Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 4,75%. „Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.
Um er að ræða sjöunda skiptið í röð sem nefndin ákveður að hækka vexti, eða við allar vaxtaákvarðanir frá því í maí 2021. Frá þeim tíma hafa meginvextir bankans hækkað úr 0,75% í 4,75%.
Nefndin segir að peningastefnan muni á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. „Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.“
Nefndin minnist á að verðbólgu hafi aukist í maí og mælst 7,6%. Enn sem fyrr vegi hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliðaþungt auk þess sem olíu- og hrávöruverð hefur hækkað mikið.
Sjá einnig: Flýttu birtingu fyrir peningastefnunefnd?
„Verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur aukist. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað á flesta mælikvarða og eru yfir verðbólgumarkmiði.“
Nefndin bendir á að samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga hafi hagvöxtur verið nokkru meiri á fyrsta ársfjórðungi en gert var ráð fyrir í maíheftir Peningamála. Þá séu vísbendingar um að þróttur innlendra umsvifa verði áfram kröftugur og hlutfall fyrirtækja sem segjast skorta starfsfólk hefur ekki mælst hærra fá árinu 2007.
„Á móti vegur að væntingar bæði heimila og fyrirtækja um efnahagsframvinduna hafa heldur dalað og töluverð óvissa er um alþjóðlegar efnahagshorfur.“