Landsbankinn hf., Bál ehf. og Solvent ehf., sem eru eigendur að öllu hlutafé í Greiðslumiðlun Íslands ehf., sem á m.a. dótturfélagið Motus, hafa ákveðið að bjóða hluti sína til sölu í opnu söluferli.
Greint er frá þessu á vef Landsbankans. Áætlaður tilboðsfrestur til að skila inn óskuldbindandi tilboði er til kl. 16, föstudaginn 20. desember næstkomandi.
„Söluferlið fer fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og er opið öllum fjárfestum sem uppfylla ákveðin skilyrði fyrir þátttöku í söluferlinu, svo sem um fjárhagslega getu,“ segir í frétt á vef Landsbankans.
Landsbankinn á 47,9% hlut í Greiðslumiðlun Íslands (GMÍ) á móti 39,8% hlut Báls ehf. og 12,3% hlut Solvent ehf. eiga samtals 52,1% hlut í GMÍ. AF1 - GMÍ ehf., félag í eigu Umbreytingar 1, framtakssjóðs Alfa Framtaks, á meirihluta í Báli og Solvent.
Seljendur hafa ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og ARMA Advisory sem umsjónaraðila við framkvæmd á söluferlinu.
Undir samstæðu GMÍ eru vörumerkin Motus í innheimtu og kröfustýringu, Lögheimtan í löginnheimtu, Pacta í lögfræðiþjónustu og Pei í greiðslulausnum. Fram kemur að Motus sé stærsti aðilinn á innlendum innheimtumarkaði með yfir 2.300 viðskiptavini og um 53.000 notendur eru í Pei.
Tekjur samstæðu GMÍ námu 2,2 milljörðum króna árið 2023 og félagið hagnaðist um 75 milljónir króna. Eignir GMÍ námu 2,7 milljörðum og eigið fé var um 1,4 milljarðar í árslok 2023.
Rekja má stofnun Greiðslumiðlunar Íslands til ársins 1980 sem er í dag með höfuðstöðvar í Katrínartúni í Reykjavík auk starfsstöðva á Selfossi og Akureyri