Golfguðirnir litu með velþóknun til Reykjanessins þetta vorið eins og svo oft áður. Leiran og Kirkjubólsvöllur á Suðurnesjum koma frábærlega undan vetri og það sama má segja um völlinn í Grindavík.

Enda hafa þessir vellir verið þéttskipaðir í vor og í sumarbyrjun. Sérstaklega um helgar og á frídögum í apríl. Leiran á Garðskaga og Húsatóftavöllur í Grindavík opnuðu sumargrínin í byrjun apríl en sérstaða vallarins í Sandgerði er að þar er leikið á sumargrínum allan ársins hring rétt eins og í Þorlákshöfn.

Sem fyrr segir er skiljanlegt að höfuðborgarbúar flykkist suður með sjó til að leika golf þessi dægrin. Sá sem þetta skrifar hefur bæði leikið Leiruna og Húsatóftavöll að undanförnu og eru báðir vellir í frábæru ásigkomulagi þó að skammt sé liðið af sumri – raunar hefur Leiran sjaldan verið betri á þessum árstíma þó svo að hún sé sá golfvöllur hér á landi sem er hvað fljótastur að komast í sumarham.

Griðarstaður í rástímastríðinu

Það er yfirleitt þannig að traffíkin er mikil á golfvöllunum á Reykjanesi á vorin og byrjun sumars en svo fækkar heimsóknum höfuðborgarbúa þegar golfvellirnir á Stór-Reykjavíkursvæðinu fara að opna. Sá tími er einmitt að ganga í garð og opnuðu nokkrir vellir, til að mynda vellir Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, um helgina. En það er einmitt þá sem hið harða stríð um rástímaskráningu hefst á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri orrustu er einmitt ágætt að hafa bakvið eyrað að fjölda fyrirtaks golfvalla er að finna nálægt höfuðborgarsvæðinu og þeir eru einungis í hálftíma til klukkustundar akstursfjarlægð frá borginni.

Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golflúbbs Grindavíkur, lýsir þessu ágætlega. Í viðtali við Víkurfréttir, sem er fréttamiðill Suðurnesjamanna, fyrir nokkru segir hann: „Það er stundum eins og fólk af höfuðborgarsvæðinu telji að það taki meiri tíma að keyra þaðan til Grindavíkur, en fyrir okkur Grindvíkinga að keyra til höfuðborgarsvæðisins. Eftir því hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu, tekur ekki nema 30-45 mínútur að keyra suður og ég veit með mig persónulega, að ég myndi miklu frekar vilja geta komist á teig nánast þegar mér sýnist, í stað þess að vera mættur fyrir framan tölvuskjáinn þremur sólarhringum fyrir áætlan teigtíma. Það er frábært að geta vaknað einn morguninn, finna hve veðrið er gott og ákveða að skella sér í golf seinnipartinn.”

Kjarakaup kylfinga

Hægt er að taka undir þetta með Helga og jafnframt vekja athygli á þeirri staðreynd að í sumum tilfellum tekur lengri tíma að leika 18 holur á höfuðborgarsvæðinu en suður með sjó jafnvel þegar tekið er tillit til þess tíma sem fer í akstur frá og til borgarinnar. Allir klúbbarnir suður með sjó eru með svokallaða aukaklúbbsaðildargjöld og bjóða jafnframt upp á fjaraðild. Aukaklúbbsgjaldið í Golfklúbbi Suðurnesja er tæplega 33 þúsund krónur og fjaraðildin kostar um 43 þúsund. Aukaklúbbsaðildin í Sandgerði kostar 47 þúsund krónur.

Full aðild að Golfklúbbi Grindavíkur kostar einungis 44.900 krónur og er það væntanlega eitt lægsta ársgjald golfklúbba á Íslandi. Gjöf en ekki gjald fyrir aðild að klúbbi sem státar jafn skemmtilegum velli og Húsatóftarvöllur sannarlega er. Eins og fram kemur í áðurnefndu viðtali Víkurfrétta við framkvæmdastjóra klúbbsins þá brugðu GG menn á það ráð að lækka ársgjaldið verulega til að bregðast við fækkun klúbbfélaga í kjölfar hamfaranna vegna Reykjaneselda. Helgi segir í viðtalinu þetta hafa gefist vel og að kylfingar hafi flykkst í klúbbinn í kjölfarið.

Þetta þýðir með öðrum orðum að sæmilega virkir kylfingar eiga auðvelt með að leika nægilega mikið golf suður með sjó til þess að ná uppi í kostnaðinn af auka- eða fjaraðild að þessum þremur golfklúbbum. Sérstaklega þeir sem tilheyra golfklúbbi á höfuðborgarsvæðinu sem á ekki í sérstöku vinfengi við klúbbana á Reykjanesinu.

Krúnudjásn Suðurnesja

Það er auðvitað fleira en golfvellirnir sem ættu að draga höfuðborgarbúa suður með sjó. Ferð til Suðurnesja er alltaf góð hugmynd. Að loknum hring er tilvalið að fá sér í gogginn. Golfklúbbur Suðurnesja hefur blessunarlega loksins aukið metnað í veitingasöluna eftir tíðindaleysi í þeim efnum undanfarin ár og þá er að finna fjölda góðra veitingastaða í Keflavík. Má þar nefna Library Bistro á Radison hótelinu, Kef Resturant í Versace-flísaveröldinni á Hótel Keflavík, Anton’s Mama Mia, Duus-kaffihúsið við smábátahöfnina að ógleymdum Villaborgaranum á Pulsuvagninum í Keflavík sem flestir geta verið sammála um að er krúnudjásn hins merka framlags Suðurnesjamanna til matarmenningu Norður-Evrópu.

Mynd úr einkasafni.
Mynd úr einkasafni.

Þó að Kastljósinu sé beint að Reykjanesinu í þessum pistli er rétt að minna lesendur á að ofangreint á einnig við um aðra framúrskarandi golfvelli sem eru steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu eins og vellina á Akranesi og í Þorlákshöfn. Að ógleymdum Kálfatjarnarvelli á Vatnsleysuströnd. Þó svo að hann sé vissulega á Reykjanesi var ekki minnst á hann fyrr í greininni þar sem hann er stundum holóttur fram eftir vori. En þegar komið er í júní eru vandfundnari fallegri staðir til að leika golf í kvöldsólinni með Snæfellsjökulinn í bakgrunni.