Ástralski bankinn ANZ hefur beðist afsökunar og boðið starfsmönnum sálfræðiaðstoð eftir að meira en 100 millistjórnendum barst tölvupóstur fyrir mistökum, þar sem þeim var skipað að skila fartölvum sínum vegna uppsagnar.
Sjálfvirku póstarnir fóru út á skömmu áður en bankinn hélt fjarfund en þar neyddist bankinn til að staðfesta brottrekstur viðkomandi starfsmanna, samkvæmt Financial Times.
Í innanhússpósti skrifaði Bruce Rush, starfandi framkvæmdastjóri viðskipta ANZ, að hann „harmi þau óþægindi og vanlíðan sem þetta hefur valdið“ og að bankinn væri skuldbundinn til að koma fram við alla „af virðingu“ í uppsagnarferli.
Sagt upp viku of snemma
ANZ hafði upphaflega ætlað að tilkynna uppsagnir í næstu viku, en misheppnað sjálfvirkt ferli varð til þess að starfsfólk frétti af starfslokum með röngum hætti og á röngum tíma.
Bankinn segir að sálfræðiaðstoð og önnur úrræði standi þeim sem hlut eiga að máli til boða.
Talsmaður ANZ sagði að bankinn hefði „beðist skilyrðislausrar afsökunar“ við þá sem málið varðar.
Atvikið gerist samhliða því að Nuno Matos, fyrrverandi háttsettur yfirmaður hjá HSBC bak sem tók við sem forstjóri í maí, undirbýr stefnubreytingu sem gert er ráð fyrir að verði kynnt í október.
Hlutabréf ANZ hafa hækkað um 18 prósent það sem af er ári. Bankinn hefur glímt við rekstrar- og orðsporsvandamál á undanförnum árum. Bankinn hefur meðal annars sætt rannsókn á meintum verðtilbúnaði á skuldabréfamarkaði og vegna vinnubragða hjá verðbréfamiðlurum bankans.