Georg Óskar Giannakoudakis er listamaður frá Akureyri sem býr og starfar í Osló, Noregi. Georg Óskar er fígúratífur expressjónisti og hann segir verk sín vera sjónrænar dagbækur sem endurspegla persónulegar athuganir og hugleiðingar um hversdagslegt líf. Georg Óskar starfar með JD Malat Gallery í London, Tveimur Hröfnum Listhúsi og Gallery Port í Reykjavík.
Hvenær byrjaðirðu að búa til myndlist og hvernig kom það til að þú fórst að mála?
Ég tel mig hafa verið mjög hugmyndaríkt barn. Fannst gaman að öllu sem var handavinna. Það var engin sérstök pæling að maður væri að gera myndlist á þessum yngri árum, þetta var einfaldlega bara skemmtilegt. Ég var unglingur í Verkmenntaskólanum á Akureyri þegar ég fór á myndlistabraut og þessi vakning tengd myndlist varð til.
En þér að segja, og öllum þeim sem lesa Viðskiptablaðið, þá valdi ég myndlistabraut því það var minnst af stærðfræði á þeirri braut og það að teikna hljómaði vel fyrir mér. En ég vissi ekkert hvað ég vildi á þessum árum. Eins klisjukennt og það hljómar þá var ég í áfanga í frjálsri málun – strigi, penslar og málning. Ég gerði einhverja neon mynd af hafinu og það small eitthvað í hausnum á mér. Hef málað síðan, hef líklegast verið 18 eða 19 ára gamall.
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
Þeir eru alveg nokkrir. Kjarval hefur alltaf verið minn maður og það stendur enn. Eggert Pétursson er nú alveg sér á báti líka þegar kemur að málverkinu á Íslandi og út fyrir; hann kann svo sannarlega að mála. Óli G og Hulda Vilhjálmsdóttir, Jón Óskar er náttúrlega frábær listamaður og manneskja. Vinur minn Margeir Dire heitinn, get ekki sleppt honum, hann var svo mikill lífskúnstner og yndislegur. Snorri Ásmundsson, prakkari íslensku senunnar og pönkari með meiru, Sigtryggur Berg er stórskemmtilegur líka. Ég hef alltaf verið með blæti fyrir verkunum hans Steingríms Eyfjörðs, þau eru mjög góð og fyndin. Jón Laxdal var mikill spekingur og gerði mjög skemmtileg verk. Eina málverkið sem er uppi á vegg hér heima hjá mér er eftir Þorvald Jónsson, ég hef lengi haldið uppá hann líka, ég gæti haldið lengi áfram, Hallgrímur Árnason er ansi ferskur líka. Frá Íslandi og út nefni ég nokkra. Basquiat, Anselm Keifer, Andre Butzer, Francis Bacon og Rita Ackermann.
Hvaðan ertu helst að fá innblástur þessa dagana?
Ég sæki innblástur í það sem er mér næst, fjölskylduna mína, vini, mannlífið og allar þær skrýtnu tilfinningar og hugsanir sem maður burðast með gegnum lífið. Hversdagsleikinn hefur alltaf verið mér hugleikinn því hann kemur til mín en náttúrulega er aðal trikkið að taka eftir honum og gera það venjulega áhugavert. Skammdegið er gott dæmi, það eru fáir sem spá í því eitthvað sérstaklega, það er bara þarna, þungt og til vandræða.
Hvað hvetur þig áfram í listinni?
Myndlist hefur þjónað mér sem þerapisti gegnum árin, líklegast ódýrasti og besti sálfræðingur sem ég hef hitt. Ég mæti til sála í vinnustofunni reglulega og það er séð um mína andlegu hlið þannig. Hvatning mín er einfaldlega að fá að vera í lagi og líka að fá að vera bilaður inná milli. Tónlist, myndlist, ritlist, hestamennska eða hvað sem fólk tekur sér fyrir hendur af ástríðu, brúar bilið milli þessara tveggja heima. Þar ríkir ákveðinn friður og næmni sem er gríðarlega ávanabindandi, líklega skásta fíknin af þeim öllum.
Hverju ertu að vinna að núna/hvað er næst?
Þessa dagana er ég að vinna málverk fyrir Richard Koh Fine Art sem er í Austur-Asíu með aðsetur í Kuala Lumpur, ég sýndi hjá honum í KL árið 2019. Richard er líka með gallerí í Bangkok og Singapore. Ég er að vinna nokkur verk fyrir listamessuna ART SG sem ég tek þátt í á vegum Richard Koh Fine Art í Singapore í janúar 2025 og sýni í framhaldi hjá honum í galleríinu hans í Singapore í júlí 2025. Núna 28. september er ég að opna sýninguna „Það er ekkert grín að vera ég“ á Listasafni Akureyrar, sem á minn hug allan þessa dagana. Enda minn heimabær og það er alltaf gott að koma heim til fjölskyldu og vina.
Ofan á myndlistina er ég að fara gefa út mína fyrstu 8 laga plötu með verkefninu mínu Geimverur. Textarnir fara í kringum íslenska jaðarmenningu, pólítík og alls konar önnur vandræði, og kemur hún út í október. Annars hef ég verið býsna virkur í tónlist samhliða myndlistinni.