Sjóböð ehf., félag sem rekur GeoSea sjóböðin á Húsavík, skilaði 43,6 milljóna króna hagnaði árið 2023 samanborið við 7,4 milljóna króna hagnað árið 2022.
Tekjur Sjóbaðanna, sem opnuðu í september 2018, námu 332 milljónum króna og jukust um 29% á milli ára. Á sama tíma námu rekstrargjöld 233 milljónum króna og jukust um 10% á milli ára.
„Gert er ráð fyrir að rekstur félagsins verði með svipuðu móti á árinu 2024 eins og hann var á árinu 2023,“ segir í skýrslu stjórnar.
Eigir félagsins voru bókfærðar á 734 milljónir króna í árslok 2023. Eigið fé var um 329 milljónir og skuldir 404 milljónir.
Fjárfestingarsjóðurinn Norðurböð er stærsti hluthafi félagsins með 34,7% hlut. Útgerðarmaðurinn Pétur Stefánsson er næst stærsti hluthafi Sjóbaðanna með 29% hlut. Þá eiga Jarðböðin á Mývatni 22% hlut í Sjóböðunum og Orkuveita Húsavíkur ohf. 13,8% hlut.