Tryggingatæknifélagið Verna hefur nýlega ráðið til sín þrjá sérfræðinga á sviði upplýsingatækni, þá Ragnar Árnason, Pálmar Gíslason og Haraldur Gunnarsson.
Verna hefur haslað sér völl á sviði ökutækjatrygginga og tækjatrygginga fyrir snjalltæki á borð við snjallsíma, spjaldtölvur og snjallúr.
Pálmar Gíslason hefur verið ráðinn sem yfirmaður gagnavísinda hjá Verna. Hann er með B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í verkfræði með áherslu á hagnýta stærðfræði frá DTU í Danmörku. Pálmar er með reynslu á sviði gagnavísinda og kemur hann til Verna frá CCP þar sem hann sinnti gagnavísindum og greiningum. Þar áður starfaði hann hjá Íslandsbanka og Fuglum.
Haraldur Gunnarsson hefur verið ráðinn sem forritari hjá Verna. Hann er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Halli er með yfir 13 ára reynslu af bakendaforritun og hefur meðal annars starfað hjá Jiko, Travelshift, Gangverk og Nova.
Ragnar Árnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tæknisviðs Verna. Hann er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hann stundaði einnig kennslu og rannsóknir. Hann kemur til Verna frá Moodup þar sem hann gegndi stöðu tæknistjóra, en var áður hjá Gangverk í rúm 6 ár þar sem hann vann einna mest fyrir bandaríska uppboðshúsið Sothebys.
„Það er mikill fengur í þeim Ragnari, Pálmari og Haraldi. Þeir falla vel inn í þau verkefni sem framundan eru og munu styrkja enn frekar sókn okkar á þeim mörkuðum sem við störfum. Ekki síst verkefni sem snúa að því að selja lausnir Verna erlendis”, segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Verna.