Deed Delivery er nýsköpunarfyrirtæki stofnað af þremenningunum Magnúsi Sigurbjörnssyni, Þorvaldi Skúlasyni og Einari Erni Jónssyni. Fyrirtækið vinnur að snjalllausn fyrir sendingarfyrirtæki sem auðveldar samskipti þeirra við viðskiptavini.
Smáforritið er samskiptahugbúnaður sem einfaldar samskipti og heimsendingarferlið fyrir alla aðila. Þar geta neytendur séð væntanlegar sendingar og óskað eftir hentugum afhendingartíma og stað, óháð flutningsaðila. Á sama tíma gerir smáforritið afhendingarfyrirtækjunum kleift að eiga samskipti við viðskiptavini sem auðveldar þeim að skipuleggja dreifinguna til að ná fram sem mestri hagkvæmni. Forritið tengir saman dreifingaraðila og móttakanda, þ.e. fyrirtækin sem viðskiptavinir panta frá, hraðsendingarfyrirtækin sem sjá um sendinguna og sendlanna sem sjá um að dreifa sendingunum.
„Um 5% hraðsendinga misfarast við fyrstu tilraun á heimsvísu og stærsta ástæðan fyrir því er skortur á samskiptum milli dreifingaraðila og móttakanda. Deed er í rauninni fyrsta opna samskiptakerfið fyrir hraðsendingarfyrirtæki og viðtakendur“ segir Magnús.
„Hugmyndin kviknaði fyrir tveimur árum. Það var sendingarfyrirtæki sem leitaði eftir lausn til að einfalda samskipti við viðskiptavini sína. Meðal úrlausna sem leitar var eftir var að koma til skila upplýsingum um ferli sendinga, staðfestingu afhendingarstaðar, greiðslu gjalda og kostnaðar, hentugar tímasetningar afhendingar og fleira. Eitt af markmiðunum var að upplýsa móttakandan um stöðu pöntunar án þess að hann þyrfti að vera sífellt að leita eftir upplýsingum og þá í gegnum mismunandi samskiptamáta. Við vildum að hægt væri að hafa eina örugga gátt þar sem öll samskipti færu fram.“ segir Þorvaldur.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.