Dómur í Bret­landi féllst á allar kröfur Sam­herja í máli þeirra gegn Oddi Ey­steini Friðriks­syni vegna brota á vöru­merkjaréttindum félagsins.

Á síðasta ári setti Oddur upp heimasíðu í nafni Sam­herja með breskri léna­skráningu þar sem hann villti á sér heimildir og not­færði sér hug­verk í eigu félagsins.

Um­rædd síða var látin líta út fyrir að vera raun­veru­leg vefsíða í eigu Sam­herja. Þá dreifði hann fölskum til­kynningum í nafni félagsins.

Með dómi sem kveðinn var upp í morgun kemur fram að Oddi Ey­steini hafi verið þetta óheimilt og var málsástæðum hans um list­rænan gjörning hafnað.

Sam­kvæmt til­kynningu frá Sam­herja sló dómurinn því föstu að notkun vöru­merkis Sam­herja við hönnun vefsíðunnar hafi verið gerð í því skyni að ljá vefsíðunni trúverðug­leika en ekki í þeim til­gangi að varpa fram gagn­rýni.

„Notkun vöru­merkis og öll fram­setning vefsíðunnar hafi verið eins og um væri að ræða opin­bera vefsíðu félagsins. Þannig hafi hönnun síðunnar hvorki falið í sér list­ræna skop­stælingu né skrum­skælingu sem rúmast innan þess tjáningar­frelsis sem lista­menn njóta,“ segir í til­kynningu út­gerðarfélagsins.

Sam­kvæmt dómsniður­stöðunni sýndi upp­setning vefsíðunnar á léni með nafni félagsins, og vís­vita fram­setning rangra upp­lýsinga þar inni ásetning um blekkingar.

Dómarinn sagði að framan­greint fæli í sér ólög­mætar skerðingar á tjáningar­frelsi enda geti tjáningar­frelsi sætt tak­mörkunum vegna lög­bundinna réttinda annarra og þar undir falla vöru­merkja- og hug­verkaréttindi.

„Við erum að sjálfsögðu ánægð með þessa niður­stöðu. Við vorum knúin til þess að verja vöru­merki okkar með máls­höfðun þegar öllum mildari úrræðum var hafnað. Dómurinn er af­dráttar­laus um hvað geti flokkast sem list­ræn tjáning og hvað teljist mis­notkun á skráðu vöru­merki. Sú niður­staða hlýtur að vera al­var­legt um­hugsunar­efni fyrir þær mennta­stofnanir sem lögðu blessun sína yfir aug­ljós vöru­merkja­brot undir for­merkjum list­sköpunar,“ segir Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja hf.