Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um 7% í viðskiptum dagsins en fjölmiðla- og fjarskiptafélagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Sýn hagnaðist um 17 milljónir króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 321 milljónar hagnað á sama tímabili í fyrra en hagnaður af sölu erlendrar starfsemi Endor nam 160 milljónum króna.
Afkoma félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 322 milljónir króna eftir skatta.
Rekstrartekjur Sýnar á þriðja ársfjórðungi drógust saman um 2% milli ára og námu 5.265 milljónum króna.
Hlutabréfaverð Sýnar hefur nú lækkað um rúm 38% á árinu en markaðsdagur Sýnar hefst kl 13:00.
Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið mun þar fara yfir framtíðarstefnumótun félagsins en í uppgjörinu sagði Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri að rekstrarniðurstaða félagsins á árinu hafi verið lituð af of mikilli yfirbyggingu þar sem sameiningar fyrri ára hafi ekki verið að fullu innleiddar inn í rekstur félagsins.
„Ég er þess fullviss um að ný áhersla okkar og átak í djúpri samþættingu og einföldun innan Sýnar muni leggja grunninn að sjálfbærum langtíma hagnaði og vexti. Við höfum unnið markvisst að mótun nýrrar stefnu Sýnar síðustu mánuði þar sem helstu drifkraftar eru skilvirkni, vöxtur og samvinna og lítum björtum augum til framtíðar,“ sagði Herdís í uppgjörinu.