Sú umfjöllun sem er hér á eftir er í fullri lengd en hún birtist í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn. Nánar verður fjallað um gögn dönsku hagstofunnar og danska fjármálaráðuneytisins í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn.

Sú umfjöllun sem er hér á eftir er í fullri lengd en hún birtist í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn. Nánar verður fjallað um gögn dönsku hagstofunnar og danska fjármálaráðuneytisins í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn.

Samfylkingin undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur tekið upp hertari stefnu í innflytjendamálum. Í formannstíð Árna Páls Árnasonar, sem tók við af Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2013, sem og í tíð Oddnýjar G. Harðardóttur og Loga Einarssonar, var flokkurinn hlynntur mun opnari landamærum og barðist gegn öllum hugmyndum um að þrengja reglur á landamærunum líkt og Norðurlandaþjóðirnar hafa gert síðasta áratuginn.

Sósíalistaflokkurinn í Danmörku, systurflokkur Samfylkingarinnar, hefur einnig skipt um skoðun á innflytjendamálum. Stefnubreyting var merkjanleg í tíð Helle Thorning-Schmidt sem var forsætisráðherra Sósíalistaflokksins 2011-2015. Mest varð þó breytingin þegar Mette Frederiksen varð forsætisráðherra Sósíalistaflokksins. Má segja að vinstri stjórnin sem nú situr í Danmörku hafi að mestu lokað dönsku landamærunum fyrir hælisleitendum og fólki utan Evrópusambandsins.

***

Hreint framlag innflytjenda

Opinber gögn um innflytjendur í Danmörku eru bæði mjög ítarleg og upplýsandi. Frá árinu 2015 hefur danska fjármálaráðuneytið árlega gefið út skýrslu um hreint framlag innflytjenda til hins opinbera og borið það saman við íbúa af dönskum uppruna.

Er þá átt við skattgreiðslur frá íbúum að frádregnum þeim kostnaði sem hið opinbera ber af þjónustu við þá sem hægt er að sérgreina. Má þar nefna heilbrigðiskostnað, kostnað af bótum hvaða nafni sem þær nefnast, kostnað vegna menntunar og félagsþjónustu.

***

Hreinar tekjur hins opinbera af þeim sem eru danskir að uppruna voru 2.036 milljarðar króna árið 2019 en þeir eru 86,3% íbúa. Árið 2019 var hreinn kostnaður af innflytjendum og afkomendum þeirra samanlagt 291 milljarður íslenskra króna (16 milljarða d.kr.) en þeir eru 13,7% íbúa Danmerkur.

Vert er að hafa í huga að það var í fjármálaráðherratíð Kristian Jensen fjármálaráðherra Venstre sem skýrslugerðin hófst. Sá er þó aðeins ábyrgur fyrir einni skýrslu en síðan hefur Nicolai Wammen verið fjármálaráðherra fyrir danska Sósíalistaflokkinn.

***

Skipting í fjóra hópa

Nýjasta skýrslan er frá því í september og er þar tekið saman hverjar eru hreinar tekjur, eða eftir atvikum hreinn kostnaður, hins opinbera er af íbúum Danmerkur. Íbúum landsins er skipt í fjóra hópa.

Hóparnir eru þeir sem eru danskir að uppruna, innflytjendur frá Vesturlöndum, innflytjendur frá löndum þar sem stærstur hluti íbúa eru múslimar eða svokölluðum MENAPT löndum (uppruni í Mið-Austurlöndum og Norður Afríku auk Pakistan og Tyrklands) og innflytjendum frá 166 öðrum löndum sem öll eru utan Vesturlandanna. Frá árinu 2022 hafa þeir sem eiga uppruna sinn í Palestínu verið taldir til MENAPT landanna hvaðan sem þeir koma en Ísraelar ekki, enda nær 75% þjóðarinnar gyðingar en um 18% múslimar.

Hér er Mattias Tesfaye ásamt Mette Frederiksen forsætisráðherra. Tesfaye var ráðherra innflytjendamála frá 2019-2022. Faðir hans er hælisleitandi frá Eþíópíu en móðir hans er dönsk.

Skilgreiningin frá ráðherra danska Sósíalistaflokksins

Óðni er ekki kunnugt um að önnur ríki notist við nákvæmlega sömu skiptingu á innflytjendum utan Vesturlanda þó MENA löndin (án Pakistan og Tyrklands) sé þekkt hugtak og notað meðal annars af stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Danska skilgreiningin á múslimalöndunum hefur verið eignuð Mattias Tesfaye sem var innflytjendaráðherra fyrir Sósíalistaflokkinn á árunum 2019-2022.

Mattias vildi skoða hvort og þá hvaða áhrif uppruni fólks hefði á atvinnuþátttöku og glæpatíðni. Mattias er í dag menntamálaráðherra Dana og stendur í ströngu þessa dagana vegna hrottalegra ofbeldismála í Borup grunnskólanum.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að eini hópur innflytjenda sem borgar umfram það sem hann fær úr sameiginlegum sjóðum hins opinbera í Danmörku eru vestrænir innflytjendur. Aðrir hópar innflytjenda þiggja greiðslur og þjónustu umfram þá skatta sem þeir greiða.

***

Kostnaður mestur hjá MENAPT

Í skýrslu danska fjármálaráðuneytisins vegna áranna 2015-2018 er framlag hópanna fjögurra sýnt eftir aldri. Mikilvægt er að hafa í huga að framan af æviskeiðinu kosta börn og ungmenni hið opinbera meira vegna menntunar og engra eða lítilla tekna.

Svo tekur starfsævin við og þá hækka launin jafnt og þétt þar til lífeyrisaldri er náð. Þegar þangað er komið tekur heilbrigðiskostnaðurinn að hækka sem vex mjög þegar líður að aldarafmælinu.

Í nýjustu gögnum sem eru tiltæk, frá árinu 2018, kemur fram að þeir sem eiga uppruna sinn frá múslimalöndunum – MENAPT löndunum – fá alltaf meira frá hinu opinbera en þeir leggja til. Sama á hvaða aldri þeir eru.

Í skýrslunni frá 2019 kemur fram að 62% þeirra sem rekja uppruna sinn til MENAPT landanna kosta danska ríkissjóðinn og sveitarsjóðina umfram það sem þeir greiða í skatta. Þeir sem leggja sitt af mörkum umfram það sem þeir þiggja eru 24,3%. Aðrir eru nálægt því að fá sama og þeir leggja til.

***

392% munur

Þeir innflytjendur og afkomendur sem falla í fjórða flokkinn, frá 166 löndunum utan Vesturlanda, kostuðu danska skattgreiðendur um 73 milljarða íslenskra króna (4 milljarða d.kr.) árið 2019. Þeir voru 230 þúsund í lok árs 2019.

Þeir sem koma frá MENAPT löndunum kosta danska skattgreiðendur 436 milljarða króna (24 milljarða d.kr.) árið 2019. Þeir voru 279 þúsund í lok árs 2019.

Þegar leiðrétt hefur fyrir fjölda þessara tveggja hópa er kostnaður skattgreiðenda í Danmörku fjórfaldur eða 392% hærri af innflytjendum og afkomendum MENAPT landanna en fólki frá öðrum löndum utan Vesturlandanna.

***

Mjög mismunandi eftir löndum

Danska fjármálaráðuneytið birtir í skýrslu sinni upplýsingar um hreinan kostnað af innflytjendum og afkomendum þeirra. Er þetta einungis gert í þeim tilfellum, þar sem fleiri en 5.000 íbúar upprunalandsins búa í Danmörku.

Miðað við þessar forsendur kemur fram að meðaltalsframlag þeirra sem koma frá múslimalöndum er í öllum tilfellum neikvætt. Þrjú upprunalönd utan Vesturlandanna eru í hópnum.

Í Erítreu eru múslimar taldir vera 47-63% þjóðarinnar. Flestir þeir sem komu til Danmerkur frá Júgóslavíu voru múslimar sem og þeir sem komu frá Bosníu og Hersegóvínu. Hvorki danska fjármálaráðuneytið né hagstofan upplýsir um trú þeirra í greiningum sínum á innflytjendum.

Innflytjendur frá Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum leggja mest af mörkum til hins opinbera en Sómalar, Sýrlendingar og Líbanar/ríkisfanglausir Palestínumenn fá mest frá hinu opinbera. Samkvæmt skýrslu dönsku hagstofunnar frá 2012 segir að um tveir af hverjum þremur sem skráðir eru frá Líbanon séu ríkisfangslausir Palestínumenn. Frá árinu 2013 hefur hagstofan hins vegar sagt að stór hluti skráðra Líbana séu ríkisfangslausir Palestínumenn.

***

Hvað skýrir muninn?

Það eru eflaust margar ástæður fyrir þeim mikla mun sem er milli þessara fjögurra hópa danskra stjórnvalda og milli einstakra upprunalanda innflytjenda í Danmörku. Ein af grundvallarástæðum þess að svo mikill munur er á framlagi hópanna til samneyslunnar er atvinnuþátttakan. Ef fleiri eru starfandi og færri eru atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar eykur það skatttekjur og minnkar útgjöld í formi bóta og styrkja.

Þeir sem eru danskir að uppruna er í sérflokki. Vestrænir innflytjendur eru ekki svo fjarri með um 10% minni atvinnuþátttöku. Innflytjendur úr hinum tveimur flokkunum, frá öllum löndum utan Vesturlanda, eru þar langt á eftir.

Þeir sem koma frá MENAPT löndunum eru með 27,7% minni atvinnuþáttöku en Danir þegar þeir eru þrítugir og 44,6% minni við 55 ára aldur.

Innflytjendur frá öðrum löndum utan Vesturlanda eru hins vegar mun nær Dönum í atvinnuþátttöku. Þegar þeir eru 30 ára er þátttakan 14,6% minni en 25,6% minni þegar þeir eru orðnir 55 ára.

Sérstaka athygli vekur hvað atvinnuþátttakan fellur eftir fertugsaldurinn. Hugsanleg skýring er sú að reglurnar um örorku- og veikindalífeyrir (d. førtidspension) verða rýmri þegar fertugsaldri er náð. Þá getur fólk farið á hlutabætur sem sýna fram á varanlega skerta getu til að finna fullan vinnudag.

Múslímskar konur mótmæla. Þann 1. ágúst 2018 var bannað að klæðast búrkum í Danmörku en viðurlögin við því eru um 20 þúsund íslenskrar krónur í sekt.

Ein skýringa á svo miklum mun á atvinnuþátttöku hópanna fjögurra er atvinnuþátttaka kvenna. Þátttakan er langt minnst meðal múslimalanda (MEANPT) , eða einungis 60% af þátttöku karla í sama hópi.

Danskar konur eru lang virkastar kvenna á vinnumarkaði af öllum fjórum hópum. Aðeins er 6,3% munur á kynjunum tveimur, körlum í hag.

***

Stór hluti alltaf utan vinnumarkaðar

Í skýrslu danska fjármálaráðuneytisins vegna ársins 2019 er sérstök umfjöllun um flóttamenn. Þar er meðal annars skoðuð þjóðfélagsleg staða (d. Socioøkonomisk status) þeirra sem eru á vinnualdri, frá 25-64 ára.

Gögnin, sem innihalda árið 2019, sýna að hlutfall þeir sem eru í starfi eykst mikið 5-14 árum eftir að þeir koma til Danmerkur. Það hlutfall er hæst 5-14 árum eftir komu eða 43,3%.

Stór hluti flóttamanna er alltaf utan vinnumarkaðarins frá komu en hópurinn þiggur bætur eða annars konar félagsaðstoð. Hópurinn stækkar mjög 15-22 árum frá komu til landsins.

***

Glæpatíðni í Danmörku eftir hópunum fjórum

Eins og kom fram hér á undan vildi núverandi menntamálaráðherra Danmerkur úr flokki danskra Sósíalistaflokksins, þáverandi innflytjendaráðherra, kanna sérstaklega hvort og þá hver áhrif uppruni fólks væri á atvinnuþátttöku og glæpatíðni.

Nýjustu tölur danska innflytjendaráðuneytisins og dönsku hagstofunnar um glæpatíðni, skipt niður á hópana fjóra ná frá 2016-2021, eru birtar í formi vísitölu. Nýjustu tölurnar eru frá mars 2023.

Vísitalan 100 er meðaltal allra íbúa landsins og er hún leiðrétt fyrir aldri þar sem þeir sem eru yngri eru líklegri til að fremja glæp en þeir sem eru eldri.

Þegar vísitala karlmanna í Danmörku eru skoðuð sést að innflytjendur frá múslimalöndunum (MENAPT) eru þrisvar sinnum líklegri til að brjóta dönsku hegningarlögin en þeir sem eru danskir að uppruna. Vísitala innflytjenda múslimalandanna stóð í 249 árið 2021, annarra landa utan Vesturlanda var 116, danskra að uppruna var 86 og Vesturlandanna var 68.

Þegar sömu tölur eru skoðaðar fyrir afkomendur innflytjenda í hópunum þremur, borið saman við Dani að uppruna, sést að allir þrír hópar innflytjenda brjóta frekar gegn hegningarlögunum í Danmörku.

Afkomendur innflytjenda frá múslimalöndunum (MENAPT) eru þar einnig í sérflokki en afkomendurnir eru 4,25 sinnum líklegri til að brjóta af sér en Danir.

***

Í næstu viku mun Óðinn kafa dýpra ofan í dönsku gögnin og sýna frekari samanburð á milli upprunalandanna innan innflytjendahópanna þriggja. Til að mynda er töluverður munur á milli einstakra landa í hópunum þremur þó umfjöllunin hér á undan gefi skýra mynd af stöðu hópanna í Danmörku.

Áhersla verður lögð á gögn dönsku hagstofunnar og fjármálaráðuneytisins um þá hópa innflytjenda, sem fjölmennastir eru á Íslandi. Má þar helst nefna Pólverja, Litháa og Rúmena.

Einnig verður fjallað um tiltæk gögn um þá hópa flóttamanna sem eru stærstir hér, til dæmis Úkraínumenn og Palestínumenn.

Engin gögn eru um fólk frá Venesúela í dönskum gögnum þar sem innflytjendur þaðan eru fáir.