Eldum rétt, sem sérhæfir sig í gerð matarpakka, hagnaðist um 238 milljónir króna á síðasta uppgjörsári sem var fjórtán mánuðir, eða frá 1. janúar 2022 til 28. febrúar 2023, vegna aðlögunar á reikningsárinu að Haga-samstæðunni sem keypti fyrirtækið í fyrra. Til samanburðar hagnaðist Eldum rétt um 88 milljónir á tólf mánaða reikningsárinu 2021.
Í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi, sem var undirrituð 30. júní, segir að félagið hyggist greiða út 280 milljónir króna í arð til hluthafa á árinu 2023.
Velta Eldum rétt nam 1.924 milljónum á fjórtán mánaða reikningsárinu 2022 samanborið við 1.232 milljónir á tólf mánaða uppgjörsárinu 2021.
„Rekstur ársins gekk vel og nýjung með tilbúnum matarpökkum í verslunum Hagkaups hefur farið vel af stað,“ segir í skýrslu stjórnar. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sagði í síðustu uppgjörstilkynningu samstæðunnar að mikil aukning væri í netverslun Eldum rétt.
Kaupverðið 1,6 milljarðar
Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, náðu samkomulagi við um kaup Haga á öllu hlutafé Eldum rétt í mars 2022 og tóku við rekstrinum þann 1. nóvember 2022. Eldum rétt var áður í jafnri eigu framtakssjóðsins Horns III, í stýringu hjá Landsbréfum, annars vegar og stofnendanna Vals Hermannssonar og Kristófers Júlíusar Leifssonar hins vegar.
Kaupverðið nam 1.613 milljónum króna og var greitt með handbæru fé að því er kemur fram í síðasta ársreikningi Haga. Af kaupverðinu voru 1.264 milljónir færðar sem viðskiptavild í samstæðu.
Eignir Eldum rétt voru bókfærðar á 648 milljónir króna í lok febrúar síðastliðnum og eigið fé var um 420 milljónir.
