Danska orku­fyrir­tækið Ørsted hefur ákveðið að taka ekki þátt í næstu út­boðum danskra stjórn­valda um bindingu og förgun kol­tvíoxíðs (CCS), þrátt fyrir að hafa áður verið leiðandi í greininni.

Fyrir­tækið hyggst þess í stað beina kröftum sínum að vindorku á hafi úti.

„Ákvörðunin er í samræmi við það að skerpa á og þrengja ein­beitinguna okkar, með megin­áherslu á vindorku,“ segir Ole Thom­sen, aðstoðarforstjóri Ørsted, í skrif­legu svari til danska við­skipta­miðilsins Børsen.

Gæti haft afleidd áhrif

Philip Fosbøl, pró­fessor í efna­verk­fræði við Dan­marks Tekniske Uni­versitet, sem hefur rann­sakað bindingu kol­tvíoxíðs í ára­tugi, segir þetta al­var­legt skref.

„Þetta er stærsti og mikilvægasti leik­maðurinn á markaðnum sem nú dregur sig al­farið úr honum. Það er ekki gott,“ segir hann.

Fosbøl óttast að fleiri fyrir­tæki gætu fylgt í kjölfarið og að trú á verk­efnum minnki:

„Ef Ørsted getur ekki látið þetta ganga, er það þá eitt­hvað sem við höfum ekki séð?“

Sam­einuðu þjóðirnar hafa ítrekað bent á að binding kol­tvíoxíðs sé nauð­syn­leg til að ná mark­miðum Parísar­sam­komu­lagsins, þar sem enn vanti aðra raun­hæfa tækni fyrir ýmsa geira sem losa mikið af kol­tvíoxíð.

Með ákvörðuninni fellur niður áform Ørsted um að byggja nýtt bindingar- og förgunar­bú í Skær­bæk-orku­verinu í Fredericia.

Fyrir­tækið var eitt af tíu sem fékk að sækja hlut úr 28,7 milljarða danskra króna sjóði ríkisins til CCS-upp­byggingar.

Ørsted hefur þó þegar tryggt sér 8 milljarða danskra í fyrra út­boði og er að byggja tvær slíkar stöðvar við Avedøreværket og Asnæsværket. Þar á að hefja bindingu 430 þúsund tonna CO₂ á ári frá og með byrjun næsta árs og í 20 ár.

Thom­sen segir að núverandi fram­kvæmdir gangi sam­kvæmt áætlun og að ákvörðunin um að draga sig úr framtíðaráföngum hafi engin áhrif á þær.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Ørsted til­kynnti 60 milljarða danskra króna hluta­fjáraukningu, eftir að hafa þurft að af­skrifa yfir 40 milljarða króna vegna mis­heppnaðrar útrásar með vindorku­ver í Bandaríkjunum.

Hluta­bréfa­verð félagsins hefur fallið um 60% á þremur árum.

Fosbøl bendir á að fjár­hags­leg staða gæti hafa haft áhrif, þótt fyrir­tækið neiti að stað­festa það.

Hann segir einnig að strangar kröfur í út­boðs­skilmálum geri mörgum erfitt fyrir að taka þátt, þar sem út­boðsverð­launa­hafi beri sjálfur allan skaða ef hann nær ekki að upp­fylla skil­yrðin – jafn­vel þótt ástæðan sé mistök birgja.

„Margir vilja taka þátt í þessum lofts­lags­lausnum en áhættan er orðin of mikil,“ segir hann.

Fosbøl telur að ef Ørsted hættir al­farið á þessu sviði geti Dan­mörk misst af tækifæri til að skapa út­flutnings­verðmæti úr lofts­lagstækni sem heims­markaðurinn kallar eftir að hans mati.