Ónefndur fjárfestir, sem vill ekki láta nafns síns getið, hagnaðist um 85 milljónir dala, um 11,8 milljarða íslenskra króna, með því að veðja á kosningasigur Donald Trumps frambjóðanda Repúblikanaflokksins í byrjun mánaðar.
Samkvæmt The Wall Street Journal er þetta mun hærri upphæð en upphaflega var greint frá í fjölmiðlum vestanhafs en greiningarfyrirtækið Chainalysis, sem sérhæfir sig í bálkakeðjum (e.blockchain), eru búin að rekja fleiri veðmál til sama einstaklingsins.
Fjárfestirinn sjálfur staðfesti að lokum upphæðirnar.
Fjölmiðlar vestanhafs hafa gefið honum nafnið „The Trump Whale“ en hinn ónefndi fjárfestir bjó til ellefu aðganga að Polymarket-veðmálasíðunni og lagði pening á ellefu veðmál tengd sigri Trumps.
Veðmálasíðan Polymarket leyfir notendum að veðja í rafmyntum en síðan naut gríðarlegra vinsælda í forsetakosningunum vestanhafs þrátt fyrir að Bandaríkjamenn megi ekki veðja þar.
Franskur og vill láta kalla sig Théo
The Wall Street Journal náði tali af fjárfestinum sem vill ekki láta nafns síns getið en Polymarket gaf nýlega út að um er að ræða franskan ríkisborgara.
Í samtali við WSJ vildi maðurinn láta kalla sig Théo en hann eyddi miklu púðri í að reyna segjast bara eiga fjóra aðganga áður en blaðamaður greindi honum frá því að Chainalysis hefði náð að rekja 11 aðganga til hans.
Hann gerði upphaflega lítið úr upphæðunum sem hann veðjaði á. „Ég geri það af öryggisástæðum og til að reyna draga úr mögulegum áhrifum einkalífs míns, verði nafn mitt einhvern tímann gert opinbert síðar meir,“ segir Théo í samtali við blaðamann WSJ.
Aðgangarnir sem franski fjárfestirinn notaðist við voru allir stofnaðir í októbermánuði og notaðist hann við nöfn eins RepTrump, Jenzigo og mikatrade77.
Allir ellefu aðgangar hans eru á topp 20 lista Polymarket yfir þá sem hafa hagnast mest á veðmálasíðunni