Hlutabréfaverð Símans hefur lækkað um meira en 5% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur nú í 11,3 krónum á hlut samanborið við 12,0 krónur við lokun Kauphallarinnar á föstudaginn.

Síminn tilkynnti í gærkvöldi að Franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian væri ekki reiðubúið að ljúka kaupum á Mílu af grundvelli óbreytts kaupsamnings vegna íþyngjandi samkeppnisskilyrða. Síminn hafði komist að samkomulagi í október síðastliðnum um að heildarvirði Mílu í viðskiptunum yrði 78 milljarðar króna.

Sjá einnig: Ardian vill breyta kaupsamningi Mílu

Það væri mat Ardian að ef samruninn verði samþykktur af hálfu samkeppnisyfirvöldum með fyrirliggjandi skilyrðum þá feli það í sér að eitt af skilyrðum þess að viðskiptin gangi í gegn samkvæmt kaupsamningnum teljist ekki uppfyllt. Síminn sagði ljóst að þörf væri á viðræðum við Ardian um atriði sem varða kaupsamninginn samhliða viðræðum Ardian við Samkeppniseftirlitið.