Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech lækkaði um rúm 2% í Kaup­höllinni í dag en félagið birti árs­hluta­upp­gjör fyrir opnun markaða í morgun.

Tekjur líftækni­lyfja­fyrir­tækisins námu 339 milljónum Bandaríkja­dala á fyrstu níu mánuðum ársins sem er um 300 milljóna dala tekju­aukning á milli ára.

Þrátt fyrir rekstrar­hagnað annan fjórðunginn í röð var bók­fært tap á fyrstu níu mánuðum ársins 164,9 milljónir dala sem rekja má að mestu til gang­virðis­breytinga á af­leiðu­tengdum skuldum sem ekki hafa áhrif á hand­bært fé félagsins.

Um 423 milljón króna velta var með bréf félagsins í dag en gengi Al­vot­ech hefur lækkað um 8% í nóvember­mánuði.

Hluta­bréfa­verð Amaroq lækkaði einnig um 2% en málm­leitarfélagið birti einnig árs­hluta­upp­gjör fyrir opnum markaði í morgun. Í upp­gjörinu sagði Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq, fyrir­tækið hafi náð veru­legum fram­förum í upp­byggingu í Nalunaq á þriðja árs­fjórðungi.

„Við erum nú við það að hefja vinnslu á gulli úr Nalunaq, sem er afar stór áfangi fyrir félagið og mun skila tekju­flæði sam­hliða því sem við vinnum okkur upp í fulla fram­leiðslu,“ segir Eldur.

Í lok fjórðungsins var félagið með 26 milljónir kana­da­dali á hendi sem saman­st af hand­bæru fé, ónotuðum lána­línum og lausafé eftir að hafa dregið frá við­skipta­skuldir.

Mun það vera lækkun úr 62,2 milljónum dala í lok annars árs­fjórðungs.

Málm­leitarfélagið gerði í júlímánuði sam­komu­lag við Lands­bankann um þrjár lána­heimildir að and­virði 35 milljónir kanda­dala. Sam­kvæmt upp­gjörinu tryggja lána­línurnar veru­lega aukningu og fram­lengingu á núverandi lána­línum.

Hluta­bréf í Sýn lækkuðu einnig í dag en félagið birti upp­gjör eftir lokun markaða í gær. Gengi félagsins fór niður um tæp 6% í lítilli veltu en í há­deginu í dag var kynnt ný stefnumótun hjá fjar­skipta- og fjölmiðla­fyrir­tækinu.

Hluta­bréfa­verð Marels leiddi hækkanir á aðal­markaði er gengi félagsins fór upp um 2% í 1,4 milljarða króna veltu. Dagslokagengi Marels var 612 krónur.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 0,37% og var heildar­velta á markaði 4,1 milljarður.