Fjármálaráðuneytið – sem fer með málefni ÍL-sjóðs – hefur boðað svokallað skiptiútboð HFF-skuldabréfa sjóðsins. Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu frá sjóðnum nú í morgunsárið.
Eigendum bréfa í flokkunum HFF34 og HFF44, með lokagjalddaga eftir 11 og 21 ár, verður boðið að skipta á þeim bréfum fyrir ótilgreind markaðsverðbréf í eigu sjóðsins.
Ráðuneytið lagði fyrir ríflega mánuði síðan fram í samráðsgátt frumvarp til laga um slit „ógjaldfærra opinberra aðila“, sem ætlað er að skapa lagagrundvöll fyrir slitameðferð ÍL-sjóðs.
Sjóðurinn stefnir að óbreyttu í að tapa verulegum fjárhæðum og verða að lokum ógjaldfær, þar sem hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum á því vaxtastigi sem ríkir á markaði í dag.
Verðbréf í eigu sjóðsins voru um mitt þetta ár bókfærð á rétt tæpa 150 milljarða, en þar af var ríflega helmingur, eða 76 milljarðar, í formi sértryggðra skuldabréfa bankanna – sem tryggð eru með íbúðalánasöfnum þeirra – tæpir 50 milljarðar ríkisskuldabréf. Restin skiptist í skuldabréf sveitarfélaga og fyrirtækja.
Ekki kemur fram hvort um gangvirði eða framreiknað kaupverð er að ræða, en í síðarnefnda tilfellinu gæti markaðsvirði bréfanna hafa lækkað nokkuð með hækkandi vöxtum síðustu misseri.
Í tilkynningunni í morgun kemur fram að ætlunin sé „að draga úr vaxtatapi sjóðsins og gefa áhugasömum eigendum íbúðabréfa tækifæri til að losa um eignarhald á bréfum“ og er ástæða sögð til að ætla að „aðstæður til slíks útboðs hafi nú skapast“, og er þar sjálfsagt vísað til mikillar hækkunar verðtryggðra vaxta síðastliðna mánuði, en HFF-bréfin bera 3,75% verðtryggða vexti.
Nánari útfærsla og tímasetning er sögð verða auglýst innan skamms.