Hluta­bréfa­verð Sýnar hefur lækkað um 7% í við­skiptum dagsins en fjölmiðla- og fjar­skipta­félagið birti árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Sýn hagnaðist um 17 milljónir króna eftir skatta á þriðja árs­fjórðungi, saman­borið við 321 milljónar hagnað á sama tíma­bili í fyrra en hagnaður af sölu er­lendrar starf­semi Endor nam 160 milljónum króna.

Af­koma félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 322 milljónir króna eftir skatta.

Rekstrar­tekjur Sýnar á þriðja árs­fjórðungi drógust saman um 2% milli ára og námu 5.265 milljónum króna.

Hluta­bréfa­verð Sýnar hefur nú lækkað um rúm 38% á árinu en markaðs­dagur Sýnar hefst kl 13:00.

Fjölmiðla- og fjar­skipta­félagið mun þar fara yfir framtíðar­stefnumótun félagsins en í upp­gjörinu sagði Her­dís Dröfn Fjeld­sted for­stjóri að rekstrarniður­staða félagsins á árinu hafi verið lituð af of mikilli yfir­byggingu þar sem sam­einingar fyrri ára hafi ekki verið að fullu inn­leiddar inn í rekstur félagsins.

„Ég er þess full­viss um að ný áhersla okkar og átak í djúpri samþættingu og ein­földun innan Sýnar muni leggja grunninn að sjálf­bærum langtíma hagnaði og vexti. Við höfum unnið mark­visst að mótun nýrrar stefnu Sýnar síðustu mánuði þar sem helstu drif­kraftar eru skil­virkni, vöxtur og sam­vinna og lítum björtum augum til framtíðar,“ sagði Her­dís í upp­gjörinu.