Umsvifamesta erlenda félagið í íslensku kauphöllinni nú um stundir er að líkindum Capital Group, eitt stærsta eignarstýringarfyrirtæki í heimi. Félagið er bæði meðal stærstu hlutahafa í Íslandsbanka og Marel. Capital Group fór með tæplega 4% hlut í Marel um áramótin og á ríflega 5% hlut í Íslandsbanka. Samtals má áætla að markaðsvirði eignarhlutar Capital Group í félögunum tveimur nemi um tuttugu milljörðum króna. Capital Group var meðal hornsteinsfjárfesta þegar Íslandsbanki fór á markað síðasta sumar, og átti eftir útboðið 3,85% hlut í honum, en er í dag komið upp í 5% í bankanum eins og áður sagði.
Capital Group hefur á sama tímabili selt öll bréf sín í fjölda þekktra evrópskra banka á borð við Barclays, Deutsche Bank, Société Générale og Santander fyrir alls um átta milljarða evra. Hinn erlendi hornsteinsfjárfestirinn í Íslandsbanka, RWC Asset Management, keypti upphaflega 1,54% hlut en hefur lækkað hlut sinn lítillega sem er nú um þriggja milljarða króna virði.
Meðal annarra erlendra fjárfesta í kauphöllinni er vogunarsjóðurinn Taconic sem keypti 5% hlut í Skel fjárfestingafélagi, áður Skeljungi, í byrjun ársins. Taconic kom einnig að fjármögnun kaupa fjárfrestingafélasins Strengs á meirihluta í Skeljungi í ársbyrjun 2021. Taconic var um tíma stærsti hluthafinn í Arion banka með um fjórðungshlut en seldi allan hlut sinn í bankanum snemma á síðasta ári. Erlendir einkafjárfestar eru heldur lítt áberandi í íslensku kauphöllinni. Þó má nefna að félag Jonathans Rubini, ríkasta manns Alaska, fer með um 7% hlut í fasteignafélaginu Kaldalóni en Rubini á einnig stóran hlut í Kea hótelum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.