Netverslunin Zalando, sem er í minnihlutaeigu Anders Holch Povlsen, eiganda Bestseller, er í þann mund að klára yfirtöku á sínum helsta keppinaut, About You, sem Povlsen á einnig hlut í.
Um er að ræða tvær þýskar netverslanir sem selja tískuföt en samkvæmt Børsen á Povlsen um 10% hlut í Zalando og um 20% hlut í About You.
Samkvæmt kauphallartilkynningu er Zalando að greiða 6,5 evrur á hlut fyrir Zalando og er heildarkaupverðið 1,2 milljarðar evra eða um 174 milljarðar íslenskra króna.
Í sömu tilkynningu er greint frá því að Povlsen sé að selja alla hluti sína í About You í viðskiptunum og fær hann um 1,8 milljarða danskra króna fyrir eða sem nemur rúmum 35 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Aðrir stórir hluthafar í About You hafa einnig samþykkt yfirtökutilboðið og er Zalando komið með 73% hlut nú þegar.
Vöxtur Zalando og About You hefur verið gríðarlegur á síðustu árum en fyrrnefnda félagið velti um 10 milljörðum evra í fyrra eða um 1457 milljörðum íslenskra króna. Velta About You nam 1,9 milljörðum evra eða um 276 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt Bloomberg er auður Povlsen metinn á um 60 milljarða danskra króna sem nemur um 1.172 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Í kauphallartilkynningu segir Robert Gentz, forstjóri Zalando, að með yfirtökunni muni markaðshlutdeild hins sameinaða félags aukast til muna á tísku- og lífstílsmarkaðinum.
Félagið hyggst þó reka bæði vörumerkin undir einu móðurfélagi.
Dagslokagengi About You í kauphöllinni í Frankfurt nam 3,78 evrum og er kaupverðið því 78% yfir markaðsvirði.
Hið sameinaða félag hyggst þó reka About You áfram sem aðskilið vörumerki en netverslunin er mun vinsælli meðal ungs fólks en Zalando.
Dagslokagengi About You í kauphöllinni í Frankfurt nam 3,78 evrum og er kaupverðið því 78% yfir markaðsvirði.