KLAK – Icelandic Startups hélt sína árlegu grillveislu, BBQ & Pitch, rétt fyrir helgi en um er að ræða árlegan viðskiptahraðal þar sem frumkvöðlar, sprotar og fjárfestar gæða sér á hamborgurum áður en þátttakendur flytja erindi fyrir áhorfendur.

Grillmeistararnir í ár voru Björn Skúlason, forsetagæi, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra, Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, Helga Valfells meðeigandi Crowberry Capital og Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri sprotaseturs Grósku.

„Við höldum reglulega lyftukynningaviðburði í okkar verkefnum hjá KLAK og því fannst okkur tilvalið í ár að ýta frumkvöðlunum enn meira út fyrir þægindarammann og taka lyftukynninguna í skæralyftu sem kom virkilega skemmtilega út. Þetta er í fimmta sinn sem við keyrum Startup SuperNova og það er magnað að sjá hvað gæðin í sprotaumhverfinu vaxa á hverju ári,“ segir Freyr Friðfinnsson, verkefnastjóri Startup SuperNova hjá KLAK - Icelandic Startups.

Jóhannes Ólafur Jóhannesson hjá FairGame flutti meðal annars erindi á viðburðinum
© Þóra Ólafs (Þóra Ólafs)

Sprotafyrirtækin sem tóku þátt í Startup SuperNova og fóru með lyftukynningar voru FairGame, GrowthApp, JarðarGreining, Massif.Network, Medvit Health, Neurotic, TAPP, Thorexa, The Gyna-app, VibEvent.

„Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hvað jarðvegurinn er frjór og framtíðin björt í nýsköpunarsenunni og það er hægt að segja að teymin í ár séu einstaklega sterk og þeirra verkefni eru án efa meðal þeirra sem við munum sjá meira af á næstu árum. Startup SuperNova fer stigvaxandi ár frá ári og gaman að sjá þann fjölda sem mætti á viðburðinn sem sýnir okkur að áhuginn og meðbyrinn er mikill,“ segir Sigurbjörn Ari Sigurbjörnsson, markaðsstjóri Nova.