Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt nýjar tillögur, svokallaðan Omibus-pakka, sem fela í sér einföldun á sjálfbærniregluverki sambandsins. Markmiðið er að ná fram að draga úr stjórnsýsluálagi um að minnsta kosti 25%, þar af í hið minnsta 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, að því er segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni í dag.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði breytingarnar til þess fallnar að einfalda fyrirtækjum lífið á sama tíma og skref yrðu tekin í átt að kolefnishlutleysi.
Helstu breytingarnar ná til sjálfbærniregluverksins, annars vegar CSRD-tilskipunarinnar, sem kveður á um sjálfbærniupplýsingagjöf, og hins vegar EU Taxonomy-reglugerðarinnar, sem er betur þekkt sem Flokkunarreglugerðin. Regluverkið hefur sætt talsverðri gagnrýni, meðal annars frá Íslandi, þar sem það var talið of íþyngjandi og líklegt til að reynast smærri fyrirtækjum sérstaklega erfitt.
Ef aðildaríki innleiða tilskipanirnar með umræddum breytingum áætlar framkvæmdastjórnin að árlegur sparnaður þegar kemur að stjórnsýslukostnaði nemi í kringum 6,3 milljörðum evra, eða sem nemur ríflega 900 milljörðum króna, auk þess sem fjárfestingageta gæti aukist um 50 milljarða evra.
Til stóð að CSRD-tilskipunin yrði innleidd hér á landi í byrjun árs en málið var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem lét af störfum í haust. Innleiðingin er ekki á þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar.
Þúsund starfsmenn í stað 250
Greint var frá því í byrjun árs að stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi, tveggja stærstu hagkerfa innan ESB, hefðu þrýst á Evrópusambandið að draga úr umfangi sjálfbærniregluverksins, aðallega CSRD.
Breytingarnar hafa einna helst áhrif á lítil eða meðalstór fyrirtæki. Þannig munu t.a.m. um 80% fyrirtækja sem heyrðu áður undir CSRD-tilskipuna losna við tilkynningarskyldu en hún mun ekki ná til smærri fyrirtækja í virðiskeðju stærri fyrirtækja, líkt og áður var miðað við. Gildistaka tilkynningarskyldu frestast þá um tvö ár, eða til ársins 2028.
Bæði CSRD og EU Taxonomy munu einblína á stór fyrirtæki, en í tilfelli CSRD eru það fyrirtæki með fleiri en eitt þúsund starfsmenn og veltu yfir 50 milljónum evra en áður var miðað við fyrirtæki með fleiri en 250 starfsmenn. Í tilviki EU Taxonomy er miðað við sambærileg mörk og í CSDDD-tilskipuninni, þ.e. fyrirtæki með fleiri en eitt þúsund starfsmenn og hreina veltu yfir 450 milljónum evra á heimsvísu.
Tillögurnar verða nú lagðar fram til Evrópuþingsins og Evrópuráðsins sem munu endanlega taka ákvörðun en framkvæmdastjórnin biðlar til þeirra að afgreiða tillögurnar eins fljótt og auðið er, einna helst þegar kemur að CSRD-regluverkinu þar sem um er að ræða frestun á gildistöku ákveðinna atriða.