Danska orkufyrirtækið Ørsted hefur ákveðið að taka ekki þátt í næstu útboðum danskra stjórnvalda um bindingu og förgun koltvíoxíðs (CCS), þrátt fyrir að hafa áður verið leiðandi í greininni.
Fyrirtækið hyggst þess í stað beina kröftum sínum að vindorku á hafi úti.
„Ákvörðunin er í samræmi við það að skerpa á og þrengja einbeitinguna okkar, með megináherslu á vindorku,“ segir Ole Thomsen, aðstoðarforstjóri Ørsted, í skriflegu svari til danska viðskiptamiðilsins Børsen.
Gæti haft afleidd áhrif
Philip Fosbøl, prófessor í efnaverkfræði við Danmarks Tekniske Universitet, sem hefur rannsakað bindingu koltvíoxíðs í áratugi, segir þetta alvarlegt skref.
„Þetta er stærsti og mikilvægasti leikmaðurinn á markaðnum sem nú dregur sig alfarið úr honum. Það er ekki gott,“ segir hann.
Fosbøl óttast að fleiri fyrirtæki gætu fylgt í kjölfarið og að trú á verkefnum minnki:
„Ef Ørsted getur ekki látið þetta ganga, er það þá eitthvað sem við höfum ekki séð?“
Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað bent á að binding koltvíoxíðs sé nauðsynleg til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins, þar sem enn vanti aðra raunhæfa tækni fyrir ýmsa geira sem losa mikið af koltvíoxíð.
Með ákvörðuninni fellur niður áform Ørsted um að byggja nýtt bindingar- og förgunarbú í Skærbæk-orkuverinu í Fredericia.
Fyrirtækið var eitt af tíu sem fékk að sækja hlut úr 28,7 milljarða danskra króna sjóði ríkisins til CCS-uppbyggingar.
Ørsted hefur þó þegar tryggt sér 8 milljarða danskra í fyrra útboði og er að byggja tvær slíkar stöðvar við Avedøreværket og Asnæsværket. Þar á að hefja bindingu 430 þúsund tonna CO₂ á ári frá og með byrjun næsta árs og í 20 ár.
Thomsen segir að núverandi framkvæmdir gangi samkvæmt áætlun og að ákvörðunin um að draga sig úr framtíðaráföngum hafi engin áhrif á þær.
Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Ørsted tilkynnti 60 milljarða danskra króna hlutafjáraukningu, eftir að hafa þurft að afskrifa yfir 40 milljarða króna vegna misheppnaðrar útrásar með vindorkuver í Bandaríkjunum.
Hlutabréfaverð félagsins hefur fallið um 60% á þremur árum.
Fosbøl bendir á að fjárhagsleg staða gæti hafa haft áhrif, þótt fyrirtækið neiti að staðfesta það.
Hann segir einnig að strangar kröfur í útboðsskilmálum geri mörgum erfitt fyrir að taka þátt, þar sem útboðsverðlaunahafi beri sjálfur allan skaða ef hann nær ekki að uppfylla skilyrðin – jafnvel þótt ástæðan sé mistök birgja.
„Margir vilja taka þátt í þessum loftslagslausnum en áhættan er orðin of mikil,“ segir hann.
Fosbøl telur að ef Ørsted hættir alfarið á þessu sviði geti Danmörk misst af tækifæri til að skapa útflutningsverðmæti úr loftslagstækni sem heimsmarkaðurinn kallar eftir að hans mati.