Hluta­bréfa­verð Icelandair hækkaði um tæp 5% í um 366 milljón króna við­skiptum í dag.
Dagsloka­gengi Icelandair var 1,22 krónur og hefur gengi flug­félagsins ekki verið hærra síðan í febrúar.

Icelandair birti farþegatölur í síðustu viku sem sýndu að flug­félagið hefur flutt yfir 4 milljónir farþega á árinu sem er um 8% fleiri en á sama tíma í fyrra. Að sögn Boga Nils Boga­sonar, for­stjóra Icelandair, er eftir­spurn eftir Ís­lands­ferðum að aukast.

Þá lækkaði verðið á Brent-hráolíu í dag en tunnan af Brent hefur lækkað um rúm 5% síðustu fimm daga. Tunna af Brent-hráolíu stendur í 71 dal þegar þetta er skrifað sem er með því lægsta á árinu en Brent-hráolía er meðal annars notuð í flug­véla­elds­neyti.

Hluta­bréfa­verð Play hækkaði um 2,5% í ör­við­skiptum sem voru undir einni milljón. Dagsloka­gengi Play var 1,01 króna.

Gengi Reita nálgast sitt hæsta gildi

Hluta­bréfa­verð Reita hélt áfram að hækka í við­skiptum dagsins en fast­eignafélagið birti upp­gjör eftir lokun markaða á mánu­daginn. Gengi félagsins hefur nú hækkað um tæp 9% síðastliðna þrjá við­skipta­daga.

Dagsloka­gengi var 106 krónur og hefur ekki verið hærra síðan í maí 2017 þegar gengi félagsins fór í sitt hæsta gildi frá skráningu og stóð í 109 krónum.

Gengi Sýnar hækkaði um 2,6% í 49 milljón króna viðskiptum í dag en fjarskiptafélagið birtir árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag.

Hluta­bréfa­verð Nova leiddi lækkanir er gengi fjar­skipta­félagsins fór niður um rúm 3% í 152 milljón króna við­skiptum.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,53% og var heildar­velta á markaði 6,8 milljarðar.