Tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson er með þekktustu söngvurum landsins. Hann hefur verið fyrirferðarmikill á tónlistarsviðinu hér heima í 20 ár. Hann hefur í tvígang verið tilnefndur sem söngvari ársins á íslensku tónlistarverðlaununum auk þess að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision.
Friðrik Ómar hefur einnig gert það mjög gott með eigið félag Rigg viðburði sem hann hefur byggt upp án yfirbyggingar eins og hann lýsir hér í viðtali. ,,Mamma söng mig í svefn á hverju kvöldi og hún stendur föst á því að ég hafi byrjað að syngja áður en ég fór að tala. Ég hlustaði mikið á tónlist sem barn svo hún hefur verið stór partur af mínu lífi alla tíð. Mamma vill þó meina að ég hafi meira og minna grenjað allt fyrsta árið mitt og hafi sett met í öskrum þegar ég var skírður í Bakkakirkju í Öxnadal í apríl 1982. Það var haft eftir Helga bónda á Bægisá að þessi drengur yrði mikill söngmaður. Eftir að við fluttum til Akureyrar kolféll ég fyrir trommum þegar ég var 5 ára en Halli bróðir sem er 15 árum eldri en ég bjó þá heima með æfingasett í herberginu sínu,“ segir Friðrik Ómar þegar hann rifjar upp hvenær hann byrjaði í tónlistinni.
Eins og Phil Collins
Dalvíkur Það var svo ekki fyrr en á unglingsárum, þá búsettur á Dalvík, sem hann fór að syngja af einhverju viti en hann var líka alltaf trommandi að eigin sögn. ,,Ég var svona Phil Collins Dalvíkur. Ég var á fullu í Leikfélagi Dalvíkur frá unglingsárum og til rúmlega tvítugs. Þá braust út í mér þessi áhugi fyrir uppsetningu á sýningum og ég stofnaði leikhóp með nokkrum vinum. Síðan færðist ég út í tónleikahald og hélt mína fyrstu jólatónleika 1997, aðeins 16 ára gamall, á Café Menningu á Dalvík sem hét áður Sæluhúsið. Þá fór nú söngferillinn af stað af einhverju viti.
Ég keypti mín fyrstu upptökutæki aðeins 15 ára og notaðist við hljómborð sem ég fékk frá mömmu og pabba í fermingargjöf til að leika undir. Upp frá því fór ég að semja lög og var búin að gera tvær plötur 18 ára. Ég kenndi síðan tónmennt við Dalvíkurskóla í einn vetur þar sem ég kenndi meðal annars Eyþóri Inga á blokkflautu. Ég var starfandi í útvarpi á Akureyri til ársins 2003 en þá tók ég mig til um sumarið og flutti til Reykjavíkur. Ég hafði sungið með Guðrúnu Gunnarsdóttur þetta sumar fyrir norðan en hún var að fylgja eftir plötunni sinni „Óður til Ellýjar” og vantaði gestasöngvara á Akureyri. Við áttum síðan eftir að gera þrjár plötur saman sem nutu mikillar velgengni og koma fram víðsvegar um land næstu árin. Sumarið sem ég kom suður fór ég í prufur fyrir sýningu á Broadway við Ármúla þar sem Motown tónlistin var flutt af hópi fólks ásamt hljómsveitinni Jagúar. Ég söng mig inn í sjóvið en ég var síðan meira og minna á Broadway til ársins 2008, meðal annars í sýningu með Björgvini Halldórs sem var mikil upplifun fyrir mig. Þá sigruðum við Regína í Söngvakeppni Sjónvarpssins og This Is My Life varð til,“ segir Friðrik Ómar en hann og Regína Ósk náðu mjög góðum árangri í Eurovision keppninni með því lagi. Þau urðu fyrst Íslendinga til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004.
Fiskidagstónleikarnir frá Dalvík í Hörpu
Spurður um eftirminnilegustu atvikin á ferlinum svarar Friðrik Ómar:
,,Það er erfitt að velja eitthvað eitt en Fiskidagstónleikarnir á Dalvík eiga sérstakan stað í mér. Það að standa á sviði á æskuslóðunum með 35 þúsund manns fyrir framan sig, haldandi utan um framleiðslu sem á sér í raun vart hliðstæðu hér á landi, var magnað. Það er eftirsjá eftir Fiskideginum mikla en ég ákvað að halda tónleikunum áfram og setja þá upp í Eldborg í Hörpu í febrúar nk. Það er mikilvægt að kynslóðir Dalvíkinga hafi vettvang til að hittast og gleðjast líkt og þeir hafa gert á Fiskideginum í gegnum árin.“
Spurður um helstu skandala svarar hann brosandi: ,,Það er einfaldlega hvað ég hef gefið mér of lítinn tíma í að hljóðrita og þróa mitt eigið efni. Ég á helling í skúffunni. Það er hins vegar þannig að til þess að gera það þarf maður að gefa sér rými og tíma í það og í fyrsta sinn á ævinni finnst mér það vera komið eftir að ég flutti úr borginni í Borgarfjörðinn.“
Hagnaðist en setti alltaf peninginn aftur í næsta verkefni
Friðrik Ómar segir að við opnun Hörpu og Hofs hafi hann hreinlega verið réttur maður á réttum tíma og stað. ,,Ég hélt mína fyrstu stóru tónleika árið 2011 í Hörpu sem báru heitið „Heiðurstónleikar Freddie Mercury“. Ég setti allt spariféð mitt í auglýsingar og beið síðan með utanáliggjandi taugakerfi heima í von um góðar viðtökur. Þegar miðasalan hófst var röð út úr dyrum. Það rokseldist á sjóvið og það gekk fyrir fullu húsi í mörg ár bæði í Reykjavík og á Akureyri. Það byggði upp félagið mitt Rigg viðburði. Ég fór síðan að kalla tónleikana mína og framleiðslu „tónleikasýningar“ þar sem ég var ekki á því að þetta væru hefbundir tónleikar. Ég framleiddi nokkur sjóv í kjölfarið á Freddie meðal annars Bat out of hell, Bestu lög Vilhjálms Vilhjálmssonar, Tina-drottning rokksins, U2, ACDC, George Michael, Elvis, Saga Eurovision og síðar verkefni með Friðriki Dór, Páli Óskari, Diddú og fleirum. Ég hagnaðist á þessu flestu en setti alltaf peninginn aftur í næsta verkefni og auðvitað steypu.
Ég hef tekið það rólega eftir Covid en finn fyrir því að allt hefur hækkað mikið. Leiga á húsum, búnaði, miðasöluþóknanir, auglýsingar, ferðir og annar kostnaður gera það að verkum að það er nær ótækt að gera sjóv af þessari strærðargráðu í húsunum í dag. Ég hef því valið slagina vel undanfarið og fylgt hjartanu. Sjóvin mín voru alltaf stór í framkvæmd þegar kom að búnaði og mannskap því ég rak félagið mitt með enga yfirbyggingu og hef aldrei gert. Þannig að náði ég að setja meiri pening í framleiðsluna og vera sterkur á markaðnum. Öll reynsla mín af fikti í græjum og dóti frá unglingsárunum reyndist líka dýrmæt. Ég klippti grafík og vídeó að mestu leyti sjálfur og vann mikið af hljóði einnig. Með allt þetta í bakpokanum nær maður meiri yfirsýn og getur notað það við að setja upp betri viðburði og stækkað listafólkið enn frekar á sviði. Þá er vert að minnast á systurson minn Hauk Henriksen sem hefur verið mér við hlið í nær 20 ár. Hann er orðinn mjög reynslumikill og frábær í sínu fagi.”
Jólin með Vitringunum 3
Samhliða öllum þessum viðburðum og þónokkrum plötuútgáfum byrjaði Friðrik Ómar með jólatónleikana sína „Heima um jólin“ árið 2015. ,,Ég ákvað að setja punktinn eftir frábæra törn í fyrra þar sem yfir 10 þúsund gestir sóttu tónleikana mína í Hörpu og Hofi. Það er góð tilfinning að hafa dregið línuna á réttum tíma. Ég gerði það þó með nýtt verkefni í huga sem tæki við sem hefur verið í undirbúningi í tvö ár.“
Þetta verkefni sem Friðrik Ómar vísar í er Vitringarnir 3 en þar kemur hann fram með söngvurunum þekktu Jógvan Hansen og Eyþóri Inga Gunnlaugssyni. ,,Samstarf mitt við Jógvan Hansen hefur verið mikið frá árinu 2007 og svo hef ég þekkt Eyþór Inga frá því að ég kenndi honum tónmennt og auðvitað starfað með honum í hinum og þessum verkefnum. Þegar allir voru komnir um borð gerðist þetta hratt og vel og Vitringarnir 3 urðu til á einni mynd hjá Gassa ljósmyndara. Hún er ekki samsett og ekki nokkur tilgerð í henni. Í aðdraganda verkefnisins ákváðum við að kynna það með leikþáttum sem við skrifuðum, festum á filmu og settum á samfélagsmiðla. Þar erum við ýktar útgáfur af okkur sjálfum og ekki feimnir við að nýta kosti okkar og galla. Við finnum til mikillar ábyrgðar og ætlum að gera þetta verkefni vel. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta verður ekki endalaust svo við ætlum líka að hafa ógurlega gaman meðan á þessu öllu stendur. Sem fyrr er engin yfirbygging í framleiðslunni. Við höfum græjur og öll tól til að gera þetta að mestu sjálfir en svo má ekki gleyma því frábæra fólki sem verður með okkur á sviðinu og bakviðs. Þetta er frábær mannskapur og aðstæður eins og þær gerast bestar hér á landi,“ segir hann.
Aðsóknarmet í Hofi
Vitringarnir 3 settu á dögunum nýtt aðsóknarmet í Hofi en þar verða þeir með 7 sýningar á einni helgi 5.-8. desember. Uppselt er á allar sýningarnar fyrir norðan. Fyrra metið átti tónleikaröðin hans Friðriks Heima um jólin með 6 sýningar á einni helgi. Alls verða Vitringarnir 3 með 25 sýningar í allt og Friðrik Ómar segir að þeir séu vel undirbúnir fyrir törnina. ,,Við tókum þá ákvörðun að gera ekkert annað þetta tímabil. Við þurfum á allri okkar orku að halda og setjum heilsuna í fyrsta sæti. Við ætlum ekki að sofna ofan í steikina á aðfangadag. Við klárum törnina 22. desember og ég ætla að hendast norður með flugi á Þorláksmessu og vera þar yfir jóladagana. Ég verð með foreldrum mínum á aðfangadagskvöld og það verður hefðbundinn jólamatur á boðstólunum, hamborgarhryggur og jólasalatið hennar mömmu. Svo verða heimsóknir til vina og ættingja sem er alltaf skemmtilegt. Ég verð síðan erlendis yfir áramót og út janúar.
Ég ætla að skella mér til Miami í Flórída og vera hjá vinkonu minni. Það verður gott að slaka aðeins á en vera samt í rútínu. Ég er ekki fyrir það að liggja á einhverjum sólbekk í 4 vikur. Síðan þegar heim er komið á nýju ári tekur við næsta törn sem eru Fiskidagstónleikarnir í Eldborg. Tónleikarnir eiga sér fjölda áðdáenda og það er að seljast upp á þá. Sjóvið verður að halda áfram þó að Fiskidagurinn sé allur,“ segir Friðrik Ómar að lokum.
Viðtalið við Friðrik Ómar er úr Jólagjafahandbók Eftir vinnu.
Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið blaðið í heild hér.