Bandaríski fjárfestirinn Ray Dalio, stofnandi Bridgewater Associates, varar við því í viðtali við Financial Times að Bandaríkin séu að halla sér að stjórnarháttum sem minna á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Hann segir vaxandi misskiptingu í auði, djúpa gjá í gildum og hrun trausts ýta undir öfgakenndari stefnu og meiri ríkisafskipti af atvinnulífinu.
Dalio nefnir ákvörðun stjórnvalda um að fá 10% eignarhlut í Intel og sérstaka útflutningstolla á Nvidia og AMD sem dæmi um aukna íhlutun ríkisins.
Hann segist jafnframt hafa áhyggjur af sjálfstæði Seðlabanka Bandaríkjanna eftir pólitísk inngrip í stjórn bankans og þrýsting um hraðar, djúpar vaxtalækkanir.
Veikari staða Seðlabankans grefur undan trausti á varnargetu bankans til að halda verðgildi dollarans og gerir skuldabréf í dölum síður aðlaðandi, að sögn Dalio.
Hann bætir við að erlendir fjárfestar hafi þegar fært sig úr bandarískum ríkisbréfum yfir í gull.
Dalio varar einnig við vaxandi skuldavanda þar sem stjórnvöld séu að verja um 7.000 milljörðum dollara á ári en innheimti aðeins um 5.000 milljarða, sem kalli á nýja skuldabréfaútgáfu á sama tíma og eftirspurn veikist.
Seðlabankinn stendur að mati Dalio frammi fyrir tveimur kostum þegar markaðurinn fer að efast um trúverðugleika ríkisfjármála: leyfa vöxtum að hækka með áhættu á skuldakreppu eða prenta peninga og kaupa skuldirnar sem aðrir vilja ekki, sem hvort tveggja myndi veikja dollarann.
Að hans mati gæti „skuldakreppa af völdum of mikillar skuldsetningar“ blasað við innan um það bil þriggja ára.
Að lokum segir Dalio að margir fjárfestar þori ekki að gagnrýna forsetann af ótta við viðbrögð, en hann sjálfur sé einfaldlega að lýsa orsakahringnum sem sé að drífa framvindu mála.
„Lýðræðið veikist þegar gjár í auði og gildum verða óbrúanlegar; þá eykst krafa um harðari forystu sem lofar að ná tökum á kerfinu,“ segir hann.