Greiningaraðilar gera ráð fyrir því að bandaríski seðlabankinn muni hækka stýrivexti bankans um 25 punkta á næstu þremur fundum í mars, maí og júní, til að bregðast við þenslu í hagkerfinu.

Stýrivextir seðlabankans standa nú í 4,5-4,75% en þeir hafa verið hækkaðir hratt frá því að þeir stóðu í 0-0,25% fyrir minna en ári síðan.

Bankinn hefur hækkað vexti á síðustu átta fundum, þar af fjórum sinnum um 75 punkta og tvisvar sinnum um 50 punkta. Nú er áætlað að bankinn láti nægja að hækka vexti um 25 punkta í senn.