Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku varð til eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins þegar tvö dönsk fjárfestingafélög Davíðs Helgasonar runnu inn í íslenskt félag í hans eigu Foobar Iceland ehf.

Samrunadagsetningin miðaðist við 1. desember síðastliðinn en þá námu eignir sameinaðs félags hér á landi 236 milljörðum og eigið fé 225 milljörðum króna. Þar munaði mest um 214 milljarða króna bókfært virði hlutabréfa í hugbúnaðarfyrirtækinu Unity, sem Davíð stofnaði og stýrði um tíma. Síðan þá hefur gengi Unity hins vegar fallið um 77%, úr 172 dölum á hlut í 40 dali á hlut.

Ríflega 3% hlutur Davíðs í Unity sem eftir stendur er nú metinn á um 50 milljarða króna. Áður en að verðfallinu kom, eða frá maí 2021 og fram til mars á þessu ári, seldi Davíð hins vegar hluta bréfa sinna í Unity fyrir um tuttugu milljarða íslenskra króna.

Gengi Unity fór hátt upp og féll hratt

Hlutabréfaverð í Unity hækkuðu gífurlega í heimsfaraldrinum eins og mörg önnur tækni- og nýsköpunarfyrirtæki. Félagið var skráð á markað á genginu 52 Bandaríkjadölum á hlut í september 2020 en rauk upp í kjölfarið og fór hæst í 196 dollara á hlut í nóvember árið 2021. Unity þróar meðal annars hugbúnað sem tölvuleikir byggja á en hugbúnaðurinn er einnig nýttur á fleiri sviðum á borð við arkitekta- og verkfræðistofur og í bílaiðnaðinum.

Við skráningu Unity á markað nýtti ríflega helmingur af þúsund vinsælustu leikjum App Store og Google Play hugbúnað Unity. Vegna hinnar skörpu hækkunar á gengi Unity varð Davíð annar Íslendingurinn sem komst inn á auðmannalista Forbes, sem nær yfir þá einstaklinga sem eiga meira en milljarð Bandaríkjadala, ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni.

Eftir dýfu Unity í vor féll Davíð hins vegar út af rauntímalista Forbes yfir milljarðamæringa þar sem fjölmiðillinn áætlar að heildarauður hans sé á ný kominn undir einn milljarð dollara.

Efnahagsþrengingar, verðbólgutíð og hækkun stýrivaxta eru sagðar hafa komið illa við félagið á síðustu mánuðum líkt og fleiri tæknifyrirtæki sem hækkuðu skarpt á veirutímum. Minni skjátími og þar með tölvuleikjaspilun eftir að samkomutakmörkunum vegna Covid-19 sleppir er einnig sögð hafa neikvæð áhrif á reksturinn sem og breytingar hjá Apple sem gera það erfiðara að fylgjast með notendum, sem dregur úr möguleikum til auglýsingasölu.

Vill nýta auðinn til loftslagslausna

Davíð hefur á undanförnum mánuðum unnið að því að koma á fót fjárfestingafélaginu Transition Labs með Kjartani Ólafssyni, sem hefur það að markmiði að fjárfesta í verkefnum sem nýtast í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og sér um að laða erlend loftslagstengd verkefni til landsins.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.