Frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson stóðu fyrir kynningarfundi í síðustu viku á starfsemi Drift EA sem er ætlað að starfa sem frumkvöðla- og nýsköpunarfélag norðan heiða.
Frændurnir stofnuðu félagið í fyrra í tilefni að því að fjörutíu ár voru þá liðin frá því að þeir keyptu Samherja og hófu þann mikla og blómlega rekstur sem hefur einkennt útgerðina allar götur síðan.
Hrafnarnir eru sérstaklega ánægðir með nafngiftina á félaginu en það fangar tvö af helstu einkennum Akureyrar – EA sem stendur fyrir heimahöfn þessa mikla útgerðarbæjar og svo driftið sem er hápunktur Bíladaga á Akureyri ár hvert. Tilgangur félagsins er að veita frumkvöðlum fyrir norðan aðstöðu, faglega ráðgjöf og fjárstuðning og með þessu vilja frændurnir gefa
aftur til samfélagsins og komandi kynslóða að eigin sögn. Hrafnarnir telja þetta framtak til mikillar fyrirmyndar og eftirbreytni.
Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. maí 2024.