggður frá grunni. Enda nemur áætlaður kostnaður endurbótanna um 1,8 milljörðum evra. Áætlað er að rúmlega 80 þúsund manns komist að í sæti á vellinum að endurbótum loknum.

Santiago Bernabeu
Santiago Bernabeu

Barcelona

Hinn spænski risinn Barcelona er ekki síður stórhuga í endurbótum á sínum heimaleikvangi, Nou Camp. Þannig standa nú yfir endurbætur á leikvangnum sem talið er að muni alls kosta félagið rúmlega 1 milljarð evra. Margir klóra sér þó í kollinum yfir því hvernig félagið fari að því að fjármagna slík fjárútlát en eins og hefur vart farið fram hjá fótboltaáhugamönnum hefur félagið staðið brauðfótum fjárhagslega um nokkurra ára skeið. Um tíma óttuðust margir að þetta sögufræga stórveldi yrði hreinlega gjaldþrota en stjórnendum félagsins tókst með hinum ýmsu leiðum að tryggja að svo fór ekki, að minnsta kosti í bili. Hvað sem því líður mun Nou Camp verða enn glæsilegri en áður að framkvæmdum loknum og rúma hvorki fleiri né færri en um 105 þúsund manns í sæti.

Nou Camp
Nou Camp

Umfjöllunin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.