Leikfangaframleiðandinn Mattel hefur beðist afsökunar á því að hafa óvart auglýst klámsíðu á umbúðum dúkkna sem framleiddar voru í tengslum við kvikmyndina Wicked, sem er væntanleg frá Universal Pictures.

Notendur á samfélagsmiðlum voru fljótir að benda á að vefslóðin sem prentuð var á pakkningarnar, wickedmovie.com, beinir notanda á klámvefsíðu.

Mattel segir að prentvillan hafi aðallega verið á þeim dúkkum sem seldar voru í Bandaríkjunum en gaf ekki upp hversu mörg stykki það væri að innkalla. Þá hefur fyrirtækið hvatt fólk til að farga umbúðunum eða hylja yfir vefslóðina.

Fyrsta kvikmyndin, Wicked Part I, verður frumsýnd hér á landi þann 21. nóvember nk. og svo verður framhaldsmyndin sýnd í nóvember á næsta ári.