Óðinn hlustaði á Þjóðmálaþátt Gísla Freys Valdórssonar, sem einnig stýrir viðskiptakálfi Morgunblaðsins, við Bjarna Benediktsson. Þátturinn var settur í loftið fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan, nánar tiltekið 7. september 2021. Rúmum tveimur vikum fyrir alþingiskosningarnar síðustu.
Þátturinn var ágætur. Raunar mjög góður. Bjarni var afslappaður og svaraði af yfirvegun en á sama tíma af festu. Gísli spurði allra þeirra spurninga sem rétt var að spyrja þá. Óðinn hafði yfir litlu að kvarta hvað varðar svörin.
Ein spurninganna var grundvallarspurning. „Um hvað snúast þessar kosningar eiginlega?“
Ef það spilast þannig úr þessu að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í ríkisstjórn, þá er það í mínum huga alveg ljóst að það verða vinstri áherslu hér eftir kosningar og töluvert mikil stefnubreyting sem því fylgi.
Þetta var haustið 2021. Og allt kjörtímabilið höfðu þeir sem hafa takmarkaða trú á ríkisafskiptum heyrt um þessa miklu ógn. Vinstristjórn. Og sögur af vinstristjórninni sem var við völd 2009-2013.
Það er skelfileg hugsun. En gleymum því ekki að flest af því sem hún ætlaði sér mistókst. Eyðilegging stjórnarskrárinnar. Eyðilegging sjávarútvegsins. Eyðilegging Íslands sem fullvalda ríkis – með inngöngu í Evrópusambandið.
Vinstristjórn Jóhönnu og Steingríms tókst þó eitt. Að gera Ísland að háskattalandi með 100 skattbreytingum. Það er afrek – jafnvel þó vinstristjórn hafi átt í hlut.
Það er hins vegar sorglegt að tæpum 10 árum eftir að vinstristjórnin gaf upp öndina er stór hluti þessarar skattbreytinga enn í gildi. Og það þrátt fyrir að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi sest í stól fjármálaráðherra og setið þar öll árin að undanskildum 11 mánuðum.
Þótt einhver gjöld hafi lækkað, aðallega innflutningsgjöld, þá er skattbyrði á Íslandi sú næst hæsta innan allra 38 ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þetta er þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.
***
Verðbólgufjárlög
Árin 2020-2022 var ríkið rekið með 443 milljarða halla - ef fjárlög 2022 standast. Þetta er auðvitað einhver mesta peningaprentun sem nokkur ríkisstjórn á Íslandi hefur ráðist í. Á þessari prentun voru hins vegar skýringar. Kannski ekki góðar. Jafnvel slæmar. En skýringar þó. Hins vegar var hætta á verðbólgu. Og verðbólgudraugurinn kom af miklu afli.
Svo komu fjárlög 2023 og ríkisstjórnin vildi ekki viðurkenna vandann. Hún tók þá ákvörðun að henda enn meiri peningum á verðbólgubálið. Þetta hefur Óðinn kurteislega gagnrýnt ítrekað.
En ríkisstjórnin sá svo skyndilega að sér. Ráðherrarnir áttuðu sig á því málflutningur þeirra minnti helst á keisarann sem var nakinn. Þeir breyttu um tón. Um svipað leyti og leikskólabörnin áttuðu sig á vandanum. En betra er jú seint en aldrei.
***
Fjármálaáætlunin
Óðinn beið í mikilli eftirvæntingu eftir fjármálaáætluninni sem var birt í lok mars. Hún sannaði hins vegar aðeins það að ríkisstjórnin er framúrskarandi í einu. Að eyða peningum annarra.
Hún er hins vegar vanhæf til að takast á við þá verðbólgu sem logar í samfélaginu og gæti því miður orðið mun þrálátari en nokkuð okkar grunar - og vonar.
***
Mikið afrek og mótbárur Vídalín
Helsta afrekið í fjármálaætluninni er að ætla að spara 2 milljarða á ári með sameiginlegum vinnurýmum. Tvo milljarða. Hvað gerir það? Ekkert. Nákvæmlega ekkert þegar hallinn er 120 milljarðar. Fyrir utan að þessum tveimur milljörðum er kastað fram án nokkurs útreiknings.
Líklegasta skýringin á þessu tali er að pr-mönnum ríkisstjórnarinnar, sem eru óteljandi, þótti vanta eitthvað í áætlunina þar sem örlaði í von um lækkun ríkisútgjalda og smávægilegu framlagi ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu.
Ríkisstarfsmenn eru farnir að mótmæla sameiginlegum vinnurýmum. Arngrímur Vídalín Stefánsson, lektor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands, ræddi við mbl.is þann 16 mars.
Þar sagði Vídalín að verkföll kæmu til greina – en Vídalín er líklega eini maðurinn í veraldarsögunni sem flettir upp í öllum bókunum í öllum átta bókaskápunum sínum - daglega.
Ég held að þetta sé ákveðin skammsýni vegna þess að við erum ekki bara kennarar við erum rannsakendur. Ég er sjálfur með átta bókaskápa á minni skrifstofu og ég nota allar þessar bækur við mínar rannsóknir á hverjum einasta degi.
Hvers vegna að hafa áhyggjur af stríði í Úkraínu, hlýnun jarðar, ríkisútgjöldum, læsi ungra drengja eða verðbólgu? Vídalín gæti nefnilega farið í verkfall og íslenskar bókmenntir fyrri alda gætu setið órannsakaðar í nokkrar vikur. Á meðan áttar lektorinn sig á því að hugsanlega sé samningstaðan ekki eins sterk og hann hélt. Mögulega um það bil akkúrat engin.
***
Glæsihýsi ríkisins
Á sama tíma og Bjarni Ben ætlar að setja Vídalín í sameiginlega skrifstofu hefur utanríkisráðuneytið fest kaup á dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi.
En höldum í hestana. Kannski er það aðeins næst dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi. Því nýjar skrifstofur Alþingis eru hugsanlega dýrari.
Óðinn hefur fengið þær upplýsingar að ekki standi til að birta kostnaðinn við byggingu Landsbankans. Það segir okkur eitt. Hann er miklu miklu hærri en þeir 11,8 milljarðar króna sem sagt var að bygging hússins kostaði. Vonandi átta stjórnendur bankans sig á því, en bankaráðsformaðurinn er Helga Björk Eiríksdóttir, að það væri líkt og að éta óðs manns skít – svo vitnað sé í fyrrum bankastjóra og veislustjóra Landsbankans.
Það var snjallt hjá Landsbankamönnum – en konur eru jú líka menn, að selja ráðuneytinu hluta hússins. Því þá verður þöggunartilraunin líklega á pari við Lindarhvolsmálið.
En upp komast syndir um síðir.
***
122% fjármagnstekjuskattur
Fjármagnstekjuskattur var 10% áður en kommúnistastjórnin 2009-2013 tók við völdum. Þá hækkaði skatturinn í 20% - sem var hvatning til almennings að eyða en ekki spara.
Vinstristjórnin sem nú situr hækkaði fjármagnstekjuskattinn í 22%. Í stjórnarsáttmálanum frá 30. nóvember 2017 segir:
Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% í upphafi kjörtímabils í því markmiði að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Samhliða verður skattstofn fjármagnstekjuskatts tekinn til endurskoðunar.
Með lögum nr. 96/2017, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018, var lögfest hækkun á tekjuskatti af fjármagnstekjum úr 20% í 22%. Sú breyting kom til framkvæmda árið 2018.
Orðið samhliða í stjórnarsáttmálanum reyndist merkingarlaust.
Óðinn reiknaði út fjármagnstekjur aldraðrar konu. Sú ágæta kona býr í skuldlausri 63 fermetra íbúð og tekjur hennar er smávægilegar úr lífeyrissjóðum, ellilífeyris auk smávægilegs aurs sem hún safnaði á langri starfsævi.
Sparnaðurinn er á neikvæðum raunvöxtum og útlit fyrir að fjármagnstekjuskattur þessa árs verði 122%. Sem sagt það er skynsamlegra fyrir blessaða konuna að eyða aurnum heldur en að spara hann.
***
Var engin vinstriógn?
Og nú er að renna upp fyrir fleirum og fleirum innan Sjálfstæðisflokksins að þessi vinstriógn sem forystumennirnir hafa talað um í áratug – forystumenn sem virðast gjörsamlega lausir við alla forystuhæfilega - er ekki lengur til staðar.
Því sú ríkisstjórn sem nú situr er verri en kommúnistastjórnin sem sat 2009-2013. Auðvitað hækkaði sú stjórn skatta. Það er stefna vinstrimanna að taka af einum og gefa öðrum og fá atkvæði í staðinn frá nútímavinstrimanninum. Þetta vita allir.
En Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon máttu eiga það að þau reyndu í það minnsta að reka ríkissjóð hallalausan. Slíka tilraun er hvorki að finna í fjárlagafrumvarpi né fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar.
***
Flokkar geta dáið
Árið 1993 voru haldnar þingkosningar í Kanada. Þar buðu Íhaldsmenn fram (e. Progressive Conservative Party of Canada) en flokkurinn var stofnaður árið 1942. Hann hafði fengið 50,03% atkvæði í kosningum 1984 og 43,02% árið 1988.
En árið 1993 var vont ár. Þingsætunum fækkaði úr 169 í 2. Hann þurrkaðist því nánast út og lagðist af með sameiningu.
Ástæðurnar voru fjölmargar. Það var meðal annars efnahagskreppa í heiminum á þessum árum og sú versta í Kanada. Fjárlagahallinn var viðvarandi og atvinnuleysi mikið og vaxandi. En það sem fór mest fyrir brjóstið á stuðningsmönnum, og reyndar stærstum hluta landsmanna, var nýr skattur á vörur og þjónustu.
Það getur verið stutt milli feigs og ófeigs í stjórnmálum, rétt eins og lífinu. Það væri ef til vill ráð fyrir forysta Sjálfstæðisflokksins velta þessu fyrir sér.
Svona á milli þess sem hún leggur á nýja skatta og eykur ríkisútgjöld.
Pistill Óðins, sem hér er birtur í fullri lengd, birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 19. apríl.