Hrekkjavakan verður haldin hátíðleg um allan heim þann 31. október næstkomandi en hátíðin Halloween er í raun stytting á nafninu All Hallows‘ Eve, vakan fyrir Allraheilagramessu sem er tileinkuð píslarvottum kirkjunnar.

Upphaflega var þessi messa haldin 1. mars en árið 834 var dagsetning hennar færð yfir á 1. nóvember til að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.

Hefð myndaðist fyrir þessari keltnesku hátíð á Írlandi og í Skotlandi að kveikja í bálköstum og að ganga á milli húsa í búningum og grímum. Þegar Írar og Skotar fluttust svo til Ameríku á 19. öld tóku þau þessa hefð með sér og hefur hún lifað af í því formi síðan þá.

Hátíðin hefur nú breiðst út um allan heim og á hverju ári taka til að mynda sífellt fleiri Íslendingar þátt í þessari hefð með því að kortleggja heimili sín á Facebook-síðum þar sem börn geta komið og tekið þátt í að betla nammi í búningum með foreldrum sínum.

Milli austurs og vesturs

Hrekkjavakan hefur meira að segja náð sér fótfestu í fjarlægum löndum í Asíu. Í Japan og Suður-Kóreu nota mörg ungmenni tækifærið til að klæða sig í búninga og hitta vini sína úti á götum til að halda daginn hátíðlegan.

Krúttlegasti hermaður kínverska alþýðuhersins í leit að sælgæti.
© EPA-EFE (EPA-EFE)

Kínversk ungmenni hafa einnig tekið þátt og í gegnum árin hafa barir og skemmtistaðir í stórborgum landsins auglýst hrekkjavökuveislur fyrir áhugasama Kínverja og erlenda náms- og starfsmenn með heimþrá.

Í ár hefur þessi veisla hins vegar ekki fengið eins mikið lof frá kínverskum stjórnvöldum en um síðustu helgi mátti sjá töluverðan fjölda lögreglumanna á götum stórborga eins og Shanghai handtaka Kínverja fyrir það eitt að klæða sig í búning.

Barir og skemmtigarðar í Shanghai höfðu auglýst hrekkjavökukvöld og er ekki vitað til þess að yfirvöld hafi haft nein afskipti af því en mikill fjöldi lögreglumanna safnaðist saman á Julu Road í miðborg Shanghai til að leysa upp veisluhald á þessari vinsælu bargötu.

Myndbönd fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum sem sýndu lögreglumenn handtaka fólk sem klætt var í Batman- eða Deapool-búninga og sögðu sumir netverjar að þeim hefði verið skipað að fjarlægja andlitsmálningu á lögreglustöð.

Pólitísk ádeila

Viðbrögð kínversku lögreglunnar í ár koma ekki endilega mikið á óvart miðað við hvernig Hrekkjavakan var haldin í fyrra. Hrekkjavaka 2023 var í fyrsta sinn sem Kínverjar fengu að halda upp á hátíðina frá því heimsfaraldur skall á og vildu ungmenni skiljanlega ekki láta daginn fram hjá sér fara.

Hvítu sóttvarnargallarnir urðu að nokkurs konar kennileiti fyrir harðræði á tímum Covid.
© Twitter (X) (Twitter (X))

Margir notuðu hins vegar tækifærið og klæddust búningum sem gerðu grín að pólitískum og samfélagslegum aðstæðum í Kína. Fjöldi Kínverja ákvað að klæðast því sem margir óttuðust á tímum heimsfaraldurs, lögreglumenn sem klæddust hvítum sóttvarnargöllum og fengu það verkefni að færa fólk með valdi í einangrunarbúðir eða læsa því inni heima hjá sér.

Kínverjar hafa klæðst annaðhvort Batman, öryggismyndavél eða hrynjandi vísitölu.
© Samsett (SAMSETT)

Ein stelpa klæddist sem atvinnulaus nýútskrifuð háskólastelpa og gerði þannig grín að hárri atvinnuleysistíðni ungmenna í landinu. Annar Kínverji gerði búning úr Shanghai-vísitölunni sem sýndi hana hrynja um 10%.

Hátíðarstemningunni í ár lauk hins vegar um klukkan 22:00 þegar hópur lögreglumanna mætti til að girða af garðinn Zhongshan Park og samkvæmt einum sjónarvotta var öllum gestum sagt að afklæðast búningum sínum þegar þeir yfirgáfu svæðið.

Einn íbúi borgarinnar sagði við fréttastofu BBC að fjöldi lögreglumanna á svæðinu væri meiri en fjöldi þeirra sem mættu í búningum. „Shanghai á ekki að vera svona. Borgin hefur alltaf verið mjög umburðarlynd.“