Fyrsti 100% rafbílinn á markaðnum í skutútfærslu verður frumsýndur hjá BL næsta laugardag. Um er að ræða fjölskyldubílinn MG5 Station Wagon.
Landsmenn hafa tekið MG merkinu opnum örmum frá því að það var fyrst kynnt á ný til leiks eftir langt hlé við frumsýningu rafknúna jepplingsins MG ZS EV í byrjun júní árið 2020. Síðan þá hafa tvær nýjar gerðir komið á markað, 2021 tengiltvinnbíllinn MG EHS og svo rafbílinn MG Marvel R sem kynntur var hjá BL í lok síðasta árs.
MG5 Electric Station Wagon er fyrsti 100% rafbíllinn í skutútgáfu á markaðnum þar sem höfuðáhersla er lögð á notagildi fyrir fjölskyldur og ferðaglaða. Þannig er farangursrýmið 479 lítrar og stækkanlegt í 1.367 lítra. MG5 er rúmir 4,5 metrar að lengd, ríflega 1,8 metrar á breidd og liðlega 1,5 metrar á hæð og er hjólhafið tæpir 2,7 metrar sem skapar meira pláss í farþegarýminu.
Rafhlaða MG5 er 61,1 kWh sem veitir við góðar aðstæður á blinu 380-400 km drægni eftir búnaðarúrfærslum. Rafmótor MG5 er 115 kW sem skilar um 156 hestöflum og 280 Nm togi til framhjólanna. MG5 getur tekið við þriggja fasa 11 kW AC hleðslu eða 87 kW DC hleðslu sem skilar u.þ.b. 80% hleðslu á fjörutíu mínútum.Hámarkshraði MG5 er 185 km/klst og hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. er rúmar 8 sek.
Hámarksdráttargeta MG5 er 500 kg. Hlaða má 50 kg á dráttarkrók bílsins, t.d. nokkrum reiðhjólum á þar til gerðar festingar auk þess sem langbogar MG5 á þaki eru gerðir fyrir allt að 75 kg hleðslu. Bíllinn verður frumsýndur næsta laugardag kl. 12-16 hjá BL við Sævarhöfða.