Fylgi Miðflokksins mælist 12,6% í nýrri könnun Maskínu og lækkar um 2,3 prósentustig frá fyrri könnun þar sem flokkurinn mældist með 14,9%.
Samfylkingin mælist áfram hæst en fylgi flokksins lækkar þó úr 20,9% í 20,1% milli kannana Maskínu. Viðreisn fylgir fast á hæla Samfylkingarinnar með 19,9% en fylgi Viðreisnar jókst um hálfa prósentu frá fyrri könnun. Ekki er marktækur munur á fylgi Samfylkingarinnar og Viðreisnar.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 13,4% og hækkar lítillega frá fyrri könnun.
Af öðrum helstu breytingum milli kannana er helst að nefna að Sósíalistaflokkurinn og Píratar mælast báðir inn á þingi. Sósíalistaflokkurinn mælist nú með 6,3% fylgi, samanborið við 4,5% í síðustu könnun. Þá jókst fylgi Pírata úr 4,9% í 5,1% milli kannana.
Vinstri græn ná ekki inn á þing miðað við könnunina en fylgi flokksins mælist 3,4%.
Könnunin fór fram dagana 8. til 13. nóvember 2024 og voru 1.463 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.