Nýr fjölmiðill í umsjón Snorra Mássonar fjölmiðlamanns hefur göngu sína í dag undir yfirskriftinni „Snorri Másson ritstjóri“.

Í tilkynningu segir að samhliða efni sem þar birtist muni Snorri ritstjóri fara vikulega yfir fréttir vikunnar í sérstökum fréttaþætti í sjónvarpi á öllum hugsanlegum samfélagsmiðlum, „frá hlaðvarpsveitum og til YouTube og X.“

Miðillinn segist ætla að leggja áherslu á stjórnmál, menningu og málefni líðandi stunda ásamt því sem þar verður veitt töluverð almenn fréttaþjónusta, bæði í ljósvaka og á vefnum.

„Ritstjórahugmyndin byggist á öfund minni á 19. aldar mönnum, að geta kallað sig ritstjóra án þess að hafa endilega fjölda blaðamanna undir sér, og nú endurvek ég það. Ég skilgreini mig nú sem ritstjóra,“ segir Snorri.

Frá 2019 hefur Snorri einnig haldið úti hlaðvarpinu Skoðanabræðrum ásamt bróður sínum Bergþóri Mássyni. Jafnframt hefur Snorri starfað við fundarstjórn, haldið erindi og sinnt veislustjórn.

„Ný tækni býður fólki upp á að hafa beint samband við mig sem blaðamann án milliliða. Á veraldarsviðinu er fjölmiðlun að taka grundvallarbreytingum og þetta fyrirkomulag tel ég henta nýjum tímum.“

Snorri Másson lauk prófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 2020 en hafði áður hafið störf á Morgunblaðinu. Þaðan fluttist hann yfir á Vísi og Stöð 2, en þar lét Snorri af störfum í vor.

„Ég hef síðan væntingar um að þessi starfsemi muni skila sér í bærilegum ávinningi bæði fyrir mig, lesendur, hlustendur, áhorfendur og íslenskt samfélag,“ segir Snorri jafnframt.