Endurmetnar afkomuhorfur gera ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs verði rúmlega 75 milljarðar króna í ár, eða 1,7% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til fimmtu fjáraukalaga ársins.
Afkomuhorfurnar versna um 7 milljarða króna frá fyrri áætlun sem gerði ráð fyrir 68 milljarða halla.
„Lækkun á afkomuhorfum ríkissjóðs frá fyrra mati nemur því 7–8 ma.kr. og má rekja til lægri tekna þar sem áætluð útgjöld eru óbreytt. Verði það niðurstaðan mun afkoma ríkissjóðs vera rúmlega 24 ma.kr. eða 0,5% af VLF lakari en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga fyrir árið 2024,“ segir í nefndaráliti meirihlutans.
Mestu lækkunina er að finna í tekjuskatti einstaklinga sem lækkar um 9,3 milljarða króna frá síðustu áætlun. Þá lækkar virðisaukaskatturinn um 5,3 milljarða króna, erfðafjárskatturinn um 3,6 milljarða og áfengisgjaldið um 1 milljarð króna frá fyrri áætlun.
„Á móti minni tekjum af framangreindum sköttum er gert ráð fyrir meiri tekjum af tekjuskatti lögaðila og fjármagnstekjuskatti árið 2024. Hækkunin á tekjuskatti lögaðila nemur 7,0 ma.kr. og er tilkomin vegna góðrar útkomu tekjuskatts við álagningu opinberra gjalda á lögaðila. Hækkun fjármagnstekjuskatts má rekja til góðrar innheimtu það sem af er ári m.a. vegna þess að vaxtastig ársins er lítillega hærra en í fyrri hagspá.“
Hækka lántökuheimildina um 20 milljarða
Meirihlutinn leggur til að lántökuheimild ríkissjóðs verði hækkuð úr 230 milljörðum í 250 milljarða króna „þar sem fyrirséð er að staða ríkisvíxla verður hærri en lagt var upp með í fjárlögum“.
„Skýrist hækkunin að mestu leyti af frestun á sölu hluta ríkissjóðs í Íslandsbanka hf. Þá er lagt til að heimild fyrir endurlán til Byggðastofnunar verði hækkuð úr 3 ma.kr. og verði allt að 5 ma.kr. á árinu 2024 vegna aukinnar eftirspurnar eftir lánum í kjölfar aðildar Byggðastofnunar að ábyrgðarkerfi Evrópska fjárfestingasjóðsins (EIF).“
Í frumvarpinu er lagt til að fjárheimildir málefnasviða verði auknar um 24,5 milljarða króna sem samsvarar 1,6% hækkun frá áður samþykktum fjárheimildum í fjárlögum ársins 2024. Þar vega þyngst aukin vaxtagjöld upp á 14,6 milljarða króna og breyting á frumgjöldum að fjárhæð 9,9 milljarðar króna.