Þeir sem hafa unnið í leikhúsi vita að þar takast á stórir persónuleikar – stór egó. Leikstjórar með sínar eigin aðferðir og sýn á listina. Leikskáld sem ríghalda í handritið sitt og banna leikurum og leikstjórum að breyta einu orði. Og svo leikarar sem fá það hlutverk að standa á vígvellinum – löngu eftir að leikstjórinn og leikskáldið hafa snúið sér að næsta verki.

Í Þjóðleikhúsinu þessa dagana stendur yfir áhugaverð tilraun þar sem leikararnir fá draum uppfylltan (ef marka má viðtöl við þá í aðdraganda sýningar) – að sleppa við þessa leiðinda leikstjóra og leikskáld og gera þetta bara sjálf. Eflaust eitthvað sem leikararnir hafa margsinnis hvíslað sín á milli í pásum og búningaherbergjum – við gætum gert þetta miklu betur.

Screen Shot 2024-10-22 at 11.29.39
Screen Shot 2024-10-22 at 11.29.39

Útkoman er farsi um íslenskt efristéttarfólk sem eyðir sumarfríinu sínu í að elta veðrið á risavöxnum hjólhýsum. Nú er sólin farin að skína en sviplegt fráfall Dóru, fyrrum eiginkonu Hjálmars, sem var ,,límið í vinahópnum“ og lést í fjallgöngu við sama tjaldstæði sumarið árið áður er enn óuppgert og hópurinn leitar að einhverskonar ,,uppgjöri“.

Þunn persónusköpun

Eltum veðrið er farsi af gamla skólanum þar sem allt gengur út á misskilning. Brandararnir eru óheflaðir; Siggi Sigurjóns hrærir í kaffibollum með dildó, fjöldi kúka og piss brandara hleypur líklega á tugum og fólki virðist mikið í mun að rífa sig úr fötunum. Brandarnir eru ekki allir jafn góðir. Tveir menn enda naktir saman í sturtu og fá báðir standpínu – af því samkynhneigð er…. Svona brandarar tilheyra öðrum áratug og eru best geymdir þar.

Maður fær litlar sem engar upplýsingar um bakgrunn eða tengsl fólks í leikritinu. Við hvað vinnur þetta fólk? Hvar kynntist það? Af hverju eru þau Ragnar og Andri (Hallgrímur og Eygló) og Guðrún og Stefán (Gói og Ilmur) vinir – jafn ólík sem þau eru? Þegar maður sem áhorfandi hefur svona lítið til að byggja á reynist manni sífellt erfiðara að trúa á að þessi ólíku vinahjón tilheyri einhverskonar hjólhýsakölti þar sem allt snýst um þemaklæðnað og grafin læri.

Svo koma til sögunnar Hjálmar og Svandís (Hilmar og Hildur Vala) en Hjálmar kynntist Svandísi á hugleiðslunámskeiði í útlöndum þegar hann var að jafna sig á dauða eiginkonunnar – Dóru. Grínið er að Svandís rakar sig ekki undir höndunum, drekkur cacao (ekki kakó skilurðu) og sefur í kúlutjaldi.

Eltingarleikur við öskuna

En hvað með fléttuna? Söguþráðinn? Verkið gengur í raun út á einn langan brandara um öskuna af Dóru sem Guðrún nappaði af heimili Hjálmars til að halda minningarathöfn um Dóru á tjaldsvæðinu. Síðan er sami brandarinn endurtekinn aftur og aftur. Stefán fær öskuna yfir sig, henni er dreift í drykki, ryksugað, blandað í kryddkrukku og svo framvegis. Í lok verksins er brandarinn endurtekinn enn einu sinni og nú með tilvísun í hina frábæru mynd The Big Lebowski. Ef þú heldur að góð vísa sé aldrei of oft kveðin hefurðu rangt fyrir þér.

Eftir hlé verður sagan aðeins ótrúverðugri og langsóttari því það er engin persónusköpun til að byggja á. Reynt er að troða boðskap inn í leikritið um að veðrið skipti ekki höfuðmáli heldur að rækta vinskapinn og samband við sína
nánustu – en þegar önnur kvenpersóna hrapar til dauða á tjaldsvæðinu virðist öllum nákvæmlega sama. Kvenfyrirlitning er líka í anda grínmynda áttunda og níunda áratugarins sem leikritið dregur innblástur sinn frá.

Partý í Þjóðleikhúsinu

Í raun er það ótrúlega spennandi tilraun að gefa leikurum í Þjóðleikhúsi heilt svið til að gera það sem þeir vilja. En ég er frekar hissa yfir því að þetta sé útkoman. Það var fólk sem barðist fyrir því að Ísland fengi Þjóðleikhús og að leiklistin þróaðist frá kabarettum og söngleikjum Iðnó tímans yfir í alvarlegri leiklist í þessu magnaða húsi – Þjóðleikhúsi. Að vera leikari í Þjóðleikhúsinu þýðir að þú ert einn af fremstu listamönnum þjóðarinnar og þátttakandi í því að móta eitthvað sem við
getum kallað þjóðarvitund.

Núna er hins vegar partý í Þjóðleikhúsinu – krapvélar í kristalssalnum og allir í góðu stuði. Og þrátt fyrir að hægt sé að gagnrýna Eltum veðrið fyrir ýmislegt – smekkleysi, lélega persónusköpun, þunnan söguþráð - þá er ekki hægt að segja að verkið sé ófyndið. Og ekki heldur að áhorfendur hafi skemmt sér illa. Þá væri ég að ljúga. Ég er meira að segja nokkuð viss að það eigi eftir að slá í gegn – sama hvað gagnrýnendum finnst.

Það leiddist allavega engum þetta kvöld í Þjóðleikhúsinu og stemningin í samsöngnum í lokin var slík að það minnti mann á samkomur hjá sértrúarsöfnuði. Kannski er þessi sýning vígsla hins nýja Þjóðleikhúss – hvort allir séu jafn tilbúnir í djammið verður svo að koma í ljós.

Vonandi skila þeir tveir leikstjórar (Gísli Örn Garðarsson og Unnur Ösp Stefánsdóttir) sem fá tækifæri í vetur á stóra sviði Þjóðleikhússins betri sýningum til okkar áhorfenda. Við eigum meira skilið af Þjóðleikhúsinu en þetta.