Framsóknarflokkurinn mælist með 5,9% fylgi í nýrri könnun Maskínu. Til samanburðar mældist flokkurinn með 7,3% í fyrri könnun Maskínu. Vísir greinir frá.

Tveir efst flokkarnir í mælingum, Samfylkingin og Viðreisn, bæta báðir við sig fylgi milli kannana. Samfylkingin mælist með 22,7% fylgi sem er 2,6 prósentustigum hærra en í fyrri könnun Maskínu. Fylgi Viðreisnar heldur áfram að hækka og er komið upp í 20,9%.

Yrðu niðurstöður kosninganna í samræmi við könnunina fengi Samfylkingin 16 þingmenn og Viðreisn 15, eða samtals 31 þingmann.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 1,2 prósentum milli kannana og mælist með 14,6% fylgi. Þar á eftir kemur Miðflokkurinn með 12,6% líkt og í fyrri könnun. Flokkur fólksins er fimmti stærsti flokkurinn með 8,8% fylgi.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 5,0% fylgi, Píratar með 4,3% og Vinstri græn með 3,1% fylgi. Allir þrír flokkar eru því í hættu á að detta út af þingi.

Könnunin var gerð dagana 15. til 20. nóvember og tóku 1.400 þátt.